Spássían - 2011, Side 9
9
Battlestar Galactica mátti jafnvel sjá konu sem forseta Bandaríkjanna
en enn virðist ekki jarðvegur fyrir svo róttækar hugmyndir í
raunveruleikanum.
Fantasían er vítt og loðið hugtak og ekki óalgengt að
vísindaskáldskapur sé settur undir þann hatt ásamt öllu því sem ekki
telst tilheyra hinum „raunverulega heimi“. Flestir leggja þó áherslu
á að skilja þarna á milli. Joanna Russ lýsir muninum eitthvað á þessa
leið: Raunsæjar bókmenntir eigi að endurspegla þann heim sem
lesandinn þekkir, fjalla um það sem er til. Fantasían sé á skjön við
raunveruleikann, fjalli um það sem getur ekki verið til. Ánægjan við
vísindaskáldskapinn felist hins vegar í tengslum hins raunverulega
við það mögulega, það sem hefur ekki gerst en við getum fallist á
að gæti gerst.1 Vísindaskáldskapur má nefnilega ekki stríða gegn
því sem er þekkt: „Aðeins á þeim sviðum þar sem ekkert er þekkt
– eða þekkingin er óljós – er leyfilegt að „skálda bara“.“2 Það
eru einmitt þessi raunveruleikatengsl sem hafa vafist fyrir fólki.
Vísindaskáldskapur þarf að vera bæði mögulegur og ómögulegur í
sömu hendingu.3 Hann valsar á milli raunsæis og fantasíu.
Á mörkum fantasíu og vísindaskáldskapar er líka
frjótt svæði og margir höfundar búa til nokkurs konar hliðstæða
furðuheima með sterka tengingu við okkar heim en lögmál sem
standast ekki að öllu leyti okkar vísindalegu heimssýn. Í þríleik James
Morris um Guð finna menn risastóran líkama Guðs, sem reynist vera
í dauðadái og smám saman að veslast upp. Áður en hann gefur
upp öndina gengur þó ýmislegt á og eru m.a. haldin réttarhöld yfir
honum vegna allra þjáninga mannkyns. Undir lokin svífur hauskúpa
Guðs á sporbaug um jörðu, sem áminning um að við séum nú ein
og yfirgefin. Þrátt fyrir drungaleg viðfangsefni er þríleikur Morris
drepfyndinn og fullur af heimspekilegum vangaveltum. Í Kraken,
frásögn af risakolkrabba sem kannski er guð, dansar China Miéville
einnig á mörkum grínfantasíu og súrrealisma. Útkoman verður hins
vegar fáránleg langloka með engar tengingar við veruleikann. Og það
sem verra er, fátt sem er fyndið. Í einni frægustu bók hans, The City &
the City tekst honum mun betur upp enda tengingar við veruleikann
alltaf til staðar þótt við séum óneitanlega flutt á nýstárlegar slóðir.
Furðuvísindi hafa aðdráttarafl út af fyrir sig. Bækur Philips K.
Dicks eru vísindaskáldskapur þótt lögmálin sem þar ríkja séu oft
fantasíukennd. Hugsanalestur og spádómsgáfa er meðal þess sem
þar má finna en þá ber þess að gæta að bækur Dicks eru skrifaðar á
tímum kalda stríðsins, þegar bandaríski herinn gerði í raun og veru
hinar undarlegustu tilraunir í nafni vísindanna; til dæmis kannanir
á mögulegri hugarorku fólks. Kvikmyndin The Men Who Stare at
Goats fjallar um slíkar tilraunir og dregur vel fram hversu fáránleg
framsækin vísindi gærdagsins geta hljómað en þar er maður
sannfærður um að hann hafi drepið geit með augnaráði sínu.
Ný og frumleg hugsun er þó einmitt sá eiginleiki sem gerir
bækur Philips K. Dicks svo frjóar og magnaðar. Hann var óhræddur
við að kanna ný og ótrygg svæði vísindanna, enda sagði hann
sjálfur að góður vísindaskáldskapur yrði að innihalda nýja hugmynd,
eitthvað sem lesandinn hefði ekki getað látið sér detta í hug.4
Fræðimaðurinn Darko Suvin setur fram svipaðar kenningar og Dick
og segir vísindaskáldskap vera grein þar sem frumskilyrðið er ný
hugsun og einhvers konar framandgerving.5 Samuel R. Delany er ekki
á sama máli og telur þetta setja greininni of þröngar skorður. Fjöldi
geimópera bjóði enga krefjandi hugsun. En séu þær undanþegnar
frá greininni samkvæmt skilgreiningunni verði ekkert eftir til að
skilgreina.6
1 Russ, Joanna, To write like a woman: essays in feminism and science fiction,
Indiana University Press, 1995, 16.
2 Sama rit, 6.
3 Sama rit, 24.
4 Dick, Philip K., The Shifting Realities of Philip K. Dick: Selected Literary and
Philosophical Writings, ritstj. Lawrence Sutin, New York, Vintage Books,
1995, 99-100.
5 Delany, Samuel R., „Science Fiction and Criticism: The Diacritics
Interview“, Silent Interviews. On Language, Race, Sex, Science Fiction, and
Some Comics, Hanover og London, University Press of New England, 191.
6 Sama rit, 191-192.
Lítið hefur verið skrifað af vísindaskáldsögum
á Íslandi. Líklegt er að smæð markaðarins
spili þar inn í en mögulega einnig saga og
bókmenntaarfur þjóðarinnar. Fantasían hefur
átt mun greiðari aðgang inn í þjóðarvitundina,
ef til vill fyrir tilstilli þjóðsagnanna. Skáldsagan
Júlía eftir Þórunni Erlu-Valdimarsdóttur
sver sig til dæmis í þá ættina þrátt fyrir að
gerast í óræðri framtíð með geimförum
og tæknivæddum líkömum. Að fantasíunni
slepptri hefur raunsæið fengið að ráða ríkjum
og þær vísindaskáldsögur sem hafa verið
skrifaðar á Íslandi passa sig flestar á því að fara
aldrei of langt frá heimaslóðum.
Niðjamálaráðuneyti Njarðar P. Njarðvík frá
1967 gerist í mjög náinni framtíð og sækir
hugmyndir sínar um skriffinsku, spillingu og
firringu skrifstofuvaldsins vafalítið til 1984
George Orwells og íslensks þjóðfélags á 7.
áratugnum. Nýleg bók, Sautjándinn eftir Lóu
Pind Aldísardóttur, fjallar um nútímann rétt
handan hins kunnuglega og það sama má
segja um Algleymi eftir Hermann Stefánsson.
Lovestar eftir Andra Snæ Magnason er sprottin
upp úr heimi hinnar íslensku erfðagreiningar
og það eru Synir duftsins eftir Arnald Indriðason
einnig. Og ef til vill er erfðafræðin eina
augljósa tenging Íslands við þær hugmyndir
um tækniframfarir sem liggja til grundvallar
vísindaskáldskapnum.