Spássían - 2011, Qupperneq 26
26
Unga fólkið
og listin
„LungA er fyrir ungt fólk á aldrinum
16-25 ára og eru námskeiðin sem
við höldum opin fyrir þennan aldur.
Meðal þess sem verður á dagskrá er
vídeólistanámskeið þar sem kennd
verður gerð tónlistarmyndbanda,
dansnámskeið, leiklistarnámskeið og
multimedianámskeið - svo eitthvað
sé nefnt. Það er auðvitað miklu meira
um að vera, en námskeiðin eru okkar
stolt; að gefa krökkunum færi á að
kíkja inn í þessa heima. Einnig verða
opnaðar 8-10 myndlistarsýningar,
fatahönnunarsýning og boðið upp
á fyrirlestur danskra listamanna um
verk sín og hvernig það er að vinna út
fyrir rammann, fara ótroðnar slóðir.“
Þátttaka dönsku listamannanna
tengist verkefni sem LungA stendur
fyrir sem ber heitið „Out of the box“
og er styrkt af Evrópu unga fólksins
en þrjátíu Íslendingar og þrjátíu Danir
vinna saman að því verkefni.
„Þátttakendur á LungA koma víða
að,“ segir Aðalheiður, „ekki bara
frá Íslandi. Kjarninn er námskeiðin
sem hafa verið til staðar frá byrjun.
Tónlistin, fatahönnunarsýning og
myndlistarsýningarnar komu inn á
seinni stigum.“ Upphaflega stóð
hátíðin yfir frá miðvikudegi fram á
sunnudag en síðustu ár hefur hún
teygt úr sér í heila viku. Ýmsar
uppákomur eru á kvöldin og haldnir eru
stórtónleikar á laugardeginum þar sem
hljómsveitirnar Mammút, Sin Fan, Gus
Gus og Reptile & Retard stíga á stokk
ásamt fleirum. Standa tónleikarnir frá
því klukkan fjögur um daginn og fram
eftir nóttu.
Fjölbreytt dagskrá er öll kvöld
þessa viku. „Við sýnum til að mynda
kvikmyndir,“ segir Aðalheiður, „og
erum með alls kyns uppákomur.“ Á
fimmtudeginum mætir fólk gjarnan
í bæinn til að kíkja á stemninguna
og tjaldstæðin fyllast. Mikill
sköpunarkraftur fylgir hátíðinni
og upplifunin nær hápunkti á
laugardeginum þegar þátttakendur
sýna afrakstur vinnu sinnar eftir vikuna.
Mikið líf er í bænum þessa viku auk
þeirrar dagskrár sem LungA stendur
fyrir. Hátíðin hefur einnig laðað að hóp
af listamönnum sem eru með eigin
viðburði fyrir utan skipulagða dagskrá.
Árið 2009 setti Snorri Ásmundsson
myndlistar- og gjörningamaður, ásamt
Munda Vonda fatahönnuði, upp
veislutjald úti í hólma og stofnaði þar
fríríki.
Aðalheiður tekur það skýrt fram
að aðstandendur geri allt sem í
þeirra valdi stendur til að bjóða upp á
öruggt umhverfi fyrir yngstu gestina.
„Við erum með mjög góða gæslu,
erum með foreldravakt og svo eru
björgunarsveit og lögregla á vakt þann
tíma sem hátíðin stendur yfir. Þau sem
taka þátt í smiðjunum þurfa að fá leyfi
hjá foreldrum og hvetjum við foreldra
til að koma um helgina og vera með
þeim. Það sem mér finnst sorglegt
er að það vantar viðfangsefni fyrir 16
ára krakka á Austfjörðum á sumrin og
það var í raun kveikjan að hátíðinni á
sínum tíma. Við höfum oft rætt um að
hækka aldurstakmarkið upp í 18 ár en
alltaf horfið frá því vegna þess að þar
með værum við að kippa grunninum
undan markmiði hátíðarinnar. Í staðinn
höfum við gert okkar til að trekkja alla
aldurshópa að, m.a. með því að bjóða
50 ára og eldri frítt inn á svæðið.“
Eftir Ástu Gísladóttur
Á hverju ári flykkist hópur ungs fólks austur
á Seyðisfjörð og sekkur sér ofan í listalíf og
listsköpun af öllum toga í boði LungA, listahátíðar
fyrir ungt fólk á Austfjörðum. Hátíðin er nú haldin í
tólfta skipti, dagana 10. – 17. júlí. Boðið er upp á
alls kyns listatengd námskeið, svo og vettvang fyrir
listamenn til að stunda iðju sína í frjóu umhverfi.
Spássían tók Aðalheiði Borgþórsdóttur, ferða- og
menningarmálafulltrúa Seyðisfjarðarkaupstaðar,
tali og grennslaðist fyrir um markmið, sögu og
mikilvægi hátíðarinnar.