Spássían - 2011, Blaðsíða 28

Spássían - 2011, Blaðsíða 28
 28 HVATNING TIL AÐ HALDA ÁFRAM Kristín hefur fengið mörg verðlaun og viðurkenningar fyrir skáldverk sín í gegnum tíðina, til dæmis Norrænu og Vest-Norrænu barnabókaverðlaunin. Nú er að baki hálfgerð verðlaunavertíð, fjöldi bókmenntaverðlauna er afhentur á fyrstu mánuðum ársins og má segja að umræðan í kringum þau framlengi jólabókaumræðuna. Nýjasta skáldsaga Kristínar, Ljósa, fékk bæði Menningarverðlaun DV og Fjöruverðlaunin en Kristín segir að í sínum huga geti aldrei verið of mikið af verðlaunum, þar sem í þeim felist mikil hvatning. „Nú tala ég náttúrulega bara fyrir sjálfa mig, en öll svona verðlaun brýna mig til að halda áfram. Ég get til dæmis ekki fullþakkað það að hafa fengið Fjöruverðlaunin árið 2007 fyrir bókina Á eigin vegum. Ég var búin að sanna mig nokkuð vel sem barnabókahöfundur en var að einhverju leyti að leggja upp í nýja vegferð þegar ég fór að skrifa fyrir fullorðna. Ég þurfti að hasla mér völl á nýjum stað og Fjöruverðlaunin voru fyrsta viðurkenningin sem ég fékk fyrir fullorðinsbók. Það var svo alveg ótrúlegt að fá þau aftur í vetur fyrir Ljósu. Ég get líka nefnt að ég fékk Sögusteininn fyrir þremur árum en hann er veittur fyrir öll verk barnabóka- höfundar frá upphafi. Rithöfundaverðlaun Ríkisútvarpsins sem ég fékk árið 2007 eru líka veitt fyrir höfundarverk og það er óskaplega góð tilfinning að geta litið þannig til baka yfir eitthvað sem hefur tekist vel. Stundum er talað um að það fylgi sjaldan peningar svona verðlaunum. Peningar eru góðir en mér finnst skipta meira máli að vera valin, að verkið mitt sé talið svo gott að það sé ástæða til að lyfta því upp. Mínir bestu dagar eru þegar mér er sagt að ég eigi að fá verðlaun eða tilnefningu en ég má ekki segja frá því. Þá veit ég að mér tókst eitthvað. Þetta eru svo góðir dagar því maður lúrir á leyndarmáli og getur hlýjað sér við tilhugsunina um það á hverjum degi. Og þessi tilfinning skýtur manni áfram. Fyrst þetta tókst þá hlýtur mér að takast það sem ég er með á skrifborðinu. Þá bara held ég áfram.“ Hún hlær að þeirri spurningu hvort slík verðlaun verði ekki til þess að höfundurinn líti yfir farinn veg og ákveði að nú sé þetta orðið harla gott. „Nei, og ég hef nú aldrei hitt kollega sem finnst að hann hafi gert nógu mikið, að nú get hann bara hætt þessu.“ Starfi rithöfundar virðist aldrei lokið og á meðan vinir Kristínar og kunningjar sjá fram á starfslok finnst henni sjálfri að hún sé rétt að byrja. „Ég hugsa að ég hætti aldrei. Á meðan einhver vill lesa mig held ég að ég reyni að puða áfram.“ EKKERT VÆL Kristín er þó langt í frá nýgræðingur í rithöfundastarfinu. Hún var kennari á Akranesi, en eftir að hún gaf út fyrstu barnabók sína árið 1987 segist hún fljótt hafa fundið að hún yrði að hætta kennslunni og einbeita sér að því að skrifa bækur. Á fimmtán ára tímabili skrifaði hún 21 barnabók og getur því sem barnabókahöfundur litið yfir nokkuð langan veg. Auk þess hefur hún nú samanburðinn við það að vera höfundur fullorðinsbóka og segir það ekki að ástæðulausu að barnabókahöfundum þyki þeir oft afskiptir í bókmenntaumræðunni. „Ég hef nú skrifað margar greinar um þetta í gegnum tíðina og man þegar við barnabókahöfundar settum okkur fyrst saman sem grasrótarhópur fyrir árið 1990, einmitt vegna þess að við vorum svo óánægð. Við hittumst bókstaflega til að stappa stálinu hvert í annað og vorum ógurlega heit yfir því hvað okkur fannst barnabókin lítils metin. Börnum Hvunndagshetjurnar eins og hnefi á samfélagið Kristín Steinsdóttir hefur gefið út ótal barnabækur og samið leikrit í félagi við systur sína en undanfarin ár hafa skáldsögur hennar slegið í gegn hjá fullorðnum lesendum. Þrátt fyrir langan rithöfundaferil finnst henni hún rétt vera að byrja og lítur á þær viðurkenningar sem hún hefur fengið sem hvatningu til að halda áfram. Spássían ræddi við Kristínu um andóf hversdagshetjanna, um vandann að skrifa um sára, persónulega reynslu og um sögupersónur sem valda enn uppnámi og átökum á mannamótum. Eftir Auði Aðalsteinsdóttur

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.