Spássían - 2011, Page 34
34
„ógeðsleg,
loðin og
ófrumleg
hæðnisrotta“
Ég – um mig – frá mér – til mín
Á netinu eru að finna aragrúa tískublogga og langflest eiga
þau það sameiginlegt að vera haldið úti af huggulegri konu
á þrítugsaldri sem hefur einlægan áhuga á tísku, förðun og
fylgihlutum. Bloggynjur fylgjast náið með þróun mála í þessum
efnum enda er tíska jafnan þeirra helsta áhugamál og um þetta
blogga þær – með sjálfar sig í aðalhlutverki.
Dæmigerð færsla tískubloggs inniheldur ljósmynd af
bloggynjunni í fallegum fötum. Fyrir neðan eru upplýsingar um
fötin, t.d. hvar þau voru keypt, og jafnvel hvernig hugmyndin að
þessari tilteknu fatasamsetningu kom til og henni gefin einkunn.
Fyrir utan fatapósta skrifa bloggynjur um förðun og hárgreiðslu
og hvaða föt, förðunarvörur og fylgihluti þær langar til að eignast.
Bloggin eru mispersónuleg og í sumum tilvikum er einnig fjallað
um daglegt líf, fjölskyldumeðlimi og vini.
Þau tískublogg sem njóta hvað mestrar hylli eru glæsilega
hönnuð, reglulega uppfærð og færslurnar eru faglega unnar.
Sumum bloggynjum hefur gengið svo vel að bloggið er orðið að
atvinnu þeirra þar sem fyrirtæki borga fyrir auglýsingar á síðum
þeirra. Stúlkurnar birta sérstakar færslur sem eru styrktar af
hinum og þessum fyrirtækjum og bjóða jafnvel upp á gjafapóst þar
sem heppinn lesandi getur eignast ákveðna vöru frá styrktaraðila
síðunnar. Þetta á t.d. við um Íslandsvininn Jessicu Quirk sem
heldur úti blogginu What I Wore (og á íslenska lopapeysu), Emily
á Chasmere and Cupcakes og Indiana Adams á Adored Austin.
Fyrir daga Fésbókar úði netið og grúði af sjálfhverfum
bloggum. Þau hafa flest horfið inn í Flettismettið og eftir standa
vandaðri blogg – blogg sem gjarnan tengjast því sem er að gerast
í samfélaginu – og svo tískublogg, sem í eðli sínu eru ákaflega
sjálfhverf. Bloggynjan setur upp og heldur úti vefsvæði um
sjálfa sig – eða afmarkaðan hluta sjálfsins. Hún birtir myndir af
sjálfri sér, skrifar um sjálfa sig og fötin sem hún klæðist og fær
athugasemdir frá lesendum um persónuleika sinn, útlit, fatastíl
og viðhorf. Bloggarinn getur fylgst náið með vinsældum sínum,
t.d. með því að skoða innlit og flettingar á síðuna, hversu margir
gera athugsemdir við hverja færslu, hvort fyrirtæki vilji styrkja
síðuna o.s.frv. Tískublogg ganga út á sérstakan og einstakan
persónuleika bloggarans og fatastíl – það er hann sem dregur
fólk að síðunni. Því er ekki skrítið að H finnist leiðinlegt að Hildur
Knútsdóttir skuli þykjast vera Tískubloggarinn eini og sanni,
sérstaklega þar sem H býst við að fara hvað úr hverju að fá tekjur
í tengslum við Tískubloggið.
„Ég á nokkur föt og ég nota þau gjarnan”
H fylgir öllum grundvallarreglum hins almenna tískubloggara.
Hún birtir „out-fit posts“ með ljósmyndum af sjálfri sér og
upplýsingum um hvaðan fötin koma en munurinn á henni og
hefðbundnari bloggynjum er sá að H skrifar nær eingöngu um
„helgarátfitt“ eða „kósíföt“. Undirtitill bloggsins er „ég á nokkur
föt og ég nota þau gjarnan“ sem er ólíkt flestum bloggynjum
sem eiga svo mikið af fötum að þær eru í vandræðum með að
nota þau hvað þá koma þeim fyrir. Fatastíll H er líka óvenjulegur
en hann samanstendur af víðum náttbuxum, stuttermabolum
(helst af kærastanum), ósamstæðum sokkum og hári sem ýmist
er þvegið eða óþvegið. Kettir fylgja stundum með á myndunum
sem fylgihlutir.
Eins og margir tískubloggarar birtir H ráðleggingapósta um
holdafar og húðumhirðu, t.d. hina ógleymanlegu færslu „14 leiðir
til að grennast” og uppskrift að húðljómandi andlitsmaska, sem
reyndar inniheldur lauk og væri ugglaust betri á brauð en andlit.
Líkt og aðrar vefmeyjar birtir hún áráttupósta um það sem á hug
hennar í það og það skiptið. Yfirleitt er um að ræða ákveðna
Eftir Helgu Birgisdóttur
Ef marka má fjölmiðlaumfjöllun
er Hildur Knútsdóttir, höfundur
skáldsögunnar Sláttur, pen og
snotur stúlka sem er ánægð
með að hafa fengið útgefna sína
fyrstu skáldsögu. Á Tískublogginu
kemur hins vegar fram að Hildur
sé „ekkert nema ógeðsleg,
loðin og ófrumleg hæðnisrotta“
sem skrifaði alls ekki sjálf
þessa „meintu bók“. H, eigandi
Tískubloggsins, er öskureið og
sakar Hildi Knútsdóttur um að
vera „póser“ – að hún hafi reynt
að sölsa undir sig Tískubloggið og
nota það sér til framdráttar. Hér
verður grafist fyrir um uppruna og
tengsl H, Tískubloggsins, Hildar
Knútsdóttur og bókarinnar Sláttur.
Um tísku, blogg og skáldsöguna Slátt