Spássían - 2011, Side 35
35
skótegund eða t.d. handtösku en H er frumleg snót og birtir
ekki „obsession“-pósta heldur „bobsession“-pósta um þann
Bob sem hún girnist hverju sinni. Innblásturspóstar eru ekki
óalgengir hjá bloggynjum, en H lætur sér ekki nægja að skrifa
um augnskugga og nælonsokka heldur skrifar hún þeim mun
meira um beikon og hefur virkilega jákvætt viðhorf til þess og
sér fjölbreyttari notkunarmöguleika í beikoni en flestir.
H vísar líka í áhugaverðar fréttir sem veita henni innblástur,
fréttir af vefsvæðum eins og bleikt.is, Smartland Mörtu Maríu
og vef Pjattrófanna. Því miður hafa forsvarsmenn þessara
vefsvæða lagt H í hálfgert einelti og neita að birta athugsemdir
hennar við færslur sem birtast á þessum vefjum. Um allt þetta
er hægt að lesa á Tískublogginu, m.a. tölvupóstsamskipti H við
Pjattrófurnar og Mörtu Maríu Jónasdóttur. H þykir mjög miður
að njóta ekki sannmælis meðal þessara vefmeyja.
Eins og öll önnur tískublogg snýst blogg H fyrst og fremst um
hana sjálfa. Það sem skilur Tískubloggið hins vegar frá öðrum
bloggum sömu tegundar er sú staðreynd að Tískubloggið er
fyrst og fremt drepfyndin og háðsk gagnrýni á einmitt það sem
það er – tískublogg. Þessu ná sumir en aðrir ekki eins og sjá má
í athugsemdakerfi bloggsins þar sem lesendur geta lagt fram
sína skoðun á hverri færslu fyrir sig. Þetta á t.d. við um Couture
Girl sem hafði ekkert gott um legnám H að segja:
H, sem aldrei dettur úr karakter, finnst hið besta mál að hafa
farið í legnám þar sem legnámið stuðlar að grennra mitti og
verði hún einhvern tíma móðir seinna meir mun hið ættleidda
barn njóta þess að eiga granna móður sem er ánægð með sjálfa
sig.
H gengur ansi langt í gríninu og Couture Girl er ekki sú eina sem
á eftir að „fatta djókinn“. Líklega þarf maður að vera nokkuð vel
lesinn í tískubloggum til að átta sig almennilega á því hvað það
er sem H deilir á en líklega eru ekki margir almennir lesendur
tískublogga sem hafa mikinn áhuga á samfélagsgagnrýni H.
Póserar og hæðnisrottur
Draumur H um að skrifa bók tengda blogginu er ekki úr lausu
lofti gripinn. Tískublogg eru ákaflega vinsæl og nú í dag vinna
að minnsta kosti tveir bloggarar, Jessica á What I Wore og Emily
á Cupcakes and Casmere, að bókum sem byggjast á bloggunum
þeirra.
Í janúar síðastliðnum var H þess fullviss að „ferskir vindar“
myndu blása um Tískubloggið á nýju ári þar sem hún ætlaði í
brjóstastækkun og beið spennt eftir því að „forleggjarar sjái
sóma sinn í því að bjóða mér framvirkan útgáfusamning, ...“2
Draumur H virðist ætla að verða að veruleika ef marka má
athugsemdir við færsluna. Væntanleg lífstíls- og tískubók
H verður með svipuðu sniði og sjálft bloggið en bók Hildar
Knútsdóttur, póserans ógurlega og hæðnisrottunnar, er allt
öðruvísi og alls ekki um beikon, megranir eða Bob. Hún heitir
Sláttur og fjallar um stúlku sem farið hefur í hjartaskiptaaðgerð.
Hjartað var grafið í kyrrþey
Edda er 24 ára gömul, það eru fimm ár síðan hún fór í aðgerðina
og mamma hennar er búin að grafa „gamla“ hjartað í kyrrþey,
til fóta við kistu ömmu hennar. Tölfræðin er henni ekki hliðholl,
hún veit að margir hjartaþegar lifa ekki lengi og vegna þessa
á hún erfitt með að ímynda sér og skapa sér nokkra framtíð.
Nútíðin er líka erfið – einmanaleg og tilgangslaus og Edda á
samskipti við ósköp fáa, fyrir utan vinnufélaga sína, móður og
sálfræðing. Hún á enga vini enda eyddi hún æskunni meira og
minna inni á sjúkrastofnunum. Hún hugsar heilmikið um nýja
hjartað – hverjum það tilheyrði og að hve miklu leyti það sé
nú hennar eigið. Inn í frásögnina fléttast feðgar, Gunnar og
Eysteinn. Edda gerist barnfóstra Eysteins, sem er viðkvæmur og
skyggn, og reynist þegar allt kemur til alls vera sonur konunnar
sem upphaflega átti hið nýja hjarta Eddu.
Sláttur er ljúfsár saga um tilfinningar sem aðalsögupersónan
er ekki viss um að séu hennar eða í nokkrum tengslum við
hjartað sem er aðeins hennar að hluta. Sagan er eins ólík
Tískubloggi H og frekast getur verið og því ekki skrítið að Hildur
Knútsdóttir skuli segja að ekki sé víst að lesendum bloggsins líki
bókin.3 Síðan getur það auðvitað verið á hinn veginn – lesendum
getur líkað stórvel við bókina en fundið blogginu allt til foráttu.
Sláttur er einlæg frásögn og ekta – nokkuð sem Tískubloggið
nær aldrei nokkru sinni að vera, enda er því ekki ætlað annað en
vera sjálfhverft, yfirborðskennt og grunnhyggið. Staðreyndin er
hins vegar sú að þessi fyrsta skáldsaga Hildar Knútsdóttur, eða
„meinta bók“ hennar eins og H orðar það, hefði varla hlotið jafn
mikla kynningu og raun ber vitni ef ekki hefði verið fyrir bloggið.
H er hræðileg stúlka, stúlka sem þurfti næstum að hætta með
kærastanum því hann reyndist ekki vera í sama blóðflokki og
hún, og enn hræðilegri er hún ef við tökum hana alvarlega. Það
vona ég að enginn geri heldur líti á hana sem skondinn spéspegil
hins almenna tískubloggs. Hins vegar vona ég að lesendur taki
Hildi Knútsdóttur alvarlega og svipist um eftir fleiri bókum eftir
hana í framtíðinni.
1 H, „Post-op átfitt”, Tískubloggið, 13. ágúst 2010, sótt 25. maí 2011 af http://
tiskublogg.blogspot.com/2010/08/post-op-atfitt.html.
2 H, „ársuppgjör Tískubloggsins“, Tískubloggið, 3. janúar 2011, sótt 25. maí
2011 af http://tiskublogg.blogspot.com/2011/01/arsuppgjor-tiskubloggsins.
html.
3 Atli Þór Fanndal, „Tískublogg og skáldsaga“, Smugan, 18. janúar 2011, sótt
25. maí 2011 af http://www.smugan.is/menning/baekur/nr/4943.
Mynd birt með góðfúslegu leyfi Tískubloggsins.
Þar segir H:
„P.S. Hérna er mynd sem ég fann af henni og hinni
meintu „bók“ hennar á alnetinu. Sjáið bara hvað hún
er ógeðsleg. Hún er með yfirvaraskegg og bringuhár
og hún slefar pissi.“
þú ert mikið að grínnast á þessari síðu og ég ætla
rétt að vona að þetta sé grín annars ertu ógeðslega
hræðinleg manneskja!!!!!! kannski bara gott að þú
eigist ekki börn ef þú gerir svona í alvöru!!!!!!!1