Spássían - 2011, Qupperneq 37
37
á líkama og sál. „Og systir hans gefst
upp; segist þurfa að lifa sínu eigin lífi,
finnst of erfitt að hjálpa honum. Þetta
er eitt af því sem ég vil benda á. Það
mátti ekkert vera erfitt, það átti allt að
vera létt og auðvelt, og við kunnum ekki
lengur að hjálpa hvert öðru.“
Naja Marie er hins vegar sannfærð
um að þetta hafi breyst og að hún myndi
ekki skrifa sögurnar á sama hátt núna.
„Jafnvel þótt við sjáum sömu munstur og
gildi gengur það ekki upp lengur. Við
verðum að finna aðrar leiðir og ég sé
það bæði í Danmörku og Bandaríkjunum
að fólk er farið að gera meiri uppreisn.
Konur þola til dæmis ekki undirokunina
lengur og fleira fólk byrjar á verkefnum
í samvinnu við aðra. Ungt fólk stofnar
lítil forlög og leggur áherslu á að gefa
út bækur sem stóru forlögin vilja ekki
gefa út. Það er margt smátt að gerast,
líka í pólitíkinni. Mér finnst fólk orðið
þreytt á því valdakerfi sem er við lýði
og hinum hörðu efnahagslegu gildum.“
SVONA ER VERULEIKINN
Það kemur fyrir að fólki líður líkamlega
illa og verður óglatt við lestur á
sögum Nöju Marie og hún segir að
þá sé markmiðinu náð. „Ég vil taka
fólk á taugum, þannig að fólk fái á
tilfinninguna að það bókstaflega hlaupi
í gegnum sögurnar með hjartsláttinn á
fullu. Þetta neyðir fólk til að finna fyrir
sér og ég held að það sé gott, jafnvel
þótt það sé kannski ekki þægilegt. Svo
er þetta líka spurning um það hvernig
hægt er að fá lesendur til að samsama
sig fremur óviðkunnanlegum persónum.
Öll eigum við líkama.“
Ein erfiðasta sagan í bókinni heitir
„Torben og Maria“ og fjallar um móður
sem lemur barn sitt. Hinn hlutlausi tónn
frásagnarinnar er sláandi og eftir að
hafa sýnt okkur inn í hræðilegan heim
skilur höfundurinn lesandann eftir án
nokkurrar vonar fyrir hönd barnsins.
Naja Marie játar því að hún sýni
þarna ákveðna hörku. „Það er nánast
ómögulegt að skrifa um viðfangsefni sem
þetta ef þú gerist tilfinningasamur og ef
þú reynir annað hvort að verja móðurina
eða lætur einhvern bjarga barninu. Og
það er svo auðvelt að dæma. Ég vildi ekki
dæma neinn. Það er bara skortur á öllu
í lífi mæðginanna; skortur á tungumáli,
tilfinningum, samskiptum. Þau eru fátæk,
líka andlega. Og enginn veit hver þau
eru. Þetta eru dreggjar samfélagsins.
En starfsfólki leikskólans er líka illa við
barnið. Og þetta er sannleikurinn; hann
er hræðilegur, en þannig er það. Okkur
líkar vel við fallegu, brosandi, heillandi
börnin en ekki við ljóta barnið sem lemur
hin börnin. Þetta er að vissu leyti eins
og að taka ljósmynd, því ég vildi vera
algjörlega skýr. Sýna veruleikann og fá
fólk til að spá í það hvernig hægt sé
að koma í veg fyrir að svona nokkuð
gerist. Ég las þessa sögu einu sinni upp
úti í sveit í Danmörku. Áheyrendur voru
flestir eldra fólk og það var frekar
miður sín eftir lesturinn. En eftir á kom
til mín gamall maður og sagði: „Ég er
svo feginn að þú skrifaðir þessa sögu,
því nágranni minn lemur börnin sín og nú
ætla ég að hringja á lögregluna.“ Þetta
er áminning um að við verðum að vita af
því sem gerist í kringum okkur og skipta
okkur af því, það er okkar mannlega
ábyrgð.“
Hlutleysi sögumannsins beinir því í raun
ábyrgðinni að þeim sem lesa söguna.
„Ég vil soga lesandann algjörlega inn í
söguna og að hann ákveði sjálfur hvað
er hér á seyði. Hann ákveður hvort
einhver von er hérna. Og hvað er von?
Í „Mýflugnabiti“ endar sögupersónan
allslaus og útbrunnin en hún finnur til
vonar, því hún er á lífi.“
SKÁLDSAGAN OG FEÐRAVELDIÐ
Naja Marie vinnur nú að skáldsögu og
segir það talsverða áskorun því formið
krefjist allt annarra hluta en smásagan.
„Stundum verð ég reið út í skáldsöguna
því hún er svo bundin feðraveldinu.
Þegar skrifað er í þriðju persónu, með
svokölluðu alvitru sjónarhorni, er það
eins og hinn karllegi guð horfi niður á
skáldsöguna og viti allt um alla. Mér
var farið að líða eins og í fangelsi.
En þá varð ég líka að reyna að finna
einhverja aðferð til að skrifa skáldsögu
án þess að finnast ég innikróuð, föst í
heimi karlhöfunda. Mér finnst spennandi
að sjá hvort ég get fundið mér aðferð
sem er ekki bundið af kvenlegri eða
karllegri hefð.“
„Ég vil taka fólk á
taugum, þannig að fólk
fái á tilfinninguna að
það bókstaflega hlaupi
í gegnum sögurnar
með hjartsláttinn á
fullu.“
Höfundakvöld Norræna hússins
lífguðu heldur betur upp á
menningarlífið í Reykjavík á
vordögum.
Auk Naju Marie hafa komið þar fram tveir
þekktir, grænlenskir höfundar; Kristian
Olsen Aaju og Mariane Petersen. Á
færeyska kvöldið kom Carl Jóhan Jensen
en bók hans Søgur um djevulsskap kemur
út í íslenskri þýðingu snemma á næsta ári.
Frá Svíþjóð kom Eva Gabrielsson, ekkja
Stiegs Larssons, en hún gaf út tvær bækur
á síðasta ári, minningar um Stieg og bók
um sambúðarlögin í Svíþjóð. Sagði hún frá
Stieg, Millenium seríunni, fjórðu bókinni
í seríunni sem aldrei kemur út og svaraði
spurningum áhugasamra gesta. Í byrjun
júní kom Kajsa Ingemarsson, skáldkona og
sjónvarpskona frá Svíþjóð en tvær bóka
hennar hafa komið út á íslensku: Sítrónur
og saffran og Allt á floti. Að lokum kemur
hin norska Beate Grimsrud í júní og segir frá
bók sinni En dåre fri.
Fjöldi gesta hefur mætt á þessi kvöld og
hafa fleiri norrænar bókmenntadagskrár
fyrir almenning verið skipulagðar. Næst
er Bókmenntahátíðin, sem haldin verður í
haust.
Norræn höfundakvöld