Morgunblaðið - 15.02.2020, Blaðsíða 20
20 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. FEBRÚAR 2020
Ármúla 24 • S. 585 2800
rmúla 24 • S. 585 2800
BAKSVIÐ
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Meirihluti borgarráðs hefur sam-
þykkt breytingu á deiliskipulagi fyr-
ir lóðina Borgartún 24. Á umræddri
lóð, sem er á horni Borgartúns og
Nóatúns, stendur til að rífa eldri
byggingar og byggja í stað þeirra sjö
hæða hús með 65 íbúðum auk versl-
unar- og þjónusturýmis, alls um 16
þúsund fermetra.
Fyrirhugaðar breytingar hafa
valdið deilum í mörg ár og íbúar og
lóðarhafar í nágrenninu hafa sent
inn mótmæli. Sérstaklega voru íbúar
í Mánatúni 7-17 (92 íbúðir) mótfallnir
þessum áformum og töldu háhýsi á
reitnum rýra lífsgæði og sömuleiðis
rýra verðmæti eigna þeirra. Þessi
mikla uppbygging í Borgartúni 24
hafi komið þeim í opna skjöldu, enda
hafi þeim verið kynnt árið 2014 að
þarna myndi rísa miklu lágreistari
byggð. Íbúðirnar við Mánatún eru
austanmegin Nóatúns, gegnt lóðinni
sem til stendur að byggja á.
Leyft að rífa allar byggingar
Borgarstjórn Reykjavíkur sam-
þykkti árið 2018 breytt deiliskipulag
lóðarinnar Borgartúns 24. Í fyrra
var að beiðni lóðarhafa auglýst nýtt
deiliskipulag fyrir lóðina. Samkvæmt
því verður leyfilegt að rífa allar
byggingar á lóðinni í stað aðeins bak-
húsa áður. Þar á meðal verður heim-
ilt að rífa þriggja hæða verslunar- og
skrifstofubyggingu fremst við göt-
una. Í því húsi eru nú starfandi
a.m.k. 12 fyrirtæki samkvæmt upp-
lýsingum á ja.is.
Athugasemdir við deiliskipulags-
breytinguna bárust frá eigendum í
Mánatúni og fulltrúum Smith&Nor-
land hf. (handhafi Nóatúns 4 og
Borgartúns 22) og Regins hf. (eig-
andi Borgartúns 20).
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur
svaraði athugasemdunum lið fyrir lið
og mælti með að deiliskipulagið yrði
samþykkt óbreytt að mestu leyti.
Ekki var fallist á þau rök íbúa við
Mánatún að breytingin kallaði á auk-
in óþægindi fyrir íbúa svo sem aukna
loft-, ljós- og hljóðmengun, auk
óþæginda á framkvæmdatíma.
Við afgreiðslu málsins í borgarráði
í síðustu viku voru lagðar fram
nokkrar bókanir.
Borgarráðsfulltrúar Samfylking-
arinnar, Viðreisnar, Pírata og
Vinstri grænna (Líf Magneudóttir,
Pawel Bartoszek, Dóra Björt Guð-
jónsdóttir, Heiða Björg Hilmis-
dóttir) lögðu fram bókun þar sem
sagði að Borgartúnið hentaði vel til
uppbyggingar nýrra íbúða. Reit-
urinn liggi að almenningssam-
göngum og hjólaleiðum. Umrædd
deiliskipulagsbreyting felist í því að
bæta við og stækka fermetratölu fyr-
ir bílastæðahús neðanjarðar en nýt-
ingarhlutfall ofanjarðar helst
óbreytt. „Ekki er tekið undir að um-
ræddar breytingar rýri lífsgæði
annarra á svæðinu. Áformin styðja
við þá verslun og þjónustu sem fyrir
er á svæðinu og bæta þannig nær-
umhverfið.“
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðis-
flokksins (Eyþór Laxdal Arnalds,
Hildur Björnsdóttir, Valgerður Sig-
urðardóttir) bentu á að sjálfstæðis-
menn hefðu ítrekað bent á að deili-
skipulagið væri á of litlum reit.
Eðlilegast væri að deiliskipulagið
tæki til reitsins í heild, ekki síst þar
sem málið væri mjög umdeilt. Sjálf-
stæðisflokkurinn gæti ekki stutt
þessa deiliskipulagsbreytingu.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins
(Vigdís Hauksdóttir) var afdrátt-
arlaus í sinni bókun og sagði að allar
forsendur íbúa við kaup eigna á
þessu svæði væru í uppnámi. Ekki
væri að furða að íbúa Mánatúns 7-17
ræki í rogastans vegna þeirra breyt-
inga sem hér um ræddi. Ekki væri
gerð tilraun til að koma til móts við
íbúana, heldur ekki rekstraraðila í
nærumhverfinu sem einnig sendu
inn athugasemdir.
„Vinnubrögðin til skammar“
„Sú aðferðarfræði sem meirihlut-
inn beitir er á þessa leið: Deiliskipu-
lagsbreyting unnin án samráðs við
nærumhverfi, deiliskipulag sett í
auglýsingu undir formerkjum sam-
ráðs og allar athugasemdir sem ber-
ast virtar að vettugi. Þessi vinnu-
brögð eru til skammar og ekki til
merkis um góða stjórnsýsluhætti.
Reykjavíkurborg er stjórnvald sem
ber að fara að stjórnsýslulögum,“
bókaði Vigdís.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins
(Kolbrún Baldursdóttir) beindi þeim
tilmælum til skipulagsyfirvalda að
fara að öllu með gát. „Þær fram-
kvæmdir sem fyrirhugaðar eru virð-
ast í ósátt við íbúa í nágrenninu og
hvetur Flokkur fólksins til að haft
verði samráð við íbúa um lokanið-
urstöður á deiliskipulagi svæðisins.“
Nýtt skipulag á umdeildri lóð
Heimilt verður að byggja sjö hæða hús með 65 íbúðum á lóðinni Borgartúni 24 Nágrannarnir
mótmæltu en árangurslaust Allar athugasemdir sem berast virtar að vettugi, segir borgarfulltrúi
Morgunblaðið/sisi
Borgartún/Nóatún Húsin sem verða rifin sjást til vinstri á myndinni. Í þeirra stað mun rísa sjö hæða bygging með
65 íbúðum. Þar beint á móti, austan megin Nóatúns, stendur stórt fjölbýlishús, Mánatún 7-17. Íbúar þar mótmæltu
harðlega. Þessi mikla byggð við Borgartún 24 myndi rýra verðmæti eigna þeirra.
Nýbygging Svona verður útlit hússins Borgartún 24 samkvæmt kynningu
borgarstjóra í nóvember í fyrra. Sett inn í mynd af Mánatúnshúsi ókláruðu.
Tölvumynd/Yrki arkitektar
Iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún
Reykfjörð Gylfadóttir, tók á móti
köku ársins á skrifstofu sinni í at-
vinnuvegaráðuneytinu í fyrradag.
Höfundur kökunnar er Sigurður
Alfreð Ingvarsson, bakari hjá bak-
aríinu Hjá Jóa Fel. Í köku ársins er
rjómasúkkulaði, saltkarmellumús
og Nóa tromp.
Landssamband bakarameistara
efnir árlega til keppni um köku árs-
ins. Keppnin fer þannig fram að
keppendur skila inn tilbúnum kök-
um sem dómarar meta og velja úr
þá sem þykir sameina þá kosti að
vera bragðgóð, falleg og líkleg til
að falla sem flestum í geð. Keppnin
var haldin í samstarfi við Nóa Sí-
ríus og voru gerðar kröfur um að
kakan innihéldi Nóa tromp. Kaka
ársins er nú til sölu í bakaríum fé-
lagsmanna landssambandsins.
Góðgæti Þórdís Kolbrún sker fyrstu sneiðina af köku ársins 2020. Sigurður
Hannesson, Sigurður Alfreð Ingvarsson og Jóhannes Felixson fylgdust með.
Ráðherra skar fyrstu
sneið af köku ársins
Uppskriftin frá bakara hjá Jóa Fel