Víkurfréttir - 15.07.2020, Blaðsíða 79
Suma daga þarf ég að útréttast
fyrir leiguhúsnæðin eða þýða,
reyni að skipta þessu svolítið á
dagana. Einn dagur í útréttingar og
annar í húsið, það tekur allt hérna
mikinn tíma. Klukkan 15:30 fara
þær aftur í skólann og þá er leikið
við litlu snúlluna og svo klukkan
17:15 byrjar skutlið. Tennis, dans,
handbolti, leiklist ... um 20:00
fáum við okkur smá kvöldverð og
svo er bara róleg stund þangað til
farið er í háttinn. Helgarnar eru
svo nýttar í að vera meira úti,
ströndinni, sundlauginni, kaupa
ís og fara í göngutúr og fleira þess
háttar.“
Bíð eftir að flugvöllurinn opni
– Líturðu björtum augum til
sumarsins?
„Já ég geri það, ég er að bíða eftir
að flugvöllurinn opni svo ég geti
komið okkur öllum til Íslands. Það
er það sem er efst í huga núna, að
komast heim. En jú, ég lít björtum
augum á þetta, held að við lærum
mikið af þessum tíma en að sjálf-
sögðu verður þetta mjög erfitt.
Margir vinir okkar misstu vinnu
eða fyrirtæki sín á einni nóttu á
meðan aðrir vinir eru að vinna á
spítala og sjá ekki börnin sín og
ættingja vegna smithættu en ég
held að eftir einhvern tíma sjáum
við einhvern lærdóm í þessu öllu
saman. Ég held að heimurinn hafi
verið á ofursnúningi.“
– Hver eru þín áhugamál og
hefur ástandið haft áhrif á þau?
„Ástandið hafði áhrif á ræktina þar
sem það er allt lokað en ég er mikil
áhugamanneskja um kvikmyndir
og sjónvarpsseríur og það hefur
komið sér vel í ástandinu þótt ég
hafi nú lítinn tíma þar sem það er
heimaskóli hjá skvísunum og mikið
að gera í honum.“
– Áttu þér uppáhaldsstað á Ís-
landi og hver er ástæðan?
„Mér finnst alltaf gott að koma
heim og vera bara í rólegheitum
heima hjá mér, mér finnst mjög
gott að fara í bústað og í kaffi til
mömmu en ég held ég geti ekki
nefnt einn uppáhaldsstað á Ís-
landi en mér finnst alltaf gaman
að koma á Akureyri.“
– Hvað stefnirðu á að gera
í sumar?
„Koma heim eins fljótt og ég get og
njóta þess að vera með fjölskyldu
og vinum. Vonandi kemst ég líka í
Metabolic, ómissandi þegar maður
er heima.“
– Hver voru plönin áður en
veiran setti strik í reikninginn?
„Mamma og pabbi voru að koma
í þrettán daga ferð um páskana
sem ekkert varð af. Allar skvís-
urnar mínar og eiginmaður áttu
afmæli í útgöngubanni þannig að
þrjú barnaafmæli duttu út af daga-
talinu. Við vorum meira að segja
búin að gera kökuna fyrir elstu
stelpuna þar sem hún ætlaði að
halda upp á það daginn eftir að út-
göngubann gekk í gildi. Þannig að
við bara borðuðum kökuna hérna
heima. En það var mikill söknuður
að fá ekki mömmu og pabba/
ömmu og afa.“
Sumir orðnir gjaldþrota
á einni nóttu
– Hvernig hefur COVID-19
verið að hafa áhrif þar sem þú
býrð?
„Þetta er allt mjög skrítið. Hér
gekk allt sinn vanagang og svo á
einni nóttu varð þetta draugabær.
Ef maður fer út í búð þá eru allir
með grímur og hanska, lögreglan
stoppar þig ef þú ferð í búð of langt
frá heimili þínu og hún er sjáanleg
alls staðar. Mjög furðulegt að lifa í
svona veruleika sem maður hefur
bara séð í bíómyndum eiginlega og
datt aldrei í hug að upplifa sjálfur.
Ég á marga vini sem eiga veit-
ingastaði, hótel og verslanir og
sumir orðnir gjaldþrota á einni
nóttu, fólk á ekki fyrir mat og þarf
að biðja um aðstoð. Börn eru að
upplifa veruleika þar sem foreldrar
vita ekki hvernig það á að borga
reikningana í næsta mánuði. Fólk
sem hefur bara alltaf lifað ágætu
lífi en þegar allt stoppar svona
allt í einu þá er þetta mikið sjokk
fyrir alla. Vinir sem vinna á spít-
ölum hafa búið á hótelum síðan í
byrjun mars svo það þurfi ekki að
fara heim vegna smithættu. Flest
öll fyrirtæki hafa lýst sig gjaldþrota
og atvinnuleysi hræðilega hátt.
Það þarf að þrífa allt sem maður
kaupir í búðinni þegar maður
kemur heim og helst fara í sturtu.
Skó þarf að sótthreinsa þegar
maður kemur inn og föt í þvottvél.
Manni finnst þetta vera mjög ýkt
en þetta er okkur ráðlagt hérna
af landlækni og ríkisstjórn. Núna,
sunnudaginn 26. apríl, má fara
út með börn í eina klukkustund
á dag. Það má bara fara einn kíló-
metra frá heimilinu sínu og það má
ekki nálgast vini eða fara á leikvelli.
Okkur er ráðlagt að setja börnin í
sturtu þegar komið er aftur inn.
Það er líka búið að biðja okkur
að undirbúa börnin þar sem þau
munu sjá annan veruleika, allt
lokað, fólk með grímur og enginn
nálgast þau og þau mega ekki
nálgast neinn.
Ég trúði því aldrei að þetta yrði
svona, ég var nú bara í lok febrúar
að gantast með að þetta væru allt
ýkjur og þetta væri bara flensa en
þetta fór á hinn allra versta veg.
... ég er að bíða eftir að flugvöllurinn opni
svo ég geti komið okkur öllum til Íslands.
Það er það sem er efst í huga núna ...
Miðvikudagur 15. júlí 2020 // 28. tbl. // 41. árg.
víkurFrÉttir á SuðurNESjuM í 40 ár // 79