Læknablaðið - nóv. 2020, Blaðsíða 15
L ÆK N A BL AÐIÐ 2020/106 509
R A N N S Ó K N
eða dapurleika en ungmenni sem vinna hóflega eða ekki með
skóla. Hins vegar mælast ekki marktæk tengsl milli þess að finna
stundum eða oft fyrir kvíða eða spennu og vinnu með skóla.
Tafla II sýnir greinilegan kynjamun á tengslunum milli vinnu
með skóla og geðrænnar líðanar. Þegar tengslin eru greind eft-
ir kyni haldast þau hjá stelpum hvað varðar fjölþætta geðræna
vanlíðan auk þreytu eftir fullan nætursvefn, svefnleysi, þunglyndi
og áhyggjur eða dapurleika. Engin þessara tengsla mælast mark-
tæk hjá strákum. Eftir sem áður mælast ekki marktæk tengsl milli
vinnu með skóla og kvíða eða spennu og á það við bæði kynin.
Þegar tengslin milli geðrænnar líðanar og vinnu með skóla eru
skoðuð eftir aldri haldast þau í yngsta aldurshópnum (13-15 ára)
hvað varðar fjölþætta geðræna vanlíðan og þunglyndi (tafla III).
Tengslin eru hins vegar U-laga en ekki línulaga eins og í fyrri mæl-
ingum. 13-15 unglingar sem eru í hóflegri vinnu eru þannig ólík-
legust til að búa við fjölþætta geðræna vanlíðan sem og að finna
fyrir þunglyndi, en þau sem vinna mikið með skóla eru líklegust
til þess. Þau sem ekki vinna koma síðan þar á milli. Að öðru leyti
hverfa tengslin milli geðrænnar vanlíðanar og umfangs vinnu
með skóla þegar tengslin eru greind eftir aldri.
Tafla IV sýnir tengslin milli geðrænnar líðanar og vinnu
með skóla eftir fjárhagsstöðu fjölskyldunnar. Tengslin haldast í
hópi þeirra sem búa við góða fjárhagsstöðu hvað varðar þreytu
eftir fullan nætursvefn, svefnleysi, þunglyndi og áhyggjur eða
dapurleika. Ungmenni sem telja fjölskyldu sína fjárhagslega vel
stæða og vinna mikið með skóla eru líklegust til að finna fyrir
þessum einkennum en þau sem vinna ekki með skóla ólíklegust.
Að öðru leyti hverfa marktæk tengsl milli geðrænnar líðanar og
vinnu með skóla þegar þau eru greind eftir fjárhagsstöðu fjöl-
skyldu ungmennanna. Þó er vert að hafa í huga að taflan sýnir að
sá hópur sem telur fjárhagsstöðuna slæma er fámennur.
Umræður
Markmið þesarar rannsóknar var að skoða tengsl geðrænnar líð-
anar íslenskra ungmenna við umfang vinnu með skóla. Rann-
sóknin sýnir marktæk tengsl í hópi stúlkna. Stúlkur sem vinna
ekki með skóla eru þannig ólíklegastar, en þær sem vinna mikið
líklegastar til að búa við fjölþætta geðræna vanlíðan og að finna
stundum eða oft fyrir þreytu eftir fullan svefn, svefnleysi, þung-
lyndi og áhyggjum eða depurð. Í hópi stráka mældust hins vegar
engin tengsl milli geðrænnar líðanar og umfangs vinnu með skóla.
Þá eru tengsl geðrænnar vanlíðanar og umfangs vinnu með skóla
að nokkru háð fjárhagsstöðu fjölskyldunnar. Tengslin haldast hjá
þeim sem telja fjölskyldu sína vel stadda fjárhagslega hvað varðar
þreytu eftir fullan svefn, svefnleysi og þunglyndi og meðal þeirra
sem telja fjölskyldu sína hvorki vel né illa stadda fjárhagslega hvað
varðar áhyggjur og dapurleika. Meðal þeirra sem telja fjölskyldu
sína illa stadda fjárhagslega kom
hins vegar ekki fram neinn mun-
ur á umfangi vinnu með skóla og
geðrænnar vanlíðanar. Jafnframt
kemur í ljós að tengslin eru aðeins
að litlu leyti tengd aldri, eða að-
eins í aldurshópi 13-15 ára hvað
varðar fjölþætta geðræna vanlíðan
og þunglyndi og er þá munurinn
mestur á milli þeirra sem vinna mikið með skóla og þeirra sem
vinna hóflega með skólanum. Í engu tilfelli mældust hins vegar
tengsl milli umfangs vinnu með skóla og þess að finna oft eða
stundum fyrir kvíða eða spennu.
Fyrri rannsóknir hafa sýnt að ungmenni sem vinna með skóla
sofa minna en ungmenni sem ekki vinna7 og að slæmar vinnuað-
stæður ungmenna geta leitt til þunglyndis.20 Þessi rannsókn bætir
um betur og sýnir að umfang vinnu með skóla getur ýtt undir
margvísleg einkenni geðrænnar vanlíðunar. Skýringin á þessum
tengslum gæti legið í því að vinna með skóla er aukastarf ung-
linga sem bætist ofan á önnur skyldustörf. Almennt er nám helsta
skyldustarf ungmenna og að auki stunda mörg íþróttir, tónlist-
arnám og/eða aðrar skipulagðar tómstundir.17 Þegar við bætist
launuð vinna með skóla getur vinnuvika unga fólkins orðið ansi
löng. Álagið sem fylgir því að þurfa að sinna mörgum skyldum
gæti skýrt að ungmenni sem vinna mikið eru áhyggjufull og ná
ekki úr sér þreytu með fullum nætursvefni.21 Tímaleysið sem hin
mörgu hlutverk kalla fram gæti einnig orðið til þess að vinnandi
ungmenni sofi ekki nóg og svefnleysið síðan ýtt undir þunglyndi
en þekkt er að tengsl eru milli svefnleysis og þunglyndis.7 Niður-
stöður rannsóknarinnar benda þó til að slíkur vítahringur mikils
álags bitni fyrst og fremst á stúlkum og að einhverju leyti á ung-
mennum úr betur stæðum fjölskyldum. Niðurstöðurnar um að
vinna með skóla tengist ekki kvíða og spennu falla heldur ekki að
þessari tilgátu og frekari rannsókna er þörf til að kanna hvað það
er sem veldur ungmennum helst kvíða eða spennu.15
Margar skýringar hafa verið gefnar á þeim kynjamun sem
mælist á geðrænni heilsu ungmenna,28 meðal annars að hjá strák-
um brjótist geðræn vanlíðan frekar fram í hegðunarvanda en hjá
stelpum í innri vanlíðan.29 Það gæti að einhverju leyti skýrt kynja-
muninn sem hér kemur fram þar sem einungis var mælt fyrir innri
vanlíðan. Önnur skýring sem gefin hefur verið á kynjamuninum
og gæti átt við hér er að það sé meiri þrýstingur á stelpur en stráka
að standa sig í lífinu.28 Slíkur kynbundinn þrýstingur gæti orðið
til þess að stelpur sem vinna með skóla finni frekar fyrir miklu
álagi en strákar í sömu sporum. Að auki má vænta þess að kynja-
munurinn skýrist að hluta af kynbundnum aðstöðumun í vinnu
og kynskiptum störfum eins og raunin er hjá fullorðnum.30 Erf-
iðara er að skýra þann mun sem niðurstöðurnar sýna á tengslum
vinnu með skóla og geðrænnar líðanar eftir fjárhagsstöðu fjöl-
skyldu. Ein möguleg skýring er að börn vel stæðra foreldra verði
frekar en börn verr stæðra foreldra fyrir þrýstingi frá foreldrum
sínum eða frá samfélaginu almennt að standa sig í lífinu. Önnur
möguleg skýring er að unglingar sem koma úr fjölskyldum sem
eru illa staddar fjárhagslega upplifi almennt meiri vanlíðan en
þau sem eiga fjölskyldur sem eru betur staddar. Rótin að slíkri
stéttskiptri vanlíðan gæti verið tengd margvíslegum félagslegum
þáttum sem takmarki þátt vinnu í vanlíðaninni.4 Einnig gæti hér
verið um skekkju í mælingum að
ræða en hópurinn sem metur fjár-
hagsstöðu fjölskyldunnar slæma er
mjög fámennur en það dregur úr
afli marktækni mælinga.27
Rannsókninni voru ákveðnar
skorður settar. Mælikvarðinn á geð-
ræna líðan sem notaður er hér hefur
sínar takmarkanir en í honum eru
Fyrri rannsóknir hafa sýnt að ungmenni sem vinna
með skóla sofa minna en ungmenni sem ekki vinna
og að slæmar vinnuaðstæður ungmenna geta leitt til
þunglyndis. Þessi rannsókn sýnir að umfang vinnu
með skóla getur ýtt undir margvísleg einkenni
geðrænnar vanlíðunar.