Læknablaðið - apr 2020, Qupperneq 52
220 LÆKNAblaðið 2020/106
Fyrsti sjúklingurinn með COVID-19
greindist hér á landi 28. febrúar sl. Þegar
þetta er ritað (26. mars) eru smitin orðin
802. Smituðum fjölgar hratt og lönd hafa
lokað landamærum sínum.
Læknar og heilbrigðisstarfsmenn eiga
almennt ekki það val að draga sig til hlés
í þessum aðstæðum. Þeir eru í framvarða-
sveit þeirra sem glíma við faraldurinn og
afleiðingar hans. Þeir taka próf úr mögu-
lega sýktum, oft við erfiðar aðstæður. Þeir
sinna sýktum. Þeir sýkjast af sýktum og
gjalda jafnvel fyrir með lífi sínu.
Hverjar eru skyldur lækna í þessum að-
stæðum og hver er réttarstaða þeirra?
Skyldur
Siðareglur lækna segja að þeim sé skylt að
leitast við að hjálpa sjúkum til að öðlast
heilbrigði að nýju og að þeim beri að rækja
starf sitt af vandvirkni og samviskusemi
án tillits til eigin hagsmuna.1 Sambæri-
leg skylda er orðuð í bæklingnum Góðir
starfshættir lækna.2 Þar segir m.a. að læknar
verði að bjóða fram aðstoð sína ef bráða-
tilvik koma upp á spítala eða starfsstofu
eða í samfélaginu, að teknu tilliti til eigin
öryggis, lækniskunnáttu og hvaða aðrir
kostir til að veita læknisþjónustu eru fyrir
hendi.2 Líklega þarf einnig að líta til 22. gr.
laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012
skyldar heilbrigðisstarfsmenn til að veita
hjálp, séu þeir nærstaddir eða til þeirra
leitað, að veita fyrstu nauðsynlegu aðstoð
í skyndilegum og alvarlegum sjúkdóms-
eða slysatilfellum í samræmi við menntun
og þjálfun, nema þeim mun alvarlegri for-
föll hamli eða þeir með því stofni lífi eða
heilbrigði sínu eða annarra í háska.
Það er borgaraleg skylda allra á aldrin-
um 18-65 ára að gegna á hættustundu, án
endurgjalds, starfi í þágu almannavarna.
Það er sú ábyrgð sem hverjum borgara
er ætlað að sýna samfélaginu og tengist
meginreglunni um að borgurum beri að
þjóna samfélagi sínu gegn því að njóta
ákveðinna réttinda og verndar. Það hef-
ur verið litið svo á að það sé borgaraleg
skylda starfsmanna opinberra aðila þar
á meðal lækna, að gegna störfum í þágu
almannavarna við slíkar aðstæður. Einnig
að opinberum aðilum sé þá heimilt að fela
starfsmönnum tímabundið breyttar starfs-
skyldur til að sinna forgangsverkefnum.
Þessir starfsmenn halda óbreyttum launa-
kjörum.3 Þessi borgaralega skylda starfs-
manna opinberra aðila hefur ekki verið
lögfest. Fyrir Alþingi liggur lagafrumvarp
til að bæta úr því. Ekki er við öðru að
búast en að frumvarpið verði samþykkt.
Því fylgir að við núverandi aðstæður má
flytja lækna í annað starf en það sem þeir
voru ráðnir til. Í umsögn sinni til Alþingis
benti LÍ á mikilvægi þess að við beitingu
ákvæðisins verði tekið tillit til undirliggj-
andi sjúkdóma opinberra starfsmanna
og þeir þá ekki settir í bein samskipti við
sýkta.4 Sýnist sá fyrirvari í samræmi við
þá varnagla sem settir eru í 22. gr. laga um
heilbrigðisstarfsmenn og í Góðum starfs-
háttum lækna.
Réttindi
Réttindi lækna í þessum kringumstæðum
snúa að vinnuaðstæðum, veikindarétti og
tryggingavernd. Tryggja þarf að vinnuað-
stæður séu eins öruggar og hægt er, meðal
annars með tryggum aðgangi að nauðsyn-
legum hlífðarbúnaði. Um veikindarétt
lækna og tryggingavernd er fjallað í
kjarasamningi fjármála- og efnahagsmála-
ráðherra og LÍ.5 Veikindaréttur opinberra
starfsmanna er allmiklu rýmri en á hin-
um almenna vinnumarkaði. Læknar fá
meðaltalslaun þann tíma sem veikinda-
rétturinn varir, sem er mismunandi eftir
starfstíma viðkomandi. Til viðbótar kemur
að veikindarétturinn lengist um 13 vikur,
91 dag, en þá eingöngu á dagvinnulaun-
um, ef veikindin stafa af vinnuslysi eða
atvinnusjúkdómi. Smit við þær kringum-
stæður sem nú eru uppi er eðlilegt að telja
vinnuslys. Tryggingaverndin er tvíþætt,
örorkubætur og dánarbætur. Örorkubætur
vegna slyss í starfi eru að hámarki liðlega
22,3 mkr. Dánarbætur vegna slyss í starfi
eru á bilinu 1-12 mkr. og fara eftir hjúskap-
arstöðu.
Læknar hafa lengi talið trygginga-
verndina ófullnægjandi. Með síðasta
kjarasamningi var því bókun um að aðilar
ætluðu að skipa vinnuhóp til að fara yfir
vinnuslysatryggingar lækna með sérstöku
tilliti til einstakra áhættuþátta í starfi
þeirra.5 Hópurinn átti að ljúka störfum
fyrir 1. október 2018. Skemmst er frá því að
segja að hópurinn var aldrei skipaður þó
LÍ hafi tilnefnt fulltrúa og ítrekað minnt á
bókunina.
Heimildir
1. Siðareglur lækna, 1. gr. lis.is/is/sidfraedi/codex-ethicus/
codex - mars 2020.
2. Góðir starfshættir lækna, 2. útgáfa, Reykjavík 2017.
landlaeknir.is/servlet/file/store93/item32436/Godir_starfs-
haettir_laekna_31.5.2017.pdf. - mars 2020.
3. Sbr. 19. gr. laga um almannavarnir nr. 82/2008. Þessi
grein verður að 19. gr. a í lögunum, ef Alþingi samþykkir
frumvarp til laga um breytingu á þessum lögum sem
dómsmálaráðherra mælti fyrir 23. mars sl., 697. mál, þskj.
1176,
4. Umsögn LÍ til allsherjar- og menntamálanefndar dags.
24. mars 2020. althingi.is/altext/erindi/150/150-1664.pdf -
mars 2020.
5. Kjarasamningurinn rann út 28. febrúar 2019. Nýr samn-
ingur hefur ekki náðst.
Dögg
Pálsdóttir
lögfræðingur
Læknafélags Íslands
Dogg@lis.is
Skyldur og réttindi lækna á
tímum COVID-19
L Ö G F R Æ Ð I 3 6 . P I S T I L L