Börn og menning - 01.09.2006, Blaðsíða 6

Börn og menning - 01.09.2006, Blaðsíða 6
4 Mér finnst & Hugrún Hólmgeirsdóttir ...gaman að klæðast pilsum og kjólum. Mér finnst Ifka gaman að klæðast buxum. Mér finnst gaman að sjá fimm ára dóttur mína klædda í falleg föt, buxur, vesti, brók og skó ... og líka pils og kjóla. Henni finnst þetta ekki sfður skemmtilegt, þ.e. að klæðast pilsum og kjólum. Hún vill helst ekki fara í buxur. Pilsin, bolirnir, kjólarnir, sokkabuxurnar og allt hitt á svo að vera bleikt eða rautt, með myndum af fiðrildum og prinsessum. Voða sætt. Mér virðist dóttir mín ekki skera sig neitt sérstaklega úr hópi stelpnanna í leikskólanum hvað klæðnað snertir. Þegar hún er svona fín og sæt fær hún ómælda athygli fyrir einmitt það, að vera „fín og sæt". Einu sinni fékk hún blá náttföt með mynd af köngulóarmanninum og fannst þau bara frekar flott. Frændi hennar, jafngamall, fékk eins föt. Þessi náttföt voru gerð fyrir stráka, en lítið mál er fyrir stelpuna mína að klæðast þeim. En ef þau frændsystkinin hefðu fengið eins náttföt með myndum af Sollu stirðu eða Öskubusku, náttföt sem gerð eru fyrir stelpur? Þá hefði nú verið hlegið: Strákur í stelpufötum! Fyrir rúmum þrjátíu árum var ég í leikskóla. Þá var tekin mynd af hópnum mínum, strákum og stelpum. Þegar ég skoða þessa mynd nú sé ég ekki mikinn mun á strákunum og stelpunum. Strákarnir eru ekki með spennu til að halda síða toppnum frá augunum eins og stelpurnar en að öðru leyti eru krakkarnir á þessari þrjátíu ára gömlu mynd bara krakkar. Krakkarnir sem voru með mér í leikskóla eru nú konur og karlar í jafnréttisþjóðfélagi þar sem konur stýra fyrirtækjum og konur aka strætó, konur sitja á þingi og konur ferma ungmenni. En fáir karlar sjást á leikskólum, elliheimilum og yngri deildum grunnskóla. Þótt við séum öll einstaklingar þá viljum við tilheyra hópi; þjóð, stétt, vinahópi, kór o.s.frv. Við samsömum okkur ákveðnum hópi þegar í bernsku og miðum hegðun okkar við hann. Viðhorf og smekkur mótast af hópnum sem við tilheyrum og erfitt getur verið að brjótast út úr því mynstri sem telst viðeigandi í hópnum. Börn eru ekki há í loftinu þegar þau eru komin í réttu litina og réttu sniðin, sem greina þau í tvo hópa, stráka og stelpur. Þau fá viðbrögð við hegðun sinni, útliti og öðru miðað við hvorum hópnum þau tilheyra, strákar eru „flottir, sterkir og kraftmiklir", stelpurnar „voðalega fínar og sætar, og ósköp duglegar". Auðvitað eru stelpurnar líka flottar og sterkar og kraftmiklar eins og strákarnir, en eru strákarnir voðalega fínir og sætir? Nei, það er stelpulegt! Börn verða fullorðin og eiga að erfa landið. Við þykjumst vera að skapa þeim jafnréttis- þjóðfélag þar sem stelpurnar verði ef til vill með jafnháar tekjur og strákarnir og hafi alveg jafn greiðan aðgang að valdastöðum og strákarnir. Við vonumst jafnframt til að ábyrgðin á heimilunum dreifist jafnar á foreldrana. Eru nokkrar líkur á því að dóttir mín og vinir hennar eigi eftir að sætta sig við að standa jafnfætis þegar þau verða fullorðin eins ólíkir og þessir hópar eru nú þegar, áður en þau koma í grunnskóla? Nóg er nú mótunin þar, skilst manni. Þegar þau verða fullorðin verða þau rígbundin af ólíkri reynslu uppvaxtaráranna. Og þá gæti reynst erfitt að brjóta upp mynstrið. Það er ekki nóg að stelpur geti klæðst strákalegum fötum og verið kraftmiklar og duglegar, eins og strákar. Við verðum að innræta börnunum okkar, og okkur sjálfum, að það sé líka jákvætt að vera stelpulegur! Ég mun halda áfram að kaupa falleg föt handa dóttur minni - og sjálfri mér. Föt sem draga fram kvenleika okkar og styrk. Mér finnst sjálfsagt að hún hafi val um það hvort hún klæðist buxum eða pilsi, hvernig hún hegðar sér og hvað hún starfar, hvort hún verður læknir eða hjúkrunarkona, þjónustufulltrúi í banka eða bankastjóri. Það má þakka kynslóðunum á undan sem klæddust buxum í trássi við almenningsálit, brutust til mennta og börðust fyrir réttindum komandi kynslóða. Hafa strákarnir líka slíkt val? í Fréttablaðinu var nýlega frétt sem fjallaði um að í skóla einum í Noregi ættu allir að pissa sitjandi, af hreinlætisástæðum. Norskur stjórnmálamaður brást æfur við. Hann segir það vera „mannréttindi að vera ekki neyddur til að pissa eins og stelpa". Fyrirsögn fréttarinnar var „Alvöru karlmenn pissa sitjandi". Ég hefði viljað hafa fyrirsögnina: „Alvöru karlmenn pissa eins og stelpur." Höfundur er með MA-próf í málvísindum

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.