Börn og menning - 01.09.2006, Blaðsíða 10

Börn og menning - 01.09.2006, Blaðsíða 10
Börn og menning bókmenntir Veröld sem var Bernskuheimurinn var skýrt afmarkaður af blokkum sem stóðu umhverfis leiksvæðið eins og ókleifir hamrar. Utan við þá var ekkert nema ónumin slétta eða smánarleg fylgd með fullorðnum. Dag einn teygði sig upp úr sandkassanum bísperrtur krani, svo hár að ef Guð kærði sig um að stíga niður úr skýjunum myndi hann tylla sér á bómuna áður en hann fikraði sig niður. Við Mangi stóðum hlið við hlið. Ég með silfurstjörnu á brjóstinu, hann með tvær skammbyssur eins og nafnlausi málaliðinn. Við mændum upp uns við misstum tímabundið jafnvægið og tvístigum á jörðinni til að vera vissir um hvar við stæðum - hugir okkar voru fjúkandi runnar á ferð um gresjur himinsins. En þrátt fyrir þetta bætta aðgengi að jörðinni freistaði það ekki Guðs að koma niður. „Þessi krani er ögrun," sagði Mangi á hádegi eftir orðlausan morgun. „Hann er æðsta mögulega markmið okkar, vaður milli barns og manns." „Heldurðu það?" spurði ég og boraði í nefið. „Það sem ekki sést af jörðinni er börnum ekki ætlað að sjá. Við erum höfð tiltölulega lítil en með hlutfallslega stóra hausa því við þurfum á miklu meira ímyndunarafli að halda en fullorðið fólk." „Þetta er kjaftæði úr Stundinni okkar. Meðalbernska verður meðalmennska!" Að þessu sögðu spýtti Mangi út úr sér skroinu og arkaði að krananum. Ákveðinn en þó örlítið valtur á fótunum eins og á þriðja glasi. „Láttu karlinn njóta vafans!" kallaði ég á eftir honum. En ég vissi sem var, jafnvel þá, að þetta var „High noon", einvígi sem kaldur vindgustur staðfesti. Skref fyrir skref nálgaðist hann skýin. Hann fór upp að efa mínum og náði fullvissu sinni. Þegar hann kom niður var allt breytt. „Hvað sástu?" spurði ég. Mangi svaraði með spánnýju glotti sem upp frá þessu skildi okkur að. „Hvorki fugl né fisk en þó allt milli himins og jarðar." Svo blés hann á rjúkandi fingurinn á sér!

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.