Börn og menning - 01.09.2006, Blaðsíða 21

Börn og menning - 01.09.2006, Blaðsíða 21
En hvar er mamman? 19 Það er þó ekki þar með sagt að persónan sé ekki söluvara. Myndir af Einari og Millu vinkonu hans eru prentaðar á allt frá bleiubuxum að útigöllum. Það er hægt að kaupa Einarsdúkkur, lyklakippur, púsl og allskonar önnur leikföng. Einar er aðalpersónan í auglýsingu frá alþjóðlegri blómasölu, en þar er hann í skrifstofuleik að vinna frameftir og Milla bíður heima með matinn. Neðanmáls spyr auglýsandinn hvort hún eigi ekki skilið að fá send blóm. Það er líka hægt að kaupa fræ merkt Einari, til dæmis kattagras, skrautgras og grasker. Ekki er tekið fram hvort þessi fræ séu á einhvern hátt öðruvísi en önnur, en Einar brosir fallega framan á pökkunum. Til að sáningin gangi sem best er svo hægt að kaupa hanska og garðverkfæri ýmiss konar, allt rækilega merkt Einari. Það er meira að segja hægt að fá hringitón í farsímann með einu af lögunum hans. Þessi þróun hefur mér vitanlega lítið verið gagnrýnd, ekki einu sinni af þeim sem draga bækur Gunillu fram sem dæmi um gömul og góð gildi og andstöðu við markaðssamfélagið. Það má lesa um hvaða augum Gunillu lítur þessa þróun í viðtali við hana annars staðar í þessu tímariti. Úrelt föðurímynd í 3. tölublaði tímarits sænska rithöfunda- sambandsins, sem út kom á þessu ári, skrifar blaðamaðurinn Arne Stráby nokkuð harkalega gagnrýni á bækurnar um Einar Áskel. Honum finnst pabbinn vera úrelt föðurfmynd sem betur ætti heima á sjötta áratugnum en í nútímanum. Pabbinn situr í hægindastólnum með blaðið, reykir pípu og boðar þar með að fullorðnir karlmenn eigi að reykja og að það sé eðlilegt að reykja innan um börn. Hann endar grein sína á orðunum: „Enga illa lyktandi reykingamenn, engar slæmar fyrirmyndir í bókunum okkar!" Þessi grein hefur vakið merkilega litla umræðu, en Bergström svarar henni á heimasíðu Einars. Þar segir hún meðal annars að pabbinn eigi ekki að vera fyrirmynd heldur persóna og að fullorðnir þurfi ekki að vera fullkomnir í barnabókunum, þar sem þeir séu það augljóslega ekki í raunveruleikanum. Hún bendir einnig á að það sé tilvalið að nota reykingar pabbans til að ræða við börn um málið og benda þeim á að svona sé ekki heppilegt að gera. Málaferli Þó að deilan um föðurinn hafi ekki vakið mikla athygli hafa bækurnar og höfundur þeirra sjaldan verið eins mikið f fréttunum og árin 2004 og 2005. Þá stóð Gunilla Bergström í heilmiklum málaferlum sem fóru í gegnum öll sænsku dómsstigin, fyrst þingrétt, þá hofrétt og enduðu loks í hæstarétti þar sem dómur féll þann 23. desember 2005. Forsaga málsins er sú að árið 2002 voru þrjátíu ár síðan fyrsta bókin um Einar Áskel kom út. Aðstandendur skemmtiþáttarins Pippirull á stöðinni P3 í sænska ríkisútvarpinu gripu það á lofti að Alfons þýðir melludólgur á dönsku. Þeir tóku sig því til og bjuggu til þáttinn En vanlig dag med danska Alfons eða venjulegur dagur með danska melludólgnum/ Alfons. Þar klipptu þeir saman setningar úr Einarsbókunum, sem lesnar eru af leikaranum sem les inn á sænsku teiknimyndirnar og er þekkur sem „Einars Áskels-röddin", og setningar úr dönsku kvikmyndinni Pusher. Útkoman varð sú að Einar Áskell virtist selja eiturlyf, hóta ofbeldi og taka þátt í slagsmálum. Gunilla Bergström brástókvæða við, sagði að Einar væri heiðarleg manneskja og enginn glæpamaður. Henni fannst brotið á sínum höfundarrétti og stefndi því sænska útvarpinu. Hún tapaði málinu á öllum dómsstigum, útvarpsþátturinn telst sjálfstætt verk, háð er ekki bannað og lög um höfundarrétt því ekki brotin. Einar Áskell og stríðspabbinn f ár kom út ný bók, Einar Áskell og stríðs- pabbinn. Gunilla segir í viðtali við Dagens Nyheter sem tekið var í tilefni útkomu bókarinnar að hún hafi verið tilbúin að gefa bókina út sjálf, því hún gerði ekki ráð fyrir að forlagið þyrði taka við henni. Hún var hrædd um að stríð og reynsla fólks af því þættu ekki viðeigandi sem efni í barnabók. En það var nú öðru nær, bókin var gefin út í sjö löndum samtímis, en það hefur forlagið aldrei gert áður. Bókinni hefur verið vel tekið, það er helst að tónninn í henni þyki örlítið stífur, eða eins og gagnrýnandi Dagens Nyheter segir: „Það er likt og Bergström ofhlaði frásögnina og vilji segja svo mikið að útkoman verður meira eins og fyrirlestur en ein af þessum virkilega góðu Einarsbókum". En hvað sem bókagagnrýni, fjarverandi mömmum, pípureykingum og öðrum deilumálum líður, bendir ekkert til annars en að bækurnar um Einar Áskel og vini hans eigi eftír að halda vinsældum sínum lengi enn. Vangaveltur Einars, hversdagsleg vandamál hans og ekki síst hlýjan og húmorinn í sögunum, heilla bæði börn og fullorðna og sýna okkur gleðina í því smáa og fegurð hversdagslífsins. Höfundur er kennari og textahöfundur

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.