Börn og menning - 01.09.2006, Blaðsíða 20
18
Börn og menning
Harpa Jónsdóttir
En hvar er mamman?
Bækurnar um Alfons Áberg, eða Einar
Áskel eins og hann heitir á íslensku, hafa
komið út ein af annarri í ríflega þrjátíu
ár. Einar er elskaður og dáður, bækurnar
um hann slá öll met i útlánum á sænskum
bókasöfnum og þær seljast eins og heitar
lummur um allan heim. Höfundur þeirra
Gunilla Bergström, hefur fengið fjölda
verðlauna og viðurkenninga. Nýlega
fékk hún Schullströmsverðlaunin sem
Sænska akademían veitir framúrskarandi
barna- eða unglingabókahöfundi annað
hvert ár. Teiknimyndirnar um Einar eru
að sama skapi vinsælar og geisladiskar
með vísum tengdum bókunum hafa náð
mikilli útbreiðslu I Skandinavíu. Þess má
geta að Einar hefur ekki slegið í gegn í
Bandarikjunum. Gunilla segir í viðtali við
sænska blaðið Ordfront að þar þyki hann
of ófríður og gerir að því skóna í gríni að
hann þyrfti að fara i fegrunaraðgerðir til að
ná fótfestu þar.
En þrátt fyrir vinsældirnar hafa bækurnar
um Einar Áskel og höfundur þeirra fengið
sinn skerf af gagnrýni. Fljótlega eftir útkomu
fyrstu bókarinnar bentu margir á það sem
þeim fannst vera óeðlilegt fjölskyldumynstur
Einars, þar sem hin brennandi spurning var
hvar er mamman? Og ekki bara mamman,
helduröll hennar fjölskylda. Einar á nefnilega
bæði föðursystur og ömmu, en ekkert
bólar á móðurfólkinu. Það þótti mörgum
í hæsta máta óeðlilegt og jafnvel skaðlegt
hugmyndum ómótaðra barna um fjölskyldur
og ættartengsl. Það virðast þó aðallega hafa
verið fullorðnir sem veltu þessu fyrir sér og
höfðu skoðun á málinu. Börnin taka þessu
yfirleitt sem sjálfsögðum hlut og finna sínar
eigin skýringar. Spurningunni um mömmuna
fjarverandi er svarað á heimasíðu Einars
(www.alfons.se) eitthvað á þessa leið :
„Þaðerenginnsemveitalmennilega
hvar hún er... Hún er kannski úti f
búð, í þvottahúsinu eða þá að þau
eru skilin og hún getur meira að
segja verið dáin.
Hver og einn verður að ákveða fyrir
sig hvar mamma Einars er."
Spurningunni um móðurfjölskylduna og
afdrif hennar er þó enn ósvarað. Með aukinni
meðvitund um mismunandi fjölskyldumynstur
og rétt fólks til að haga sínu lífi eins og það
helst kýs, telst það nú frekar einn af kostum
bókanna en göllum að pabbinn býr einn
með Einari.
Árið 1983 kom bókin Vem spökar, Alfons
Áberg? (Varþað vofa EinarÁskelí). Sú bók var
töluvert gagnrýnd í Svíþjóð, bæði í blöðum
og manna á milli. Bókin þótti of ógnvekjandi
og sumir gengu svo langt að segja að nú
hefði Einar brugðist börnunum og að fokið
væri í flest skjól fyrst ekki væri á hann að
treysta lengur. En bókin varð vinsæl þrátt
fyrir þetta, enda er boðskapur hennar einmitt
sá að það sé óþarfi að vera hræddur. Þar
að auki er ég viss um að romsan sem Einar
lærir af pabba sínum: „Árans draugsi út með
þig, ekki skaltu hræða mig - enda ertu ekki
til!" hafi reynst mörgum börnum vel þegar
myrkfælnin læðist að.
Vörumerki
Eitt af því sem margir hafa hrósað Gunillu
Bergström fyrir er að í bókunum sjást
varla vörumerki. Mjólkin er ekki frá Arla
(sænsku mjólkursamsölunni), Einar fer ekki
á McDonalds og buxurnar hans eru hvorki
frá Diesel eða Levis. Þetta gerir bækurnar
óbundnari tíma en annars yrði og auk þess
óháðari auglýsinga- og markaðssamfélaginu.