Börn og menning - 01.09.2006, Blaðsíða 30

Börn og menning - 01.09.2006, Blaðsíða 30
Sitji guðs englar eftir Guðrúnu Helgadóttur; leikgerð: lllugi Jökulsson; söngtextar: Þórarinn Eldjárn; leikstjóri: Sigurður Sigurjónsson; tónlist: Jóhann G. Jóhannsson; lýsing: Hörður Ágústsson; búningar: Þórunn Elísabet Sveinsdóttir; leikmynd: Frosti Friðriksson. í helstu hlutverkum: Brynhildur Guðjónsdóttir, Þórunn Erna Clausen, Baldur Trausti Hreinsson, Ragnheiður Steindórsdóttir, Sigurður Skúlason, Darri Ingólfsson, Hjálmar Hjálmarsson, Kjartan Guðjónsson, Kristján Franklín Magnús, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Nanna Kristín Magnúsdóttir og hópur barna. Satt best að segja er ég almennt ekki einn af þeim sem kýs að láta flytja mér bækur á leiksviði; ég hef ákveðna ótrú á umbreytingunni sem slíkt útheimtir. Bók er bók og leikrit er leikrit og þannig er það nú bara. Og ef efnið sem á að sjóða niður er ekki aðeins ein bók heldur sería af einhverju tagi magnast tortryggni mín að sama skapi. En þegar vel tekst til, eins og oft gerist auðvitað, hlýtur maður Ifka að taka ofan - eins þótt mér þyki nú annars vænt um fordómana mína. Leikgerð llluga Jökulssonar á þríleik Guðrúnar Helgadóttur, Sitji guðs englar, er sem betur fer einmitt í hópi hinna velheppnuðu og uppfærslan í Þjóðleikhúsinu hefur flest til að bera sem einkennir góða leiksýningu. Blessað stríð Sögurnar þrjár sem mynda leikgerðina - Sitji guðs englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni - slógu rækilega í gegn þegar þær komu út um miðbik níunda áratugar liðinnar aldar. Guðrún sver af sér að hér sé um átóbíógrafíu að ræða en kannast þó við að um sumt sæki aðalpersónur til hennar sjálfrar, fjölskyldu og uppvaxtarheimilis. Eins og alþjóð veit segja sögurnar frá sjómannsfjölskyldu nokkurri í íslenskum sjávarþorpi - það gæti heitið Hafnarfjörður, en það gæti líka heitið eitthvað allt annað því íslensk sjávarþorp eru í hjarta sínu alveg eins - gleði hennar og sorgum á tímum heimsstyrjaldarinnar sem við köllum „síðari" af nokkurri bjartsýni, eins og þar með hafi ágreiningur þjóðanna verið útkljáður í eitt skipti fyrir öll. Oft hefur verið fjallað um þetta tímabil íslandssögunnar sem sérstakan búhnykk eða happdrættisvinning og vissulega urðu þá umskipti til hins betra í efnalegum skilningi hjá þessari marghrjáðu þjóð. Talnaglöggir menn hafa þó reiknað út að margvísleg skakkaföll landsmanna af völdum stríðsins voru einnig veruleg og víðtæk, og manntjón f rauninni ægilegt og engu minna en gekk og gerðist meðal hinna eiginlegu stríðsþjóða ef menn hætta sér út í hlutfallsreikninga. Hin efnalega velsæld var sem sé keypt dýru verði og kostaði ekki síst líf fjöldamargra íslenskra sjómanna sem sigldu með fisk og farm af ýmsu tagi um háskaslóðir og áttu margir ekki afturkvæmt. Heima sátu vanalega konan og krógarnir, og biðu skipakomunnar sem kannski aldrei kom. En ég er hérna heima á hlýjum þurrum stað ég sjálf veit hvað ég sakna þin en sagði ég þér það? ... syngur Heiða í sýningu Þjóðleikhússins þegar hún óttast um sjómanninn föður sinn, einu sinni sem oftar. Og það má hann eiga, karluglan, að hann skilar sér, skekinn og skáldaður en þó mestan part í heilu lagi - sem er meira en sagt verður um suma sem við söguna koma. Lífsins ólgusjór Líf þessarar fjölskyldu á stríðsárunum á sér þó fleiri hliðar en bara þessa og sumar þeirra mun bjartari og skemmtilegri. Þar má nefna að hér er sýnd svört á hvftu sú hagfræðilega þverstæða að nú virtust runnir upp tímar efnalegs jafnvægis þegar fólk skorti ekkert sem máli skipti en átti ekki um of heldur af neinu. Og skyldi samstaða og samhjálp fólks þegar mest á reynir í íslenskum þorpum og bæjum vera jöfn nú til dags og ætla má af frásögnum Guðrúnar Helgadóttur að tíðkast hafi á tímum seinna stríðs?

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.