Morgunblaðið - 28.01.2021, Side 12
12 DAGLEGT LÍF
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 28. JANÚAR 2021
Laugavegi 178,105 Rvk. | Sími 551 3366 | www.misty.is
BREYTT OPNUN: Virka daga 12-18, laugardaga kl.11-15
MORGAN
Fallegur og
haldgóður
Haldari: 10.900,-
Buxur 4.650,-
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Ég hef verið að vinnameð ull í tónlist minni, tildæmis hef ég samið verkfyrir sinfóníuhljómsveit
upp úr prjónauppskrift. Ég kann
líka að að spinna ull, bæði á rokk og
snældur,“ segir Hafdís Bjarnadóttir
tónskáld, gítarleikari og handa-
vinnudís, en hún auglýsti nýlega hjá
hópnum Forystufé, eftir því að fá að
koma í fjárhús og taka upp hljóð í
kindum. Í staðinn býður hún upp á
kennslu í handverki eða tónlist, til
dæmis að spinna, tvinna, endur-
vinna garnafganga og búa til nýtt
garn, sauma gamla íslenska kross-
sauminn, prjóna tvo vettlinga á einn
hringprjón, spila á gítar, læra tón-
fræði, hljómfræði eða fá aðstoð við
lagasmíð.
„Mig langar að taka upp hljóð í
kindum og í kringum kindur, en mig
langar líka til að spila á gítarinn fyr-
ir kindur og taka það upp. Þetta er
liður í tónsmíð sem ég er að vinna í
núna og verður frumflutt í sumar, ef
Covid leyfir, á Reykjavík Fringe
Festival. Þetta er samstarfsverkefni
mitt með píanóleikara og slagverks-
leikara sem heita Nicoletta Favari
og Christopher Salvito. Þau eru
hjón sem skipa dúettinn Passe-
partout Duo og eiga eiginlega
hvergi heima en hafa ferðast um
heiminn síðustu árin og búa til tón-
list og flytja tónlist. Þau koma til Ís-
lands í sumar og við ætlum að halda
kindatónleika úti um allt land. Ætl-
unin er að flytja verkið líka í Fær-
eyjum, Skotlandi og á Ítalíu.“
Hafdís segir að hún, Nicoletta
og Christopher hafi áður unnið sam-
an fyrir nokkrum árum í Færeyjum.
„Í Færeyjum héldum við tón-
leika þar sem þemað var sólargang-
urinn. Ég bjó til tónverk þar sem ég
fór eftir töflum um hæð sólar yfir
heilt ár. Við þrjú urðum fyrir svo
miklum innblæstri í Færeyjum, þar
eru kindur alls staðar, líka í bak-
görðum í höfuðborginni. Við fórum í
framhaldinu að velta fyrir okkur að
búa til tónlist fyrir kindur og flytja
hana fyrir kindur, og fólk auðvitað
líka í leiðinni,“ segir Hafdís og bætir
við að hún ætli í nýja verkefninu að
vinna með hvaða hljóð heyrast í
fjárhúsum.
„Ég hef verið að spyrja sauð-
fjárbændur sem ég þekki um hvaða
hljóð þeir tengi við fjárhúslífið og
kindurnar. Ég hef líka spurt hvaða
hljóð kindur vilji ekki heyra og ótal-
margt fleira. Ég hef meðal annars
fengið þau svör að kindur elski öll
hljóð sem tengjast fæðunni, hljóðið í
fóðurbæti og hljóð í plastpoka sem
geymir matinn þeirra. Margir
bændur segja það vera notalegt
hljóð þegar þær jórtra og þegar
þær strjúkast við grindur, tréverkið
í fjárhúsinu. Okkur langar sem sagt
að eiga samtal við bændur sem eru í
daglegum samskiptum við fé, spyrja
hvað fólk heyri, hvaða hljóð því finn-
ist skemmtileg, því það er jú ein-
staklingsbundið. Ætlunin er að taka
hljóðin síðan upp og brasa með þau í
minni tónlistarsköpun,“ segir Haf-
dís og lofar að fjölbreytnin verði
mikil í þeim tónleikum sem þau þrjú
ætla að halda í sumar.
„Sumir tónleikarnir verða utan-
dyra með kindum, við ætlum til
dæmis að vera með eina tónleika í
Árbæjarsafni en þar eru mjög gæf-
ar og skemmtilegar brauðkindur.
Aðrir tónleikar verða innandyra og
þá verður meiri húslestrastemning
eða andi kvöldvöku, en þá ætlum við
að leyfa áhorfendum og heyrendum
að prjóna á tónleikunum. Þá mun ég
nota hljóðupptökurnar úr fjárhús-
unum til að skapa stemningu.“
Lærði að prjóna fimm ára
Hafdís er mikil prjónakona og
hefur ástríðu fyrir öllu handgerðu.
„Ég lærði að prjóna þegar ég
var fimm ára og hef nánast verið að
prjóna allar götur síðan. Tónlistar-
áhuginn kom líka snemma, ég var
alltaf að fikta í öllum hljóðfærum
sem ég komst í. Mér hefur alltaf
fundist hljóð á einhvern hátt kitl-
andi fyrirbæri og sum hljóð eru svo
minnisstæð. Til dæmis er alveg sér-
stakt hljóð sem fylgir því þegar ein-
hver opnar innpakkaða gjöf. Ég tek
eftir hljóðum í kringum mig og mér
finnst þau heillandi. Mér finnst skil-
in mjög óljós og áhugaverð, hvenær
eitthvað er hljóð og hvenær eitthvað
er tónlist. Ég gerði plötu með
norska tríóinu Parallax fyrir hálfu
ári, sem heitir Lighthouse, en þá
notuðum við einmitt náttúruhljóð.
Ég hef lengi verið að vesenast með
hljóð, þetta hefur verið í hinum og
þessum verkum í gegnum tíðina hjá
mér. Ég gerði eina plötu sem var
eingöngu náttúruhljóð, Sounds of
Iceland, hún var mjög vinsæl hjá er-
lendum ferðamönnum. Þá ferðaðist
ég um landið og safnaði hljóðum úr
alls konar náttúrufyrirbrigðum,
hverum, fossum, fuglum og fleiru.“
Gaman ef hægt er að nýta
mig
Hafdís segist hlakka mikið til
að spjalla við bændur.
„Mér finnst áhugavert að fá að
eiga samtal við fólk í öðrum störfum
en ég er í, að fá að spyrja bændur
skringilegra spurninga í tengslum
við kindur og hljóð. Viðbrögðin við
fyrirspurnum mínum hafa nú þegar
verið mjög góð, ég fékk frábær boð
um að koma á marga bæi. Mér
finnst virkilega gaman hvað fólk er
opið fyrir þessu og sumir vilja ekki
þiggja neitt í staðinn, þótt ég sé
meira en lítið til í að kenna hand-
verk eða tónlist meðan á heimsókn
minni stendur. Mér þætti gaman ef
það væri hægt að nýta mig, því ég
er að trufla fólk á vinnutíma með
því að fá að koma í fjárhúsin hjá
því,“ segir Hafdís sem hefur líka
verið að gera tilraunir með að
breyta prjónauppskrift í tónlist og
öfugt.
„Þá tek ég prjónamunstrið og
bý til úr því nótur. Ég byrjaði að
föndra við prjónatónverk árið 2007
og ég er alltaf að prófa að gera
þetta á mismunandi hátt. Meistara-
verkefnið mitt í tónsmíðum var sin-
fóníuverk úr prjónauppskrift. Fyrir
það notaði ég líka hljóðin í prjón-
unum þegar verið er að prjóna. Sin-
fóníuhljómsveit Íslands flutti þetta
verk mitt árið 2009 og þá mættu
margir prjónarar og reyndust
tengja mest við þetta,“ segir Hafdís
og bætir við að hún noti líka hljóðið
í prjónamistökum.
„Til dæmis hik á taktinum þeg-
ar maður missir niður lykkju. Það
eru alls konar skemmtilegheit í
þessu. Þetta ýtir manni út úr ein-
hverjum ramma sem maður er fast-
ur í.“
Hafdís segir að fyrir komandi
sumar séu þau þríeykið mjög opin
fyrir samstarfi við ullar- og sauð-
fjártengda ferðaþjónustu um allt
land.
„Við höfum nú þegar talað við
marga aðila og allir tekið vel í það.
Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í
prjónleikum og kindatónleikum
mega endilega hafa samband við
okkur á netfanginu:
hafdisbjarnadottir@gmail.com
Notar kindahljóð í tónlistarsköpun
„Við ætlum að halda kindatónleika úti um allt land,“
segir tónskáldið Hafdís Bjarnadóttir, sem auglýsti á
dögunum eftir kindahljóðum til að nota í tónlistar-
sköpun sinni. Ætlar líka að spila fyrir kindurnar.
Hafdís Tónskáldið umvafið mórauðri ull, en hún hefur unnið með ullina.
Lömb í viðtali Hér tekur Hafdís upp hljóð í nokkrum lömbum.Rúningur Hafdís alsæl að rýja kind og fékk að eiga ullina. Hrútar Þessir urðu á vegi Hafdísar í Færeyjum, hún heillaðist.