Morgunblaðið - 19.02.2021, Page 17
MINNINGAR 17
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 19. FEBRÚAR 2021
✝ Jóna KristínÓlafsdóttir
fæddist á Efra-
Skarði í Svínadal
22. apríl 1935. Hún
andaðist á Hjúkr-
unar- og dval-
arheimilinu Höfða á
Akranesi 9. febrúar
2021. Foreldrar
hennar voru Ólafur
Magnússon, bóndi á
Efra-Skarði, f. 14.3.
1905, d. 22.8. 1999, og Hjörtína
Guðrún Jónsdóttir húsfreyja, f.
20.10. 1900, d. 6.1. 1988. Systkini
Jónu Kristínar eru Þorgerður, f.
30.11. 1930, Sigríður, f. 4.11.
1932, Magnús, f. 14.3. 1939, og
Selma, f. 16.6. 1940.
Eiginmaður Jónu Kristínar
var Guðjón Þór Ólafsson, vél-
virkjameistari á Akranesi, f. 2.7.
1937, d. 4.11. 1998, sonur Ólafs
E. Bjarnleifssonar og Brandísar
Árnadóttur. Börn þeirra eru: 1)
Ólafur Rúnar, vélvirkjameistari
á Akranesi, f. 13.2. 1955, kvænt-
ur Hrafnhildi Geirsdóttur. 2)
Valur Þór, skipstjóri í Reykja-
nesbæ, f. 11.2. 1958, kvæntur
ung að árum og bjuggu þar æ
síðan, um árabil í Hlíðarhúsum í
Suðurgötu 78, síðan á Garða-
braut 4 og loks í Jörundarholti
170. Þar bjó Jóna Kristín allt þar
til hún fluttist á hjúkrunar- og
dvalarheimilið Höfða í ársbyrjun
2019.
Jóna Kristín var lengi heima-
vinnandi með sinn stóra barna-
hóp en gegndi síðan ýmsum
störfum, lengst af sem starfs-
stúlka á Sjúkrahúsi Akraness.
Hún var virk í félagsmálum,
gegndi trúnaðarstörfum fyrir
Alþýðubandalagið, hafði um
talsvert skeið umsjón með
rekstri Reinar, félagsheimilis
sósíalista á Akranesi, og var um
árabil umboðsmaður Þjóðviljans
á Akranesi. Hún sat um tíma í
skólanefnd Fjölbrautaskóla
Vesturlands á Akranesi í umboði
menntamálaráðherra. Hún tók
virkan þátt í starfi Félags eldri
borgara á Akranesi.
Útför Jónu Kristínar verður
gerð frá Akraneskirkju í dag,
19. febrúar 2021, og hefst at-
höfnin klukkan 13. Vegna sam-
komutakmarkana verða aðeins
nánustu aðstandendur við-
staddir útförina en henni verður
streymt á vef Akraneskirkju,
https://www.akraneskirkja.is
Virkan hlekk á streymi má
finna á:
https://www.mbl.is/andlat
Huldu Björgu Birg-
isdóttur. 3) Bryndís
Ólöf, starfsstúlka á
Akranesi, f. 16.8.
1959, gift Júlíusi
Pétri Ingólfssyni. 4)
Smári Viðar, vél-
tæknifræðingur og
framkvæmdastjóri
á Akranesi, f. 17.9.
1960, trúlofaður dr.
Söru Margréti
Ólafsdóttur. 5)
Garðar Heimir, blaðamaður og
framkvæmdastjóri á Akranesi, f.
18.4. 1963, kvæntur Kristínu
Líndal Hallbjörnsdóttur. 6) Hug-
rún Olga, grunnskólakennari á
Akranesi, f. 31.7. 1964, gift Gúst-
av Adolf Karlssyni. 7) Kristín
Mjöll, leikskólakennari á Akra-
nesi, f. 20.1. 1973, gift Baldvini
Bjarka Baldvinssyni. Afkom-
endur Jónu Kristínar og Guðjóns
Þórs eru 64 talsins.
Jóna Kristín naut heima-
kennslu í sveitinni sem barn en
gekk síðan í Héraðsskólann í
Reykholti og lauk prófi þaðan
1953. Þar kynntist hún Guðjóni
Þór. Þau hófu búskap á Akranesi
Takk, mamma. Takk fyrir að
ala okkur og fæða og klæða þegar
við þurftum þess með. Fyrir að
kenna okkur lífsgildin þín og gefa
okkur veganesti út í lífið. Fyrir að
vera mannasættir, hvetja og
styðja þegar á þurfti að halda,
skamma þegar svo bar undir, fyr-
ir að vera stoð og stytta, skjól og
öxl að gráta við þegar bjátaði á.
Að vera sterk þegar við vorum
veik. Á meðan pabbi vann úti
myrkranna á milli vannst þú fyrir
okkur heima frá morgni til
kvölds. Það var sjö daga vinnu-
vika. Fyrst á fætur, síðust í hátt-
inn. Við, börnin þín sjö, erum lífs-
verkið þitt. Við vonum að þú hafir
alla vega stundum verið stolt af
því. Gangandi minnisvarðar um
konu sem leit á það sem heilaga
köllun að koma börnunum sínum
til manns. Það var göfugt ævi-
starf. Elsku mamma, við eigum
ótrúlega margar fallegar og
skemmtilegar minningar sem
tengjast þér og verðum þér æv-
inlega þakklát fyrir þær. Við biðj-
um að heilsa pabba.
Ólafur Rúnar, Valur Þór,
Bryndís Ólöf, Garðar
Heimir, Hugrún Olga
og Kristín Mjöll.
Elsku mamma. Komið er að
leiðarlokum. Það var bæði sárt og
um leið gott að geta verið hjá þér
síðasta spölinn. Mikið hefði ég
viljað fá að halda þér lengur
hérna hjá okkur, en í þeim málum
er víst ekki við allt ráðið. Hver
veit líka nema við eigum eftir að
hittast aftur og eiga enn fleiri
gæðastundir saman?
Allar góðu og fallegu minning-
arnar hellast yfir mann þessa
dagana, enda af mörgu að taka.
Það fyrsta sem upp í hugann
kemur er öll þessi endalausa um-
hyggjusemi fyrir öllu þínu fólki
og auðvitað fólki almennt. Alltaf
jafn blíð og góð, endalaust tilbúin
að leita lausna og sátta, sama
hvað á bjátaði.
Eins og algengt var á meðal
þinna samtímakvenna var lífið
ekki eintómur dans á rósum.
Okkur systkinunum fjölgaði enda
hratt og því í mörg horn að líta við
að halda öllu gangandi, með
pabba jafnvel fjarverandi vegna
vinnu dögum saman. Ekki man
ég þó eftir þrengslum í búi. Eftir
á að hyggja hefur þar eflaust
komið til þín ótrúlega vinnusemi,
hvort sem það var við matargerð,
bakstur, saumaskap eða heimilis-
haldið almennt. Ekki er að undra
þótt einhverjir vinir okkar hafi
sagt þig vera „Jónu síbakandi“.
Mér er það minnisstætt þegar
þú skundaðir aftur út á vinnu-
markaðinn í kringum 1970 og það
kom í hlut okkar systkinanna að
taka aukinn þátt í heimilisstörf-
unum, við uppvask, tiltekt o.fl.
Líklega rann upp fyrir manni þá
hversu mikið og óeigingjarnt
starf hvíldi á þínum herðum alla
daga.
Ferðalögin og útilegurnar í
litla botnlausa tjaldinu, með allan
hópinn, koma upp í hugann.
Heimsóknirnar að Skarði og
Sleitustöðum ekki síður. Seinna
var ferðast til annarra landa og
heimsóknin ykkar pabba og Stínu
til okkar í Óðinsvéum er minnis-
stæð. Þá var m.a. brunað til
Þýskalands, veskið þitt gleymdist
í „mollinu“ í Kiel og búið að loka. Í
sömu heimsókn var brotist inn í
bílinn okkar í K.höfn og snyrti-
boxinu þínu stolið. Þá var gott að
geta reitt sig á jafnaðargeðið og
æðruleysið, sem virtist alltaf vera
til nóg af. Ferðin til Arnórs á bik-
arúrslitaleikinn hans í Parken er
ekki síður minnisstæð.
Fallegi Heiðarlundurinn ykk-
ar pabba á þínum æskuslóðum
var ykkur til sóma og gaf þér
jafnframt ómælda gleði og góðar
minningar. Stundirnar þínar í
Rein í góðra vina hópi, dansinn,
fallegu kjólarnir, jólaboðin er
einnig gaman að nefna.
Við systkinin höfum sjálf átt
barnaláni að fagna og öll fengu
þau að kynnast þinni skilyrðis-
lausu ást og umhyggjusemi.
Stundum mátti jafnvel skilja orð
þín svo að þú skildir ekkert í því
hvernig við hefðum farið að því að
búa til svona vel gerð og falleg
börn. Aðdáunarvert var líka
hversu ötul og útsjónarsöm þú
varst þegar kom að kaupum á
jólagjöfum handa öllum þessum
fjölda.
Þakklæti er mér efst í huga,
elsku mamma. Takk fyrir allan
stuðninginn í uppvextinum og
hvatninguna til góðra verka.
Takk fyrir að þerra tárin þegar
svo bar undir og umvefja mig ást
og umhyggju alla tíð. Takk fyrir
allar dásamlegu minningarnar.
Takk fyrir að hafa eindregið
hvatt mig til náms. Takk fyrir að
hafa verið börnunum mínum góð
amma. Takk fyrir allt.
Þinn sonur,
Smári Viðar.
Elsku amma Jóna. Nú ertu
farin yfir í draumalandið og við
erum ekki í nokkrum vafa um að
þú sért mesta skvísan þar, alltaf
svo fín og flott. Þú varst stolt af
öllu þínu fólki og það var gott að
koma í Jörundarholtið þar sem
þú reiddir fram heilu veislurnar
jafnvel þó að „þú ættir ekkert til
og værir ekkert búin að baka“.
Þaðan fór enginn svangur út og
þú knúsaðir og kysstir alla og
kvaddir svo fallega. Okkur fannst
gaman að heyra sögur af pabba
og systkinunum (krakkaskaran-
um) frá því í gamla daga, skoða
myndaalbúmin, kjólana þína og
glingrið og jólagjafirnar. Jólaboð-
in í Jörundarholti voru þau allra
skemmtilegustu og margir jóla-
sveinarnir sem komu þar við! Þú
sýndir okkur barnabörnunum, lífi
okkar, ástum og hamingju ein-
lægan áhuga og það fór ekkert
framhjá þér.
Ég, Anna Sólveig, minnist sér-
staklega tímans sem við áttum
saman þegar ég var í fæðingaror-
lofi með Gunnar Smára. Það var
gott að stoppa göngutúrinn í Jör-
undarholtinu og þú kenndir mér
t.d. að baka góðu hafrakexkök-
urnar þínar. Eins eru mér mik-
ilvægar gæðastundirnar okkar
saman þegar hægt var að heim-
sækja þig á Höfða og gott að sjá
að þar leið þér vel. Mér þykir
einnig afar vænt um að hafa upp-
lifað Ellýjarsýninguna með þér.
Það voru svo auðvitað alger for-
réttindi að fá ykkur afa í heim-
sókn til Danmerkur sem barn og
eiga ykkur út af fyrir sig.
Það er mér (Arnóri) sérstak-
lega minnisstætt eitt sumarið
þegar ég var að vinna uppi á golf-
velli og kom ávallt í hádegismat
til þín. Þá fékk maður knús og þú
horfðir alltaf svo fallega og djúpt í
augun á mér og alltaf jafn glöð að
sjá mig. Það var yndislegt að fá að
vera með þér, bara við tvö, spjalla
saman og borða góðan mat, hvort
sem það var slátur, svið eða kjöt-
súpa sem þú fórst sko létt með að
matreiða.
Ég hugsa einnig með mikilli
hlýju til heimsóknanna þegar þú
komst til mín til Hollands og Dan-
merkur.
Að þú hafir mætt og stutt við
bakið á mér í bikarúrslitaleiknum
á Parken á sínum tíma er ógleym-
anlegt og sýnir bara enn og aftur
hvað þú varst góð og stolt af þínu
fólki og vildir allt fyrir það gera.
Mér, Sverri Mar, er minnis-
stæðast hversu velkominn mér
fannst ég vera þegar ég kom í
heimsókn. Það voru alltaf góðar
stundir þegar þú bauðst okkur
frændsystkinum í hádegismat.
Ég pantaði alltaf kjötfarsbollur
og kartöflumús, það eru fáir sem
slá þér við þar. Ég mun sakna
þessara stunda með þér. Elsku
amma, mig langar að signa þig í
svefn eins og þú gerðir alltaf þeg-
ar ég fékk að gista hjá þér.
„Í nafni guðs föður, sonar og
heilags anda, amen.“
Elsku amma Jóna, nú förum
við í okkar fínasta púss, fáum
okkur kaffi í fallegum bollum,
setjum Ellý eða jafnvel Álfta-
gerðisbræður á fóninn, dönsum í
stofunni og fögnum ástinni og líf-
inu. Minning þín mun svo sann-
arlega lifa.
Sofðu rótt elsku amma Jóna.
Heyr mína bæn,
bára við strönd,
blítt þú vagga honum við barm,
þar til svefninn sígur á brá.
Draumheimi í
dveljum við þá.
daga langa, saman tvö ein.
Heyr mínar bænir og þrá.
(Ólafur Gaukur)
Anna Sólveig Smáradóttir,
Arnór Smárason,
Sverrir Mar Smárason.
Það er furðulegt að hugsa til
þess að nú sé amma Jóna búin að
kveðja. Það eru forréttindi að
hafa átt ömmu eins og þig. Það
fylgir mér alltaf sú minning þeg-
ar ég var enn á leikskólaaldri og
mamma bað mig að rölta aðeins
út fyrir girðinguna til að sjá hvort
þvotturinn hefði fokið af snúr-
unni. Mér fannst verkefnið svo
spennandi að ég rölti af Eini-
grundinni til ykkar afa í Jörund-
arholti. Þið komuð bæði til dyra
og fannst furðulegt að ég hefði
komið einn, þrátt fyrir að ég héldi
því fram af mikilli sannfæringu að
mamma hefði leyft mér að labba
til ykkar, en þið tókuð á móti mér
með opnum örmum. Þannig voru
móttökurnar ætíð í Jörundarholt-
inu, sem var á uppeldisárunum
mitt annað heimili. Ég man að þið
gáfuð mér grjónagraut áður en
mamma kom, labbið var langt
fyrir litla leggi og ég hef senni-
lega verið glorhungraður.
Grjónagrautur, kjötfars eða slát-
ur og kartöflumús voru yfirleitt á
óskalistanum þegar ég kom í mat
og sætið við enda borðsins ávallt
frátekið.
Ég kom oft í heimsókn eftir
skóla, enda úrvalið í eldhúsinu
talsvert meira spennandi en ég
þekkti heima og notalegt að vera
hjá þér. Þú hafðir óendanlega
þolinmæði og gafst þér mikinn
tíma til þess að spila við mig
rommý. Einhverra hluta vegna
vann ég yfirleitt, en í seinni tíð
grunar mig að það hafi ekki verið
tilviljun.
Það var mikið sport að fá að
gista, sérstaklega ef Kristrún gat
gist líka. Þú lánaðir okkur krónu-
peninga til þess að senda í æsi-
spennandi kappakstur niður bað-
karið með það að markmiði að
enda í niðurfallinu. Þær voru
einnig margar ferðirnar upp í
Lund þar sem við gistum í hjól-
hýsinu, busluðum í læknum og
gengum upp í fjall, oftar en ekki í
leit að jurtum sem þú notaðir til
að búa til te.
Þú stóðst alltaf við bakið á mér
og hvattir mig áfram, sama hvað
ég tók mér fyrir hendur. Við
prjónuðum saman, ég í hæginda-
stólnum hans afa og þú í þínum.
Treflarnir, húfurnar og teppin
voru fjöldaframleidd og aldrei
datt þér í hug að draga úr mér,
þótt það væri ekki hefðbundið að
strákar prjónuðu. Þú leyfðir okk-
ur Kristrúnu að ganga í hús og
selja heimateiknaða broskalla
fyrir tíkall, þrátt fyrir að vita vel
að hér væri engin verðmætasköp-
un í gangi, önnur en tilfinningaleg
fyrir unga frumkvöðla.
Í seinni tíð var gott að koma í
heimsókn, bæði í Jörundarholtið
og á Höfða, skoða gömul mynda-
albúm og rifja upp góðar stundir.
Þú kenndir mér margar lífsregl-
ur og áttir stóran þátt í því að
móta manninn sem ég er orðinn í
dag. Það einkennir allar minning-
ar um þig að þær eru góðar, það
var ómetanlegt fyrir ungan fé-
lagsfælinn dreng að eiga þig að.
Samband okkar var einstakt,
enda eyddi ég meiri tíma með þér
en nokkrum öðrum sem barn og
unglingur, að mömmu undanskil-
inni. Fyrir tímann okkar saman
verð ég ávallt þakklátur og vona
að ég geti sinnt mínu hlutverki
jafn vel og þú gerðir, þegar ég
eignast barnabörn.
Kristófer Már Maronsson.
Það er af mörgum góðum
minningum að taka þegar ég
hugsa um ömmu mína Jónu
Kristínu Ólafsdóttur. Sumar
minningar standa þó alltaf meira
upp úr en aðrar, flestar þeirra
tengjast útiveru, náttúrunni og
síðast en ekki síst fjölskyldufjall-
inu Skarðsheiði. Því það var ekki
nóg fyrir ömmu og afa að rækta
upp stóran garð og ferðast um
landið á húsbílnum sem afi smíð-
aði inn í, heldur tóku þau sig til og
ræktuðu Lundinn sem er í hlíð
Skarðsheiðar.
Amma ólst upp á Efra-Skarði
sem liggur að rótum Skarðsheið-
ar og var því vön að ganga á fjall.
Sem hún átti svo auðvelt með að
ég undraði mig á því sem barn
hvernig hún flaut áfram upp fjall-
ið þegar við fórum í Heiðarvatn í
Skarðsheiði.
Hún blés ekki úr nös og var
fljótlega komin langt á undan öll-
um með pabba mínum sem hefur
alla tíð gengið hratt. Það væri
jafnvel hægt að halda því fram að
amma mín hafi verið mikil fjalla-
geit enda væntanlega þurft að
vera það sem barn á Efra-Skarði.
Seinna var ég vön að koma með
foreldrum mínum, manni og
börnum að hjálpa til við sláttinn í
Lundinum sem var orðinn lítil
paradísarlaut.
Með fjallalæk sem streymdi í
gegn og umlukin stálpuðum
trjám sem amma og afi höfðu
gróðursett. Þar eyddum við heit-
um sumardögum, fengum eitt-
hvað sætt hjá ömmu, pabbi gekk
með sláttuvélina og við hin vorum
á hrífunum. Amma gekk í hlíð-
unum á milli verka og athugaði
með allan gróðurinn sem lifði af
veturinn.
En það var ekki bara þar sem
ég á góðar minningar því þegar
ég var yngri fórum við mamma og
pabbi stundum með ömmu og afa
í ferðalag um landið og amma var
með mörg box af heimabökuðu
bakkelsi sem ég fékk að gæða
mér á þegar við stoppuðum fyrir
kaffi en þess á milli benti hún mér
á landslagið sem var í kringum
okkur. Ég var með höfuðið í bók-
um eða litabókum, það voru engir
gemsar þá, og amma glímdi við að
fá mig til að njóta útsýnisins og
gefa mér viskuperlur í leiðinni.
Ég veit ekki hversu mikið af því
síaðist inn í barnsheilann en ég
lærði að horfa út um gluggann á
bílnum og virða fyrir mér lands-
lagið. Hún átti stóran þátt í því að
ég kann að meta íslenska náttúru
og ferðast með minni fjölskyldu í
dag. Ég er þakklát fyrir allar þær
stundir sem ég hef átt með henni
ömmu, stundirnar sem börnin
mín þrjú hafa átt með henni, og
þar heldur þráðurinn áfram en
þeirra bestu minningar með
henni eru einmitt að eyða tíma
með henni í útiveru, sumar í garð-
inum í Jörundarholti eða í Lund-
inum.
Það er því með sorg í hjarta
sem við fjölskyldan kveðjum
ömmu. Hún var einstök kona og
við huggum okkur með minning-
unum sem við eigum eftir, þær
munu seint gleymast.
Emilía Íris L. Garðarsdóttir
og fjölskylda.
Rein, félagsheimili sósíalista á
Akranesi, eins og það var kallað,
var stórmerkileg stofnun um ára-
tugi. Það var byggt í sjálfboða-
vinnu og var bæði heimili fyrir
flokksstarfsemi vinstra fólks og
annar helsti samkomustaður
bæjarins. Það voru haldin ung-
lingaböll, árshátíðir, þorrablót,
fermingarveislur, giftingar og
fleira.
Þar voru vikulegir pólitískir
fundir, oft fjölmennir, kosninga-
skrifstofa og þar var alltaf flott-
asta kosningakaffið í bænum.
Tekjurnar af starfseminni fóru
svo í að kosta stjórnmálastarfið,
þar á meðal útgáfu blaðs, kosn-
ingabaráttu og fleira.
Þessi starfsemi byggðist á hópi
fórnfúsra og áhugasamra kvenna,
Reinarkonur kölluðum við okkur.
Þetta var samstilltur og hlátur-
mildur hópur, sem gaf sér tíma til
að sitja og grínast langt fram á
nótt eftir að hafa afgreitt árshá-
tíðargesti á balli. Eldhúsið var
ekki mikið stærra en góður fata-
skápur og önnur aðstaða þröng
en ekki var fjasað yfir því. Bar-
áttan fyrir betra vinnuumhverfi
sneri að öðrum.
Hún Jóna okkar Ólafs, sem við
kveðjum núna eftir áratuga vin-
skap og samferð, var um langan
tíma fremst í þessum hópi. Hún
var í forsvari fyrir rekstrinum á
Rein, í góðu félagi við Huldu vin-
konu sína og með dyggum stuðn-
ingi hans Gonna síns. Í því starfi
kom sér vel að Jóna var bæði rösk
og skipulögð, en um leið hress og
skemmtileg kona og gat látið
hlutina ganga með góðum anda í
kringum sig. Hún var áhugasöm
um hagi annarra og lét sig velferð
fólks skipta. Og svo var hún
skarpgreind kona, tók virkan þátt
í pólitískri umræðu, var á fram-
boðslistum Alþýðubandalagsins
og sat í stjórn Fjölbrautaskólans.
Ofan á það var hún líka umboðs-
maður Þjóðviljans á Akranesi um
árabil.
Öllu þessu sinnti hún samhliða
því að halda stórt heimili, ala upp
sjö mannvænleg börn og sinna
barnabörnum þegar tímar liðu.
Hún lét engan eiga neitt inni hjá
sér, eins og þegar hún svaraði
Gonna þegar hann undraðist að
hún mundi ekki eftir einhverju úr
pólitíkinni: „Já, Gonni, þegar þú
sast og last Þjóðviljann eða Rétt
var ég niðri í þvottahúsi!“
Nú er Rein komin í aðra notk-
un, pólitísku línurnar ekki eins
hreinar og forðum og Jóna Ólafs
horfin okkur. Við Reinarkonur
sem eftir erum þökkum innilega
fyrir samfylgdina, vináttuna og
allar skemmtilegu stundirnar.
Blessuð sé minning kærrar vin-
konu.
Fyrir hönd Reinarkvenna,
Ingunn Anna Jónasdóttir.
Jóna Kristín Ólafsdóttir er
fallin frá.
Þessi ljúfa kona gekk til liðs við
okkur, Soroptimistaklúbb Akra-
ness, fyrir 20 árum. Hún var trú-
fastur Soroptimisti. Jóna fór ekki
hratt yfir eða með fyrirgangi. Frá
henni stafaði hlýja og nærvera
hennar veitti gleði. Við systur í
Soroptimistaklúbbi Akraness
nutum starfskrafta hennar með-
an heilsa hennar leyfði. Hún sat í
stjórn klúbbsins og gegndi einnig
ýmsum nefndarstörfum. Öll
hennar störf voru rækt af sam-
viskusemi og alúð.
Jóna Kristín var sérstaklega
dugleg að sækja fundi klúbbsins
og einnig fundi Landssambands
Soroptimista. Það var svo undur
gott að ferðast með henni þegar
við sóttum fundi víðs vegar um
landið. Og þá var oft glatt á hjalla.
Við kveðjum kæra klúbbsystur
okkar með virðingu og þökk fyrir
samferðina í klúbbnum okkar á
þessum 20 árum. Við sendum fjöl-
skyldu Jónu Kristínar okkar
dýpstu samúðarkveðjur. Hvíl í
friði, kæra systir.
Við sjáum, að dýrð á djúpið slær,
þó degi sé tekið að halla.
Það er eins og festingin færist nær
og faðmi jörðina alla.
Svo djúp er þögnin við þína sæng,
að þar heyrast englar tala,
og einn þeirra blakar bleikum væng
svo brjóstið þitt fái svala.
Nú strýkur hann barm þinn, blítt og
hljótt,
svo blaktir síðasti loginn.
En svo kemur dagur og sumarnótt
og svanur á bláan voginn.
(Davíð Stefánsson)
Fyrir hönd Soroptimista-
klúbbs Akraness,
Margrét Ósk Vífilsdóttir
formaður.
Jóna Kristín
Ólafsdóttir