Morgunblaðið - 19.02.2021, Síða 21

Morgunblaðið - 19.02.2021, Síða 21
MINNINGAR 21 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 19. FEBRÚAR 2021 þýðari maður. Við frændsystkini Palla höfum farið út í lífið með það veganesti að Krókurinn og fólkið okkar þar er á sínum stað. Það er ómetanlegt öryggi að vita að ef í harðbakkann slær eigum við okkur skjól og samastað á Króknum. Þar var Palli mikil- vægur hornsteinn, sama hvert leiðin lá og hvað við tókum okkur fyrir hendur. Nú er hann farinn. Við skiljum ekki að það sem var alveg óhugsandi gerðist og okkur finnst það grimmt. Elsku Magga, Ragnar, Helga Margrét og Anna Rósa, tengda- synir og barnabörn. Ykkar miss- ir er stærstur og sárastur og við systkinin samhryggjumst ykkur innilega. Við minnumst Palla og þökkum fyrir allt sem hann var og allt sem hann gaf. Hjörtu okkar eru full af stolti yfir að hafa átt hann að. Góða ferð, frændi. Áslaug, Ragnar Páll og Björn Magnús. Palli frændi er fallinn frá, ég hélt að hann myndi lifa að eilífu. Hann var sterki frændinn, klett- urinn sem ekkert virtist bíta á og allir gátu leitað til. Hann var ósérhlífnasti maður sem ég þekki, sá heiðarlegasti og traust- asti. Hann gerði kröfur en þó mestar til sjálfs sín. Hann barð- ist fyrir allt sitt fólk og var fastur fyrir þegar á þurfti að halda hvort sem það var í vörninni í fót- bolta eða lífinu sjálfu. Hans fólk var ekki bara fjölskyldan heldur allir sem hann þekkti og taldi að væru þess verðir að berjast fyrir. Hann var samt ekkert að flíka því og sumir fréttu fyrir tilviljun að hann hefði farið í málin og örugglega eru margir sem hafa ekki hugmynd um það sem hann gerði fyrir þá. Það var aftur á móti ekki auðvelt að þakka hon- um, því var tekið með einu góðu hnussi eins og hann hefði alls ekki gert neitt. Ég heyri hann hnussa yfir öxlina á mér á meðan ég skrifa þetta. Palli var mikill húmoristi og viskubrunnur sem gaman var að spjalla við. Ég á margar góðar minningar um öðlinginn og á honum mikið að þakka. Og jú, hann mun lifa að eilífu, í minn- ingum okkar. Elsku Magga, Ragnar, Helga Margrét, Anna Rósa og allt ykk- ar góða fólk, ég og mínir vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Anna Pála Gísladóttir. Palli frændi var einstakur maður sem reyndist okkur systk- inunum afar vel. Það sem okkur þótti svo einstakt við Palla var hversu traustur hann var, alltaf til staðar ef á þurfti að halda og tilbúinn að leggja fram hjálpar- hönd. Hann sýndi okkur einlægan áhuga og fylgdist vel með því sem við höfðum fyrir stafni hverju sinni. Þegar við hittum Palla var hann oftar en ekki bú- inn að finna einhver tengsl við vinnufélaga, samnemendur eða liðsfélaga okkar, enda með ein- dæmum ættfróður og þekkti marga. Umhyggju- og hjálpsem- in í fari Palla var algjörlega skil- yrðislaus og sjálfsögð af hans hálfu og hafa dyrnar í Birkihlíð- inni, hjá þeim Möggu, ávallt staðið okkur opnar. Palli var hógvær og sóttist aldrei eftir hrósi þrátt fyrir að tilefni væri til og rúmlega það. Hann var sérstaklega ósérhlífinn sem endurspeglaðist vel í kraft- inum, dugnaðinum og þeirri ómetanlegu vinnu sem hann lagði af mörkum til íþróttalífsins og samfélagsins alls á Króknum. Dýrmæt er minningin frá jólun- um 2018 þegar við bræður fórum með Palla og pabba á nýja gervi- grasvöllinn á Króknum og þeir bræður rifjuðu upp gamla takta, þrátt fyrir að vera komnir af létt- asta skeiði. Við munum varðveita vel þær ótal góðu minningar sem við eig- um um Palla frænda og erum þakklát fyrir að hafa átt hann að. Aðalsteinn, Anna Ragna, Árni og Atli. Þau eru þung skrefin sem við göngum í dag er við fylgjum Palla til grafar. Sorgin er mikil og við máttvana og skiljum ekki að hann sé dáinn. Hann sem var svo hraustur, duglegur, bóngóð- ur og tryggur sínum. Minningar liðinna áratuga rifjast upp frá því við fyrst kynntumst Palla þegar Magga systir átti orðið kærasta og hann var frá Sauðárkróki, hún orðin hjúkrunarfræðingur og hann tannlæknir. Síðan lá leið þeirra á Krókinn, Palli að opna sína tannlæknastofu, Magga heimavinnandi, börnunum fjölg- ar og nokkru seinna byggðu þau sitt hús í Birkihlíðinni þar sem þau hafa búið síðan. Þegar við Jóhanna bjuggum austur á Norðfirði var farin að minnsta kosti ein ferð á sumri á Sauðárkrók með okkar börn að heimsækja Möggu systur, Palla og börnin þeirra. Þá var oft mik- ið fjör hjá börnunum sex sem fædd eru á árabilinu 1972-1979. Mikil tilhlökkun og virkilega gaman, Palli alltaf boðinn og bú- inn að gera allt fyrir okkur, t.d. fara í veiði út á Skaga, þeysast um allan Skagafjörð og sýna okkur merkisstaði og sannfæra alla um að hvergi væri betra að búa og rúsínan í pylsuendanum var svo á kvöldin þegar allir voru háttaðir og sestir fyrir framan sjónvarpið þá var í boði ómælt nammi hjá tannlækninum sjálf- um, það þótti okkar börnum skrítið og skildu ekki „og hann sem er tannlæknir“. Palli vildi alltaf gefa og létta undir með öðrum en átti aftur á móti erfitt með að þiggja. Hann var mikill öðlingur og drengur góður. Palli var honum Helga bróður svo góður og artarlegur við systkinin á Rauðamel. Ófáar voru ferðirnar sem hann fór vestur á Rauðamel bara rétt að kíkja á kallana færa þeim eitt- hvað, tala um hesta og hvað sem var. Áhugamálin voru mörg, fót- boltinn, stangveiði, ferðalög, hestar, fjölskyldan og barna- börnin. Allt stundað af mikilli ákefð og næstum alltaf mættur á fótboltamót sem barnabörnin tóku þátt í hvort sem það var fyr- ir sunnan, norðan, austan eða vestan til að fylgjast með þeim og hvetja þau. Elsku Magga, Ragnar, Helga Margrét, Anna Rósa og fjöl- skyldur, okkar innilegustu sam- úðarkveðjur og megi góður guð styrkja ykkur í sorginni. Einnig sendum við systkinum Palla og fjölskyldum samúðarkveðjur. Frímann og Jóhanna. Í dag kveð ég kæran og góðan vin til tæpra 40 ára, dreng sem fallinn er frá allt of fljótt, eftir stutt veikindi. Hann sem ætlaði að gera svo margt þegar hann hætti að vinna. Ég hitti Palla í fyrsta sinn í Reykjavík á vormánuðum 1981, þar sem fótboltalið Tindastóls var að spila æfingaleik við Þrótt. Ég var á leiðinni á Sauðárkrók um sumarið að spila með liðinu í marki og þjálfa 4. flokk drengja í fótbolta. Það sumar kynntumst við Erna þeim Palla, Möggu og börnunum þeirra, Ragnari, Helgu Margréti og Önnu Rósu og var okkur oft boðið heim til þeirra. Veiðiferðirnar út á Skaga voru ófáar og margar skemmti- legar, sérstaklega ferðin í „fyr- irheitna landið“! Þetta sumar hófst með okkur vinskapur, sem haldist hefur alla tíð síðan. Við héldum alltaf góðu sam- bandi eftir sumardvölina á Króknum og heimsókn til Palla og Möggu var fastur liður á hverju sumri eftir það. Þegar börnin okkar bættust í hópinn var þeim tekið með opn- um örmum af allri fjölskyldunni og alltaf jafngaman að fara í heimsókn í Birkihlíðina. Palli lagði sig allan fram um að öllum liði vel og hefðu eitthvað fyrir stafni. Engan mátti skorta neitt eða láta sér leiðast. Alltaf var gaman að hlusta á skemmtilegar sögur af Skagfirðingum og þú komst aldrei að tómum kofunum í ættfræðinni hjá honum. Sumarið ’88 hófst skemmtileg- ur kafli hjá okkur Palla ásamt Bjarna Jónassyni lækni, þegar við héldum í veiðitúr á Rauða- melsheiði í Hnappadalssýslu. Farið var fótgangandi frá Odda- stöðum, með hesta fyrir farang- urinn, gist í tjöldum, veitt í net og á stöng. Helgi á Syðri-Rauða- mel, bróðir Möggu, aðstoðaði okkur með flutninginn. Ragnar sonur Palla kom með okkur í fyrstu ferðina. Eftir þetta fórum við vinirnir nokkrar ferðirnar á heiðina næstu sumur. Lentum við í ýmsum ævintýrum og veðrið ekki alltaf eins og best var á kos- ið, enda nefndum við þennan hóp okkar „Vosbúð og vætu“. Síðustu ferðina á heiðina fórum við gang- andi með farangurinn á sérút- búnum börum sem við höfðum látið hanna fyrir okkur. Arnarvatnsheiði varð líka fyr- ir valinu, en síðasta veiðiferðin okkar saman var í Fljótá í Fljót- unum, ásamt fjölskyldum okkar, þar sem allir fengu að veiða. Eftir að veiðiferðunum lauk höfum við vinirnir ásamt mökum reynt að hittast sem oftast, hér fyrir sunnan, fara í heimsókn á Krókinn eða fara í sumarbústað og njóta samverunnar. Palli og Magga hafa frá byrj- un okkar kynna tekið þátt í mik- ilvægum augnablikum í fjöl- skyldunni, t.d. fermingum barnanna, stúdentaútskriftum o.fl. Það verður dálítið skrítið að fá ekki að heyra aftur röddina og hláturinn hans Palla, en hans verður sárt saknað. Minningin um góðan og traustan vin mun lifa. Við fjölskyldan vottum Möggu, börnum, tengdabörnum og barnabörnum okkar innileg- ustu samúðarkveðjur og guð veri með ykkur. Palli minn, hafðu þökk fyrir allt og allt. Ólafur Ágúst Gíslason. Það var árið 1966 sem ég sá Palla vin minn fyrst. Hann kom á æfingu hjá meistaraflokki Vals til að æfa og halda sér í formi. Fljótlega var hann valinn í liðið. Hann átti svo farsælan feril með Val á Íslandsmótum og Evrópu- keppnum þar sem hann gerði garðinn frægan, þá ekki síst þeg- ar hann tók Eusébio í gæsluvarð- hald þegar Benfica kom hingað heim og spilaði á Laugardalsvell- inum fyrir framan rúmlega 18 þúsund áhorfendur. Palli stundaði nám í tannlækn- ingum við HÍ og með erfiðu námi æfði hann knattspyrnu af krafti, sleppti ekki æfingu. Hann lauk tannlæknanáminu með sæmd eins og öllu öðru sem hann tók sér fyrir hendur. Palli var sam- viskusamur, duglegur, traustur og réttsýnn, hann var vinur vina sinna. Eftir nám hélt Palli með Mar- gréti konu sinni og Ragnari syni sínum á heimaslóðir þar sem hann setti upp tannlæknastofu á Sauðárkróki. Fljótlega fjölgaði í fjölskyldunni er Helga Margrét og Anna Rósa komu í heiminn. Palli lék knattspyrnu áfram á Króknum með Tindastóli og varð fljótlega formaður Ungmenna- félagsins. Hann var allt í öllu í íþróttafélaginu þar sem hann var formaður í áratugi. Palli starfaði af eldmóði og samviskusemi fyrir Tindastól, það var hans eðli. Hjarta hans sló fyrir félagið en eftir að hann lét af störfum sem formaður gafst meiri tími fyrir áhugamálin, veiðar, fjallgöngur og svo barnabörnin. Vinátta okkar hjóna við Palla og Möggu hélt áfram þótt knatt- spyrnuferlinum lyki. Við komum til þeirra á hverju sumri í mörg ár og nutum mikillar gestrisni. Þar var ekki í kot vísað, húsmóð- irin sá um þann hluta. Við ferð- uðumst um Skagafjörðinn með leiðsögumanninum Páli Ragn- arssyni, hann var mjög fróður um menn og málefni, þekkti hverja þúfu og alla ábúendur í sveitinni. Skagafjörðurinn var honum afar kær. Skyndileg veikindi Palla komu okkur mjög á óvart. Hann hafði verið heilsuhraustur og var að undirbúa að láta af störfum og njóta elliáranna með fjölskyld- unni, vinum, börnum og barna- börnum. Við kveðjum þig núna Palli minn, kannski hittumst við aftur, skilaðu kveðju til gömlu liðs- félaganna sem farnir eru á undan þér, Búbba, Atla, Sigga Dags, Bigga Einars, Lalla Ögmunds, Hemma Gunn og fleiri. Hörkulið. Þín verður sárt saknað. Farðu í friði. Alexander og Helga. Horfinn er á braut félagi sem við vorum svo lánsamir að kynn- ast á námsárunum og eiga að vini ætíð síðan. Við hófum allir nám saman í tannlæknadeild og vor- um óhjákvæmilega farnir að þekkjast mjög vel þegar við út- skrifuðumst eftir sex ár í þröng- um vistarverum deildarinnar í kjallara Landspítalans. Þegar kom að ævistarfinu héldum við góðu sambandi okkar á milli og nutum þess oft að eiga samráð og samvinnu við Pál sem var frábær tannlæknir, athugull og vandvirkur. Samviskusemi hans og skyldurækni voru ein- stök og með þeim hætti að sjúk- lingarnir hlutu að finna að allt snerist um að heilsu þeirra og hag væri sem best borgið. Hann tók virkan þátt í ýmsum við- fangsefnum heimabæjarins, einkum ungmennafélags- og íþróttamálum, og þar var hann einnig þekktur og virtur fyrir ósérhlífni og heiðarleika. Hópurinn okkar skólabræðr- anna úr tannlæknadeildinni hef- ur reynst einstaklega samheld- inn og í áratugi höfum við hist reglulega og ferðast saman utan- lands og innan. Fyrst voru þetta fjölskylduferðir innanlands með eiginkonum og stórum barna- hópi, seinna utanlands, en það hefur alltaf verið sama ævintýrið að koma á nýja staði og eiga góða daga saman. Páll lét sig auðvitað aldrei vanta og var hrókur alls fagnaðar, ekki síst þegar fótbolti og söngur komu við sögu. Hann var enn fremur sjálfur afreks- maður í knattspyrnu á yngri ár- um og alltaf með fótboltann of- arlega í huga. Þessi áhugi birtist meðal annars í því að eitt sum- arið þegar við hittumst kom hann með glæsilega fótboltabún- inga handa öllum og gaf okkur félögunum af sinni venjulegu rausn. Þaðan í frá var liðið þekkt sem „Jaxlar Palla“. Páll og Margrét voru ákaflega gestrisin og oft var því komið við á Sauðárkróki á ferð um Norður- land og alltaf var vel tekið á móti okkur og af miklum höfðings- skap. Þegar Páll stjórnaði ferð okk- ar um Skagafjörð eitt sumarið skildum við ást hans á heimahög- unum enn betur en áður. Hann byrjaði á því að gefa öllum eintak af skagfirsku sögunni „Rauða- myrkur“ eftir Skagfirðinginn Hannes Pétursson en sýndi okk- ur síðan Drangey og alla hina sögustaðina og kvartaði yfir því einu að við gætum ekki verið viku lengur. Nú er Páll skyndilega horfinn okkur eftir örstutta baráttu við illskeyttan sjúkdóm og ekkert verður aftur eins og áður. Það er mikið áfall fyrir okkur skóla- bræðurna að missa Pál en hugg- un að hugsa til þess að í lífinu var hann sannur gæfumaður og sá drauma sína rætast um ham- ingjusamt fjölskyldulíf og far- sælt ævistarf í heimabænum. Jón Birgir Baldursson, Jón Viðar Arnórsson, Magnús Torfason, Sigurjón Arnlaugs- son, Sigurjón Árni Þór- arinsson og Teitur Jónsson. Í dag kveðjum við góðan dreng og vin, Palla Ragnars. Páll Ragnarsson var einstakur mað- ur, vinnusamur, ástríðufullur og vinur vina sinna. Ungur yfirgaf hann Krókinn til að mennta sig en við kynnt- umst honum fyrir alvöru þegar hann flutti aftur heim árið 1974 sem tannlæknir. Á þeim tíma voru kynslóðaskipti í gangi, bæði í fótboltanum og stjórn Tinda- stóls. Það var því aldeilis happ- drættisvinningur fyrir okkur fé- lagana sem vorum að stíga okkar fyrstu spor með meistaraflokki að fá fótboltamanninn Palla og bróður Ödda, félaga okkar. Og ekki síður félagsmálamanninn Palla. Hann hafði spilað fótbolta með Val í nokkur ár og stimplaði sig rækilega inn á Laugardals- velli árið 1968 þegar leikið var gegn Benfica. Já, allt breyttist þegar hann kom; hugarfarið, stemningin og metnaðurinn. Palli var ekki bara foringi og fyrirliði. Hann var fyr- irmynd og einstakur vinur okkar allra. Hann setti kröfur og við lögðum meira á okkur. Palli gat með eldræðum sínum kveikt þann neista sem þurfti til að sigra leiki, og það gerðist oft. Keppnisferðirnar sem við fór- um saman voru ófáar; austur á land, vestur, suður eða um Norð- urland. Allt ógleymanlegar ferð- ir. Þá kom í ljós einstök landa- fræðikunnátta og frásagnargáfa Palla. Palli varð formaður UMF Tindastóls og stýrði þeirri skútu farsællega í 31 ár. Við vorum meira og minna með honum allan þann tíma, tíma sem við munum aldrei gleyma og munum ekki geta þakkað nægilega fyrir. Það voru forréttindi að fá að vera með og vinna að sameiginlegu áhugamáli og hjartans máli okk- ar allra, félaginu okkar Tinda- stóli. Þau eru mörg sporin sem Palli skilur eftir sig á vettvangi íþrótta- og félagsstarfs á Sauð- árkróki. Okkur langar að þakka Palla fyrir allt hans starf og fyrir árin sem við áttum saman. Sauðár- krókur og Tindastóll eru fátæk- ari eftir fráfall hans. Við fé- lagarnir; Stebbi, Þórhallur, Atli, Kalli, Siggi, Ingvi, Biggi, Bjössi Sverris, Bjössi Garðars, Finnur, Rúnar, Ómar Bragi og Óskar, sendum Möggu og fjölskyldu og Ödda og hans fjölskyldu innileg- ustu samúðarkveðjur. Minningin um Palla mun lifa og hann mun ætíð eiga stað í hjarta okkar. Fyrir hönd Tindastóls-77-fé- laganna, Ómar Bragi Stefánsson, Óskar G. Björnsson. UMF Tindastóll kveður nú einn sinn mesta og besta félaga, Pál Ragnarsson. Hann var alla tíð sannur Tindastólsmaður og starf hans fyrir félagið verður aldrei fullþakkað. Páll var formaður aðalstjórnar Tindastóls frá árinu 1975 til árs- ins 2006 eða í 31 ár. Öll þessi ár barðist hann fyrir bættri aðstöðu félagsins, fylgdi eftir vexti þess og hélt utan um það af áhuga og ábyrgð. Þegar farið var í verkefni á vegum félagsins var hann iðulega mættur fyrstur og fór oftar en ekki síðastur heim. Páll var óþreytandi að mæta á íþróttaviðburði og hvetja Tinda- stól áfram. Hann fylgdist með starfsemi félagsins og iðkendum á öllum aldursskeiðum. Hann lét sig allt varða er við kom félag- inu. Allir í samfélaginu og mun víð- ar vissu af eljusemi Páls fyrir fé- lagið og þeirri vinnu sem hann lagði á sig. Það var litið til hans með virðingu. Hann var heiðursfélagi UMF Tindastóls og hlaut gullmerki UMFÍ og ÍSÍ. Einnig var hann silfur- og gullmerkjahafi KSÍ. UMF Tindastóll sendir eftir- lifandi eiginkonu Páls, Margréti Steingrímsdóttur hjúkrunar- fræðingi, og börnum þeirra og barnabörnum innilegustu sam- úðarkveðjur. Takk fyrir allt þitt óeigin- gjarna starf fyrir félagið okkar. Fyrir hönd Tindastóls, Guðlaugur Skúlason. Kveðja frá Tannlæknafélagi Íslands Mætur félagi er fallinn frá. Páll Ragnarsson, tannlæknir á Sauðárkróki, andaðist þann 29. janúar síðastliðinn eftir stutt veikindi. Hann lauk kandidats- prófi frá tannlæknadeild Háskóla Íslands árið 1972 og starfaði fyrstu tvö árin eftir útskrift sem aðstoðartannlæknir hjá Ríkarði Pálssyni tannlækni og sem skóla- tannlæknir hjá Reykjavíkur- borg. Árið 1974 fluttist hann til heimabæjar síns, Sauðárkróks, og setti á stofn eigin tannlækna- stofu, sem hann rak óslitið til dauðadags. Páll var sérlega farsæll í starfi, samviskusamur og athug- ull enda vinsæll og vel metinn af skjólstæðingum sínum. Hann var áhugasamur um starf sitt og var ötull að sækja fyrirlestra og námskeið í faginu, þótt oft væri um langan veg að fara. Hann tók virkan þátt í félagsstarfi tann- lækna og sat í stjórn Tannlækna- félags Norðurlands árin 1986 til 1996, þar af sem formaður í þrjú ár. Öll námsár sín í Reykjavík og þar til hann flutti norður, lék Páll knattspyrnu með meistaraflokki Vals og tók þá reynslu sína með sér til starfa fyrir Tindastól. Hann var formaður Ungmenna- félagsins Tindastóls í rúm 30 ár og bar hag þess alla tíð mjög fyr- ir brjósti. Hann var kappsamur en líka drengilegur og starfaði af ótrú- legri elju og ósérhlífni við að byggja upp og styðja allt íþrótta- líf á Sauðárkróki. Við fráfall Páls sjáum við á eftir traustum, virtum og góðum félaga. Tannlæknafélag Íslands vott- ar eiginkonu hans, Margréti Steingrímsdóttur, og aðstand- endum innilega samúð sína. Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir formaður. Valur eignaðist afbragðs- félagsmann þegar Páll Ragn- arsson gekk til liðs við félagið í upphafi náms í tannlækningum. Við Valsmenn nutum samver- unnar meðan á náminu stóð og Palli lék með okkur og tók þátt í starfinu í Val af sönnum áhuga. Páll var sannarlega í stóru hlut- verki þegar Valur dróst í Evr- ópukeppni meistaraliða á móti hinu fræga félagi Benfica frá Lissabon í Portúgal og fór fyrri leikurinn fram á Laugardals- velli 18. september 1968. Hinn frábæri þjálfari okkar, KR-ing- urinn Óli B. Jónsson, fól Palla það stóra hlutverk að taka Eusebio, þeirra helstu stjörnu, úr umferð. 18.243 áhorfendur tróðu sér inn á Laugardalsvöll- inn og settu um leið aðsóknar- met sem enn þá stendur. Þeir nutu góða veðursins og horfðu á frekar tíðindalítið, markalaust jafntefli þar sem Palli stóð sig afar vel og fékk verðskuldað hrós frá portúgölsku hetjunni. Palli fékk viðurnefnið Eusebio- baninn fyrir sína góðu frammi- stöðu. Þegar náminu lauk flutti Palli heim til Sauðárkróks þar sem hans biðu mikil verkefni, ekki aðeins í faginu heldur einn- ig í fótboltanum og ekki síður í SJÁ SÍÐU 22

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.