Strandapósturinn - 01.06.1969, Blaðsíða 72
mikilli snjókomu, cinkum á fjöllum og nokkurri í byggð, svc
að almennt var farið að hýsa sauðfé. Næstu daga var svo hríðar-
hraglandi, en þó fjallabjart í sveitum. Um það leyti bárust föð-
ur okkar orð um það, að hann ætti 10—20 fjár suður á Kinna-
stöðum og Kollabúðum við Þorskafjörð, sem hefðu kornið niður í
búfjárhaga í veturnáttahretinu. Þess fjár, sem allt var áður heimt
í haustgöngum, hafði lengi verið leitað fyrr um haustið án
árangurs. Vegna þess hve hausttíðin var lengi góð, mun fé þetta
hafa rásað suður fyrir vatnaskil og niður á efstu grös sunnan
megin fjallanna, en það var einsdæmi að haustlagi. Nú þurfti að
sækja þetta fé hið allra bráðasta, þar eð það var hýst og á gjöf á
fyrr nefndum bæjum. Þó nokkur snjór var kominn í byggð og enn
meiri á fjöllum, svo að búast mátti við, að heiðar yrðu brátt
ófærar yfirferðar með fjárrekstur ef óveðrakafli legðist að. Vitan-
lega vorum við bræður, sem þá vorum báðir á bezta aidri á
milli tvítugs og þrítugs, sjálfsagðir til þessarar farar. Við ákváðum
þá að fara Laxárdalsheiði suður, Bæjardalsheiði norður aftur,
með féð. Báðum þessum heiðum var ég þá nokkuð kunnugur,
einkum hinni fyrmefndu, sem ég hafði oft farið áður, bæði
fram og til baka á sumar- og vetrardegi, en að vísu aldrei nema
í björtu veðri.
Þegar við lögðum á stað frá Hólmavík um dagmálaleytið,
fyrstu dagana í nóvember, var lágskýjað og dimmt í lofti, norð-
austan kaldi og nokkurt frost, en úrkomulaust. Veðurútht var
því ekki upp á hið bezta, en við vorum ókvíðnir og töldum
ekki ástæðu til að óttast, þó að veður breyttist til hins verra, þar
sem heiðin var yfirleitt sæmilega vörðuð og ég þóttist allvel
kunnugur á þeim slóðum. Við fórum venjulega vetrarleið upp yfir
Skeljavíkurháls, upp að Þiðriksvallavatni og inn með því að norð-
an í átt til heiðarinnar. Þrátt fyrir undanfarandi frost og snjó-
komu var vatnið hvergi íslagt, utan lítilsháttar meðfram lönd-
um, enda leggur það nálega aldrei fyrr en einhvemtíma á jóla-
föstu, svo að manngengt sé, og ís leysir ekki af því fyrr en um og
eftir sumarmál eða jafnvel krossmessu. Þiðriksvallavatn er meðal
stærstu stöðuvatna á Vestfjörðum, og er nú um stundir forðabúr
til rennshsjöfnunar fyrir svonefnda Þverárvirkjun, sem rafmagn
70