Strandapósturinn - 01.06.1969, Blaðsíða 126
sem öðrum stóð mikill stuggur af. Hafði þó ekki lesið monstró-
lógíu Þórbergs.
Er ég var að kryfja þetta vandamál kom mér snjallræði í hug,
sem framkvæmt var með eftirtöldum hætti: Ég viðraði mig upp
við Möggu og spurði hvort hún hefði nokkurn sérstakan starfa
með höndum, sem hún kvað ekki vera. Fannst mér nú heldur
hækka hagur Strympu og færði mig upp á skaftið. Varð það að
samkomulagi, að hún gengi með mér niður í Höfða eftir kúnum.
Það var þögull og lítill maður, sem labbaði við hlið vinkonu
sinnar niður Tuttugu-og-fimmálnavöllinn enda mikil umbrot í
huga. Þegar að Fúluvíkinni kom laumaðist lítil hendi í hlýjan
lófa, sem veitti öryggiskennd gagnvart öllum hættum. Nú tóku
stríðari hugsanir að sækja á huga. Ég var ykkur að segja kominn
í alvarlegar bónorðshugleiðingar. Einhverjar hugmyndir hafði ég
þó um, að slíkt hentaði ekki þessu aldursskeiði, en kannski vildi
hin væntanlega hinkra við í nokkur ár. Efinn er slæmur og varð
að fótakefli í þetta sinn, því að aldrei þorði ég að bera upp bón-
orðið. Og kýrnar komust heim með hinni góðu aðstoð, sem ég
hafði og hamingjunnar naut ég áfram, sem ég hefði ef til vill
spillt með ótímabærri framhleypni.
Nú var það eitt sinn á þessu aldursskeiði, að ég fékk að fljóta
með afa mínum í umvitjun hrognkelsaneta.
Eftir langvarandi norðanátt, var þungur sjór en vindinn hafði
lægt að mestu. Þegar búið var að vitja um netin sagði gamli mað-
urinn að hann væri að hugsa um að skuttlast út í Sléttuvík og
sækja rótarhnyðju, þar eð amma hafði eitthvað kvartað um að
illa væri séð fyrir uppkveikju upp á síðkastið. — Fæst orð bera
minnsta ábyrgð. —- Gamli maðurinn vatt upp segl og þrátt fyrir
aldursmuninn held ég að báðir hafi verið latir við áramar.
Siglingin þótti mér hæpin, því eins og fyrr er sagt var sjór
þungur, þó ekki væri hvasst.
Er við sigldum innan við Sléttuvíkurboðana, reif sig upp brot,
sem ég gat ekki betur séð en ætlaði að kaffæra bátinn. En afa
tókst að víkja undan og þá hljómaði sú setning frá honum, sem
mér er einna minnisstæðast úr þessu ferðalagi: — „A, jæja“. —
124