Strandapósturinn - 01.06.1973, Qupperneq 56
fengur skrifari og ekki heyrði ég annars getið, en að hann leysti
starf sitt við verzlunina vel af hendi, þótt skólaganga hans hafi
líklega verið fremur lítil. Ólafur varð ekki langær í starfi hjá Riis-
verzlun, frekar en Halldór Aspar. Hefur hann ef til vill verið þar
3—4 ár, en varla neitt sem heitir fram yfir það, líklega öllu heldur
á hinn veginn. Annars er mér nákvæm tímasetning þessara manna-
skipta anzi óljós, því að eins og fyrr segir dvaldi ég ekki heima í
Staðarsveit á þessum árum nerna sem gestur. Þegar Ólafur
Kristjánsson hætti störfum sem verzlunarþjónn hjá Riisverzlun,
mun Borgar Sveinsson frá Kirkjubóli í Staðardal hafa komið í
hans stað við verzlunina. Mig rámar þó óljóst í, að eitthvert milli-
bilsástand hafi orðið áður en þau mannaskipti fóru fram, og að
Tómas Brandsson hlypi þá í skarðið um stuttan tíma. Kannski er
það þó misminni mitt, að svo hafi verið. Hitt er aftur á móti
fullvíst, að árið 1925 er Borgar orðinn fastráðinn verzlunarþjónn
við Riisverzlun og heldur því starfi, að ég hygg, svo lengi verzlun-
in var við lýði sem sjálfsfcætt fyrirtæki, þótt eigandaskipti yrðu.
Pétur frá Stökkum segir, að Jóhann Þorsteinsson hafi ekki rekið
verzlunina nema um tveggja ára tíma, til ársloka 1931. Vera má
að það sé rétt í vissum skilningi, en þó ætla ég að eitthvað hafi
hún starfað lengur, t.d. að innheimtu skulda, sölu vörubirgða o.
þ.h., því að ekki man ég betur en allt væri þar með líku sniði og
fyrr vorið 1932, þegar ég flyt á brott úr héraðinu. Hér hefur í
þáttum þessum allmargt frásagnarvert orðið útundan, viðkomandi
hinum fyrri verzlunarrekstri á Hólmavík. Til dæmis er að engu
getið flutningatækja og verksháttar við út- og uppskipun (bring-
ingu) á vörum, áður en hafskipabryggjan var byggð, sem mun
ekki hafa verið fyrr en árið 1936. Lýsing þeirra vinnubragða,
sem fyrrum voru viðhöfð í því starfi, er kafli út af fyrir sig, þótt
ekki verði hér frá þeim sagt. Enda vill svo til, að slíkar lýsingar og
frásagnir mun allvíða að finna í ævisögum og minningaþáttum
ýmissa manna, þar eð við sömu skilyrði var að búa í flestum kaup-
túnum og sjávarþorpum um land allt, hvað þetta snerti, þar sem
hvorki voru hafnarbakkar né hafskipabryggjur.
54