Strandapósturinn - 01.06.1973, Side 115
Vorið 1919 tók ég við ljósmóðurstörfum í Kaldrananeshreppi
og bjó hjá foreldrum mínum á Klúku í Bjamarfirði. En árið 1918
og fram á vor 1919 var ég í ljósmæðraskóla í Reykjavík.
Þann 17. júlí um sumarið tók Bjamarfjarðará að vaxa og þann
18. um kvöldið var hún engri skepnu fær, þann 19. var hún
farin að flæða upp á túnið á Klúku. Ekki datt mér í hug að ég
yrði sótt handan yfir ána þegar hún var í þessum ham. Ég vissi
af konu í Bæ á Selströnd, sem komið gat til mála að þyrfti mín
með hvenær sem væri. Þegar kom fram um miðjan dag þann 19.,
sáum við mann koma með tvo til reiðar fram Neseyrar, sem
kallaðar vom og vom hinumegin við ána. Þessi maður hélt sem
leið liggur fram að Bakka, en stoppar þar og kemur niður að á
og kallar yfir, hvort ég treysti mér að sundríða ána, en ég neitaði
því. Bóndinn á Bakka Andrés Jóhannsson hafði gengið með sendi-
manniniyn niður að ánni, hann kallaði til min og spurði hvort ég
treysti mér yfir, ef han kæmist á bát yfir ána, en hann átti bát,
uppsettan niður í Odda, sem kallað var. Ég svaraði, að ég teldi
mér ekki rncira en honum að reyna það. Til að geta komist í
bátinn, varð ég að fara yfir á, er heitir Hallardalsá og var hún ekki
árennileg. Pabbi sendi á næsta bæ, að fá lánaðan hest, sem hægt
væri að treysta í vatni og víst var hann Blesi blessaður karlinn góð-
ur, faðir minn reið honum, en ég brúnni hryssu, sem faðir minn
átti og var úrvals gripur. Pabbi reiddi töskuna mína, ég reið í
söðli sem þá var venja með konur. Svo var lagt af stað, við kom-
um að Hallardalsánni þar sem hún valt fram kolmórauð og
stramnhörð, hestamir drápu grönum í vatnið og frísuðu, litu yfir
ána, eins og þeir væru að mæla hvað þetta væri langt og ég held,
að hefði Brúnka mín snúið frá, þá hefði ég látið hana ráða, en
hún fór út i og strax á síður, áin er stórgrýtt og ill yfirferðar þó
ekki sé hún breið, ég sleppti beizlistaumunum, en hélt mér í
söðulbogann með annari hendinni, en vafði faxinu á Brúnku
utan um hina, ég ætlaði mér að missa ekki af hryssunni hvað sem
í skærist. Brúnka sótti fast í strauminn og sló þá straumkviku yfir
faxið, upp í kjöltu mína og undir söðulbogann, en upp úr kom-
umst við með Guðs hjálp, ég fór þá að gá að föður mínum og
sá að hann og Blesi voru að ná landi miklu neðar.
113