Strandapósturinn - 01.06.1974, Síða 26
spori er á lá. Áður fyrr höfðu vörður verið á stangli frá
Kúvíkum og upp á heiði, og mun það hafa verið póstleið á
þeim tímum, en þeim var ekki haldið við og voru því er fram
liðu stundir óglöggur vegvísir, enda æ fleiri, er lögðu leið sína
að og frá Kjós. Að vetrarlagi var oftast farið að Sunndal
(síminn lá þangað eftir að hann kom) og yfir Bjarnaríjarðar-
háls að Sandnesi. Þar stóðu öllum opnar dyr, jafnt að nóttu
sem degi hjá þeim heiðurshjónum Guðbjörgu Einarsdóttur og
Sigvalda Guðmundssyni og fyrirgreiðsla í té látin, flutningur
til Hólmavíkur, eða lánaður bátur, eftir því sem með þurfti
hverju sinni. Þegar ég man fyrst til mín og áður en heiðin var
vörðuð, var það eigi ótítt er sækja þurfti meðul, að komið var
að Kjós og faðir minn beðinn að fara með sjúkdómslýsinguna
og koma með lyf til baka. Beið þá maðurinn í Kjós á meðan.
En þetta breyttist eftir að heiðin var vörðuð, eftir það var hún
ekki slík torfæra og áður var. Samt þurfti dugnað og harðfylgi
í vetrarferðum og völdust því í þessar ferðir hraustir menn,
enda lentu læknisferðir á sömu mönnunum hvað ofan í annað.
Það var venja að komast undir heiðina og gista í Kjós, taka svo
daginn snemma, þó í skammdegi væri, birtan var þó í hönd og
oft vildi svo til, að sá hinn sami slapp inn af heiðinni áður en
veður versnaði, væri um það að ræða. Gæfist veðrið hinsvegar
vel, gat komið til mála að komast til baka aftur, en ýmsar tafir
urðu oft og tíðum, svo sem að læknir var ekki heima, og gat þá
dregist í tímann lengur eða skemur.
Á meðan Guðmundur Scheving var læknir á Hólmavík,
man ég ekki eftir að hann kæmi norður yfir heiði að vetrarlagi,
en að sumarlagi var hann á ferð nokkrum sinnum, og var eitt
sinn sóttur frá Kjós, er Jónína Guðmundsdóttir frá Skarði í
Bjarnarfirði datt af hestbaki og handleggsbrotnaði.
Eins og kunnugt er, varð Magnús Pétursson læknir á
Hólmavík árið 1909. Hann var ágætur læknir, skyldurækinn
svo af bar og göngugarpur. Hann gisti marga nótt í Kjós, þá
oftast á bakaleið. Fór hann þá af stað ekki seinna en kl. 6 að
morgni. Þegar hann var á leið norður, hafði faðir minn alltaf
til bát að flytja hann yfir að Naustvík og ekki var látið standa
á greiða svo tafir yrðu sem minnstar. Á þessum árum gengu
24