Strandapósturinn - 01.06.1974, Qupperneq 110
bagginn fór af hestinum í ána, voru bundin svokölluð
klakkabönd á kistuna og rúmið, svo þau flytu ekki upp af
klökkunum. Tengdafaðir minn teymdi þennan hest, sem var
eins og áður er sagt, mjög traustur og góður hestur.
Allt gekk vel eftir að komið var yfir ána og lestin þokaðist
upp á heiðina. Þegar komið var að ánum á heiðinni voru þær
búnar að ryðja sig, en miklir ísskarir voru báðu megin, það
gekk mjög erfiðlega að koma hestunum yfir, vatnið var ekki
svo ákaflega mikið, en ísskarirnar voru svo háar að erfitt var að
koma hestunum yfir þær.
Þegar við vorum komin það langt norður, að við sáum niður
í Staðardalinn var eins og yfir fjörð að sjá, árnar voru þá
orðnar svo vatnsmiklar að dalurinn var eins og fjörður yfir að
líta, með smá eyjum á milli.
Fyrst varð á vegi okkar gilið á Kleppustöðum, þar þurftu
hestarnir að steypa sér fram af háum bakka niður í gilið, sem
var mjög straumþungt. Þá varð að taka drengina og selflytja
þá yfir, það gekk allt vel.
Þegar komið var að Staðará, virtist hún illfær, eða jafnvel
ófær og þar sem Aratunguá rennur í hana, var eins og innfjörð
að sjá, en ekki venjulega bergvatnsá. Á ánni var mjótt vað,
sem varð að fara með klyfjahestana yfir, voru þeir bundnir
hver aftan í annan og þannig teymdir yfir ána.
Þarna mátti engu muna, því ef þeir hefðu farið út af vaðinu,
er óvíst hvernig farið hefði, hún var svo straumhörð. Það var
alveg ótrúlegt hvað þetta var ógnvekjandi að sjá. Drengirnir
voru teknir og reiddir yfir. Ég man alltaf hversu Jóhann bróðir
minn var ötull við að selflytja yfir ána. Mér fannst þetta allt
svo háskalegt og hélt jafnvel að allt myndi farast, ég bað til
guðs um, að ekki yrði slys.
Við komumst á leiðarenda með guðs hjálp og góðra manna,
en það var að Hrófbergi, þar var farangurinn tekinn af
hestunum og settur í geymslu. Við héldum síðan áfram að
Bassastöðum og urðum að sundríða Selá. Seinna var farangur-
inn fluttur á bát frá Hrófbergi að Þorpum, þar bjuggum við í
eitt ár, en fluttum þá að Gautshamri á Selströnd.
108