Strandapósturinn - 01.06.1974, Page 117
heima í Bæ hjá foreldrum sínum, segir að þetta áhlaup hafi
staðið í 3 dægur, en birt hafi upp á þriðjudagsmorgni og menn
þá farið að leita að og smala fé sínu. Guðmundur man vel eftir
því, þegar komið var með Jón inn að Bæ, skaðkalinn og
vettlingalausan, a.m.k. á annarri hendi og gott ef ekki
höfuðfatslausan líka. Guðmundur man ekki fyrir víst, hver eða
hverjir fundu gamla manninn, sem byrjaður var að staulast af
stað inn að Bæ, en Jóhann Hjaltason, segist muna það
örugglega að hafa heyrt þá strax er þetta skeði, að sá sem fyrst
hitti Jón og veitti hjálp, var Guðjón ívarsson, þá í húsmennsku
á Bjarnarnesi.
Jóhann Hjaltason hefur beðið mig að geta þess, svo sem í
viðaukaskyni við grein hans í síðasta Strandapósti (7 árg.) þar
sem hann segir, að honum þyki ólíklegt að Hólmavík hafi svo
heitið frá öndverðu. Jóhann segir svo. Þegar ég skrifaði þetta
hefur mér sést yfir eða verið búinn að gleyma, að í ferðabók
Olavíusar (ísl. þýðing 1. bls. 264), er víkin kölluð Hólmarifs-
vík. Þar eru einnig örnefnin. Hólmarifshöfði, Hólmarifsklakk-
ur og Hólmarifskleif.
Ólafur Ólafsson frá Eyri í Seyðisfirði vestra, kallaði sig upp
á latínu Olavíus eins og siður var þá lærðra manna, enda
dvaldi hann meirihluta ævi sinnar erlendis (í Danmörku).
Hann var merkur maður og athafnasamur, kannski nokkuð
laus í rásinni, varð ekki gamall. Hann ferðaðist hér um land
allt á vegum stjórnarinnar á árunum 1775-77. Fyrrnefnd
örnefni eru auðsjáanlega öll dregin af nafninu Hólmarif, sem
virðist vera upprunalegasta og helsta nafnið á þessum slóðum.
Hin nöfnin, sem Olavíus leiðir af því, geta allteins og eru
meira að segja trúlegast tilbúningur Olavíusar sjálfs, sem mun
hafa verið ókunnugur þarna.
Skjálfsbragur er ekki rétt nafn, það mun hafa verið mislesið,
hið rétta nafn mun vera Skjálgsbragur.
115