Strandapósturinn - 01.06.1974, Side 124
Hákarlskólfur var verkaður á svipaðan hátt og sundmagi,
súrsaður og borðaður þannig.
Skarfakál var notað til matargerðar og aðallega haft í
grauta og brauð, en brauð voru bökuð í hlóðum. Þau voru
hnoðuð og sett á plötu úr járni og potti hvolft yfir. Því næst
voru hlóðin fyllt með moði, mómylsnu og öðru eldsneyti, sem
brann seint, logaði ekki en myndaði mikinn hita. Þannig urðu
brauðin vel seydd og ljúffeng. Brauð með skarfakáli í þótti
bæði hollur og góður matur, ennfremur var skarfakálið notað
við sláturgerð til að drýgja mjölið, sem oft var af skornum
skammti. Meðal annars var skarfakálið talið öruggt lyf við
skyrbjúg, en skyrbjúgur var all algengur sjúkdómur á þeim
árum og stafaði af næringarskorti.
Fjallagrös voru mikið notuð til manneldis. Grasamjólk og
grasagrautar voru algengur matur hjá fólki á þeim tíma og
grautar úr bankabyggi og fjallagrösum með nýmjólk út á voru
mjög vinsælir. Einnig voru fjallagrös mikið notuð í brauð og
slátur eins og skarfakálið, og meðal annars hafði slátur með
fjallagrösum meira geymsluþol en slátur með einu saman
mjöli. Bæði skarfakál og Qallagrös voru söxuð mjög smátt
þegar þau voru notuð í slátur og brauð, en fjallagrös í grauta
og mjólk voru ekki söxuð.
Sauðamagálar soðnir og reyktir þóttu hátíðamatur. Magál-
arnir voru teknir þannig, að þeir voru hringskornir af skrokk-
unum. Þeir voru soðnir og sett þunnt léreft utan um þá og
settir þannig í reyk. Fullreyktir voru þeir geymdir í léreftinu
þar til átti að bera þá á borð, en þá var léreftið tekið utan af
þeim og þeir skornir í sneiðar og borðaðir með smurðri
flatköku. Glóðarbökuð flatkaka smurð með nýstrokkuðu smjöri
og reyktur sauðamagáll þótti hinn mesti hátíðamatur.
Sýra, salt og hersla voru aðal geymsluaðferðirnar í gamla
daga og voru menn orðnir svo vanir þessum geymsluaðferðum
í gegnum árin, að vandalaust var að geyma flestar tegundir
matvæla árlangt og sumar svo árum skipti, eins og til dæmis
hákarl, sem talið var að batnaði við lengri geymslu.
Að lokum skal á það bent, að þessi upptalning á geymslu-
og verkunaraðferðum matvæla er alls ekki tæmandi.
122