Strandapósturinn - 01.06.1983, Page 72
komu saman á bæ einum að kvöldi dags og hugðust heimsækja
nokkra bæi í sveitinni. Þetta mun hafa verið í marz eða apríl og
allir voru menn þessir ríðandi.
Meðfylgjandi kvæði lýsir þessu ferðalagi svo vel að óþarfi er
um að bæta. Það gerðu þeir síðast þessir menn, að þeir komu að
Heydalsá, þá komið var fram á nótt og heimsóttu skólann. Ekki
gerðu þeir vart við sig en raft einn mikinn fundu þeir, hvar veit
ég ekki. Með því að opna glugga á einni skólastofunni komust
þeir inn, settu raftinn við eitt nemanda borðið, þar eins og sat
hann við borðið, síðan bundu þeir rauðan tóbaksklút á efri enda
raftsins. Vel var um gengið og aungvar skemmdir í frammi
hafðar og svo hljóðlega að farið að enginn í skólanum vaknaði.
Skólastjórinn var þá Halldór Ólafsson síðar á Fögrubrekku í
Hrútafirði. Það fyrsta sem mætti honum um morguninn í
skólastofunni var áðurnefndur raftur. Það var hald sumra
manna að Halldóri hafi fundið sér óvirðing sýnd með raftinum,
en við nánari athugun held ég að svo hafi ekki verið, enda sýnir
bragurinn svo að ekki verður um villst að svo var ekki.
Halldór skólastjóri var vel hagorður maður samt sem áður fær
hann til liðs við sig mann sem þekktur var fyrir að vera snilldar
vel hagmæltur og var það Guðlaugur Jónsson, sem lengi bjó á
Borðeyri og byggði þar nýbýlið Lyngholt. Guðlaugur var sonur
Jóns Þorsteinssonar á Gestsstöðum og fyrri konu hans.
Kona Guðlaugs var systir Halldórs, þar af leiðandi þekktust
þeir vel. Þennan umrædda vetur var Laugi, en svo var hann
tíðast kallaður, við kennslu norður í Bjarnarfirði og í páskafríinu
fór Halldór norður að finna hann og varð þá til sá bragur sem er
tilefni þessarar frásagnar.
Hvor þeirra á meira í þessum brag læt ég ósagt, en þeir sem
kunnugastir töldust vera þóttust þekkja þar sérlega bragarhátt
og önnur tilsögn og sagnaranda þann sem Lauga var tamur. En
hvað um það, þessi vel gerði bragur varð yndi allra í Tungusveit
í langan tíma og lærðu hann fullorðnir sem börn.
Að endingu vil ég geta þess, að það er samhljóða álit margra
manna sem ég hef að spurt, að þessir menn sem gerðu sér glaða
kvöldstund að áliðnum vetri hafi þar alls ekki haft vín um hönd.
70