Strandapósturinn - 01.06.2006, Page 35
Framan af vertíðinni var róið stutt, og tók túrinn, eins og svo
var kallað, tvo til þrjá sólarhringa, og bæði lýsi og hákarl hirtur.
Þegar kom fram á Góu, voru farnar lengri ferðir, ef tíð var góð,
og búið sig út með vikunesti. Þeir róðrar voru nefndir „skurð-
arróðrar“. Þeir voru nefndir svo vegna þess, að þá var lifrin
aðeins hirt, en skrokknum kastað.
Á síðari árum voru menn farnir að hafa með sjer eldfæri í
leguferðir. Var það stór pottur sem eldur var kveiktur í, og var
það mjög til bóta.
Ekki ber mönnum saman um, hvað mörg hákarlaskip hafi
gengið frá Gjögri síðari hluta 19. aldar. Telja sumir að þau hafi
verið um tuttugu. Hákarlinn var lagður til heimilanna, og gekk
einnig kaupum og sölum manna á milli.
Það lætur að líkum, að allur sá fjöldi ungra og tápmikilla
manna, sem stunduðu róðra frá Gjögri, hafi ekki unað algeru
iðjuleysi í landlegum, sem stundum voru alllangar.
Til skemtunar innivið voru einkum lesnar sögur og kveðnar
rímur. Af útiskemtunum voru einkum glímur, ungir menn fóru
í eina bröndótta. Margir voru hagleiksmenn, einkum á trje, og
efniviður var nærtækur. Mest smíðuðu menn ýmis búsáhöld til
heimilanna, svo sem trog, fötur, dalla og sái. Ennfremur orf,
hrífur, hrip og klifbera, svo nokkuð sé nefnt. Stundum gerðu
menn sjer glaðan dag. Á þeim tíma fjekst alstaðar brennivín í
verslunum, og kostaði potturinn 25 aura.
Nú eru hákarlaveiðar lagðar niður á Gjögri fyrir nærfelt 60–70
árum. – Eitt skip frá þessum tíma er til í sýslunni, „Ófeigur“ í
Ófeigsfirði, sem er teinæringur. Hann er að vísu ekki sjófær, en
raddir eru uppi um það, að hann þurfi að geyma og varðveita.
Væri hann vissulega virðulegur gripur í bygðasafni. („Ófeigur“ er
þegar kominn yfir flóann, að Reykjum í Hrútafirði. Þar er verið
að byggja yfir hann.)
Alt fram til 1950 hefur meira og minna verið róið til fiskjar frá
sveitabýlum hjer í Steingrímsfirði sjerstaklega á haustum, en sú
starfsemi er nú alveg hætt. Útgerðin er nær eingöngu frá þorp-
unum.
Þá skal að nokkru getið um verslunarhætti í Strandasýslu fyr
á tímum. Þar til um miðja 19. öld höfðu aðeins tvær verslanir
33