Strandapósturinn - 01.06.2006, Blaðsíða 98
þess látna sérstaklega ef um fullorðið fólk var að ræða, sem búið
hafði lengi þar sem ævin endaði. Svo var það sem hér um ræðir.
Þáverandi sóknarprestur, séra Björn H. Jónsson kom kvöldið
áður til að sinna því hlutverki sínu. Að máltíðinni lokinni var
hafist handa við að undirbúa húskveðjuna, kistunni var komið
fyrir í stofu hússins, sem var mjög lítil og rúmaði lítið meira auk
kistunnar en prestinn og ef til vill eitthvað af nánustu ættingjum
þeirrar látnu, aðrir viðstaddir, sem voru auk fjölskyldunnar, þeir
sem komnir voru til að aðstoða við flutninginn, ásamt a.m.k. allt
fullorðið fólk af Munaðarnesbæjunum, stóðu í gangi framan við
stofuna. Þarna fór fram hátíðleg kveðjustund, presturinn flutti
stutta kveðjuræðu og sungnir voru tveir sálmar án undirleiks.
Ekki man sá er þetta ritar, efnislega mikið úr þeirri tölu, sem
prestur flutti, en annan sálminn, sem sunginn var, sálmur nr. 96,
„Fögur er foldin“ eftir Matthías Jochumsson.
Að því búnu tygjuðu menn sig til ferðar, og var þá ekki orðinn
bjartur dagur, kistan borin út úr húsinu, og hin aldna húsmóðir
kvaddi heimili sitt í hinsta sinn. Einnig var til taks hestur með
sleða fyrir. Kistan var borin fyrsta spölinn, en sett á sleðann þar,
sem snjór var og slétt undir, annars borin þar sem jörð var auð.
Líklega hefur ferðin til Norðurfjarðar tekið um tvær klukku-
stundir. Þegar þangað kom var ákveðið að halda áfram alla leið,
enda fór birtutíminn í hönd og ferðaveður allgott. Faðir minn,
Gísli Guðlaugsson, átti lítinn vélbát (trillu), sem var fenginn til
að fara þessa ferð á, en sökum þess hve báturinn var lítill og
ekki hægt að koma kistunni öðru vísi fyrir en hafa hana ofan á
þóftum, og einnig nokkra menn, sem líka voru með í för, var
ekki talið ráðlegt að flytja kistuna þannig, enda ljóst að nokkur
veltingur yrði. Var þá gripið til þess ráðs að fá lánaðan uppskip-
unarbát í eigu Kaupfélgas Strandamanna, vélarlausan, til að flytja
kistuna á. Þess er að geta að þessi vélbátur Gísla á Steinstúni var
mikið notaður á þessum árum við margvíslega flutninga milli
bæja. Var bátnum slefað (dreginn) með trillunni. Þurfti nú að
hafa hraðar hendur, þar sem birtutíminn var stuttur, og sjósetja
þurfti tvo báta, sem voru þó sitt á hvorum staðnum. Vafalaust
hafa heimamenn í Norðurfirði aðstoða við það.
Allt tók þetta nokkurn tíma og var farið að líða á dag þegar
96