Strandapósturinn - 01.06.2006, Blaðsíða 99
við komumst af stað. Nokkuð fækkaði í flutningsmannahópn-
um, líklega höfum við verið fimm sem fórum með bátunum,
Bernharð í Norðurfirði, Sigurvin á Felli, undirritaður, Sigurgeir
og séra Björn H. Jónsson. Ferðin yfir Trékyllisvíkina gekk vel þó
vestanvindur væri og nokkur veltingur. Þegar komið var í Árnes
var birtu tekið að bregða. Gengið var frá bátunum, einhverjir
heimamenn komu til sjávar að aðstoða við að bera kistuna til
kirkju, en góður spölur var frá lendingunni að kirkjustaðnum.
Einn var sá siður, sem lengi tíðkaðist, var að syngja sálmvers
meðan kistan var borin í kirkju og hringja kirkjuklukkum.
Í Árnesi tíðkaðist að syngja vers úr Passíusálmum Hallgríms
Péturssonar, nr. 277 í sálmabókinni, „Jurtagarður er herrans hér.“
Til að leiða þann söng var komin Guðfinna Guðmundsdóttir á
Finnbogastöðum sem var þá organisti í Árneskirkju. Sú var einn-
ig venja þegar þetta inngönguvers var sungið, að þeir sem sungu
stóðu úti og fylgdu kistunni inn í kirkjuna og sungu sálminn um
leið. Einnig var kirkjuklukkum hringt þegar kistan var borin í
kirkju, og var þar kominn hringjarinn Þorsteinn Guðmundsson.
Var kistan nú komin á leiðarenda og höfðum við, sem tókum
þátt í þessum flutningi, að því leyti lokið okkar hlutverki.
Að þessu loknu bauð Björn prestur okkur til kaffidrykkju,
sem var vel þegið. Höfðum við samt hraðann á þar sem farið var
að dimma, og um það leyti, sem við fórum úr Árnesi var komið
myrkur. Ferðin yfir Trékyllisvíkina gekk samt vel, þó hafði bætt
í vind og var komin veltingur og ágjöf. Þegar til Norðurfjarðar
kom þurfti að setja báða bátana á land og nutum við þá einnig
aðstoðar heimamanna í Norðurfirði og var komið langt fram á
kvöld þegar því var lokið.
Ég hefi hér sett á blað frásögn af þessum flutningi. Þegar þetta
var gert fyrir hálfri öld var það ekki í frásögur færandi að viðhafa
þá aðferð, sem notuð var. En síðan hafa tímarnir breyst, og sam-
göngur nú allar auðveldari (til batnaðar skulum við segja), en þá
var, jafnvel norður á Ströndum um miðsvetrarleytið.
97