Strandapósturinn - 01.06.2006, Page 67
um nóttina á Holtavörðuheiði svo
að hún var ófær bílum. Þurftum
við nú að setja skíðin á okkur
og okkar hafurtask á bakið og
ganga yfir Holtavörðuheiði suður
í Fornahvamm. Það var ótrúlega
erfið færð, mikil lausamjöll og sá
sem fremstur gekk óð snjó upp-
undir hné enda skiptust við á að
fara á undan og marka brautina.
Eftir 5–6 tíma vorum við komnir
að Fornahvammi aðframkomnir
af þreytu og glorhungraðir. Þar
fengum við góðan mat enda mér
í fersku minni hvaða matur var á
borðum, það voru steiktar saltaðar
hrossakets bollur, ég held að ég
hafi borðað allt að 24 bollur (margar voru þær). Það verður að
segjast eins og er að þessi ferð yfir Holtavörðuheiði mun líða
seint úr minni sem erfiðasta og tvísýnasta sem ég hef farið. Ef
það hefði skollið á okkur t.d. norðan bylur þá hefði illa getað
farið, við fremur illa klæddir, matarlausir og kennileiti af skorn-
um skammti.
Eftir að búið var að jafna sig eftir matinn og nokkuð áliðið dags
var aftur lagt af stað. Þá á 10 hjóla hertrukk sem Páll Sigurðsson
í Fornahvammi átti, en þá bættist við hópinn tvær stúlkur sem
höfðu verið veðurtepptar í Fornahvammi og voru á leið til
Reykjavíkur. Við vorum með skóflur meðferðis ásamt keðjum á
bílinn, búist var við að það þyrfti að moka, enda kom það á dag-
inn. Við komust ekki langt, án þess að þurfa að moka snjóskafla
meira og minna langleiðina að Hreðavatnsskála. Það var búið að
panta bíl frá Akranesi og var hann mættur við Hreðavatnsskála.
Ók hann okkur að Olíustöðinni í Hvalfirði. Þar tók á móti okkur
Guðmundur Jónasson fjallabílstjóri sem flutti okkur sem eftir var
til Reykjavíkur. Þangað var komið kl. 4 um nóttina, við fengum
gistingu á Hótel Rist sem staðsett var á Reykjavíkurflugvelli, gam-
all hermannabraggi. Ég man hvað mér þótti kalt í þessari kompu
65
Ari Jónsson keppti á Skíðalands-
móti 1949 á Kolviðarhóli.