Strandapósturinn - 01.06.2006, Qupperneq 123
Ekki veit ég hvort Sigmundur var víðförull maður um dagana.
Aldrei vissi ég til að hann kæmi í Kollafjörðinn þau 6 sumur sem
ég var þar, né til Hólmavíkur aldar fjórðunginn sem ég átti þar
heima. Í þetta eina sinn sá ég því Sigmund, og bara rétt í svip. Ég
veit að ég talaði við hann, því að ég hef orðið að skýra honum frá
erindinu með riffilinn. Ekkert man ég eftir honum sjálfum, konu
hans Jóhönnu Sigmundsdóttur, eða neinu öðru heimafólki. Ekki
tók ég heldur, svo ég muni, eftir hinum fræga rennibekk, sem
síðar verður sagt frá og er reyndar aðaltilefni þessara skrifa. Ég
held að hugur minn hafi verið upptekinn við ferðalagið, sem
mér þótti ískyggi lega langt. Og heimferðin var eftir.
Til er önnur gömul saga, líka um skotvopn, tengd Munda í
Þrúðardal og Sigmundi á Gili. Hún barst mér til eyrna fyrir til-
viljun. Jón sonur Sigmundar sagði mér hana eitt sinn þegar við
hittumst við jarðarför og tókum tal saman. Eins og á stóð, hefði
kannski mátt búast við alvarlegra umræðuefni og ofar í hugum
við staddra, en frásögn þessari svofelldri:
Mundi var á rjúpnaskyttiríi og braut lásinn í byssu sinni. Þar sem
mikið var um rjúpu vildi hann fá gert við byssuna sem allra fyrst og
þrammaði af stað yfir að Gili til Sigmundar. Þegar hann kemur upp
yfir hálsbrúnina sér hann hvar kúra 3 rjúpur sem hann langar mikið
í. Setur hann nú skot í byssuna og skorðar hana á grjóthrúgu, sigtar
lauslega og lemur á hvellhettuna með steini. Og rjúpurnar steinliggja
alla. „Já“, bætti Jón við söguna, „Mundi var afbragðs skytta“. Mundi
hélt svo áfram yfir að Gili, sýndi veiðina og Sigmundur gerði við byss-
una.
Ekki vissi ég til að Sigmundur ynni önnur verk en þessi tvö
fyrir Þrúðardalsfólk.
Milli línanna hér að framan má lesa að hluta ástæðuna fyrir
því, að ég er að skipta mér af Sigmundi og viðfangsefnum hans
um dagana. Auðvitað kemur sá mæti maður mér ekki meira við
en flestum öðrum og ég hafði engin kynni af honum önnur en
þau sem fram eru komin hér að ofan, og ætti ég því að vera með
síðustu mönnum til að grípa til skriffæra út af honum.
121