Saga - 2016, Side 12
á þeim forsendum að samkynhneigðir hefðu alltaf verið hluti af
mannlegu samfélagi sem hefði þaggað tilvist þeirra niður.
Saga homma og lesbía sór sig í ætt við kvennasögu þar sem lögð
var áhersla á að finna ummerki um konur, sem höfðu verið fjar-
lægðar af spjöldum sögunnar, og ljá þeim rödd. Á níunda og tíunda
áratugnum vék kvennasagan fyrir kynjasögu sem leggur áherslu á
að greina kynjuð völd og valdatengsl, áhrif þeirra á stöðu karla og
kvenna í fortíðinni og tengsl þeirra við menningarbundnar hug-
myndir um karlmennsku og kvenleika. Á svipaðan hátt er saga kyn-
verundar afbyggjandi að því leyti að hún afhjúpar og greinir valda-
formgerðir, skoðar óstöðugleika og innri mótsagnir hugmynda um
kynverund og hugtaka á borð við samkynhneigð og gagnkyn -
hneigð. einnig beinir hún sjónum að því hvernig þessi fyrirbæri
birtast á ólíkan hátt á milli tímabila og menningarheima.4
Hér verður saga kynverundar og samkynhneigðar á Íslandi
skoðuð í samhengi við almenna þjóðfélagsþróun til að útskýra hvers
vegna saga homma og lesbía, og í raun alls hinsegin fólks, er talsvert
styttri á Íslandi en í nágrannalöndum. Þar voru fyrstu réttindasam-
tökin stofnuð upp úr síðari heimsstyrjöld en auk þess var þar blóm-
leg barmenning í borgum og saman lögðu þessi rými grunninn að
frelsishreyfingu homma og lesbía sem breiddist út um allan hinn
vestræna heim á áttunda áratug 20. aldar. Á Íslandi voru lesbíur aft-
ur á móti tiltölulega nýr þjóðfélagshópur á níunda áratugnum og
útskýrir það að vissu leyti hvers vegna hlutunum var öðruvísi farið
hérlendis. Hér verður því fjallað um tilurð hinnar íslensku lesbíu á
áttunda og níunda áratugnum, mótun lesbískrar sjálfsveru og
aðkomu Íslensk-lesbíska að því, ásamt þeim áhrifum sem veruleiki
lesbía hafði á hið pólitíska starf sem fram fór innan félagsins. Saga
kynverundar gerir mér kleift að skoða hvers vegna lesbíur komu
mjög seint fram á Íslandi, sem jaðarhópur með ákveðna félagslega
sjálfsmynd, án þess að grípa til klisja um kynferðislega bælingu og
kúgun samkynhneigðra í aldaraðir.
íris ellenberger10
4 Sjá t.d. Judith Schuyf, „Hidden from History? Homosexuality and the Historical
Sciences“, Lesbian and Gay Studies. An Introductory, Interdisciplinary Approach.
Ritstj. Theo Sandfort, Judith Schuyf, Jan Willem Duyvendak og Jeffrey Weeks
(London: Sage Publications 2000), bls. 62–80; Martha Vicinus, „The History of
Lesbian History“, Feminist Studies 38:3 (haust 2012), bls. 566–596; Sue Morgan,
„Introduction. Writing Feminist History: Theoretical Debates and Critical
Practices“, Feminist History Reader. Ritstj. Sue Morgan (London og New york:
Routledge 2006), bls. 19–26.
Saga haust 2016.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 17.5.2019 10:12 Page 10