Saga - 2016, Qupperneq 56
Saga LV:2 (2016), bls. 54–89.
haukur ingvarsson
„Svo þið ætlið að vera ópólitískir,
skilst mér“
Almenna bókafélagið, Frjáls menning
og Congress for Cultural Freedom 1950−1960
Um miðjan sjötta áratug 20. aldar náði „kalda menningarstríðið“ (e. the
Cultural Cold War), sem stórveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin, háðu, eins
konar hámarki á Íslandi. Bæði ríkin áttu bakhjarla í íslenskum menningar-
og vináttufélögum sem unnu náið með sendiráðum þeirra og öðrum stofn -
un um að því að efla menningartengsl og samskipti Íslendinga við stór -
veldin. Um þessa sögu hefur talsvert verið fjallað og þá einkum verið horft
til félags skaparins Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna (MÍR),
Íslenzk-ameríska félagsins og Upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna.1 Félaginu
Frjálsri menningu hefur hins vegar lítill gaumur verið gefinn en það var
stofnað hér á landi árið 1957 og var hluti af alþjóðlegu samtökunum Con -
gress for Cultural Freedom (CCF). CCF voru andkommúnísk samtök sem
störfuðu í 35 löndum þegar mest lét. Í þessari grein er varpað ljósi á tengsl
Frjálsrar menningar við móðursamtökin ytra en um miðjan sjöunda áratug-
inn var því ljóstrað upp að bandaríska leyniþjónustan, CIA, fjármagnaði
CCF.
Alþjóðlegar rannsóknir á CCF hafa verið töluvert áberandi í umfjöll-
un fræðimanna um kalda stríðið undanfarna tvo áratugi, ekki síst
eftir að bók Frances Stonor Saunders, Who Paid the Piper? The CIA
and the Cultural Cold War, kom út árið 1998.2 Þar gerir Saunders
1 Sjá Valur Ingimundarson, Í eldlínu kalda stríðsins: Samskipti Íslands og Banda -
ríkjanna 1945−1960 (Reykjavík: Vaka-Helgafell 1996), bls. 260−268; Rósa Magnús -
dóttir, „Menningarstríð í uppsiglingu: Stofnun og upphafsár vináttufélaga
Banda ríkjanna og Sovétríkjanna á Íslandi“, Ný saga 12: 1 (2000), bls. 29−40; Tinna
Grétarsdóttir og Sigurjón Baldur Hafsteinsson, „kalda stríðið og kvikmynda -
sýningar stórveldanna 1950−1975“, Saga xLIV: 1 (2006), bls. 81−121.
2 Meðal þeirra sem fylgdu í kjölfar Frances Stonor Saunders er Giles Scott-Smith
en hann hefur dregið upp flóknari mynd af uppbyggingu CCF en hún gerir í
Who Paid the Piper? The CIA and the Cultural Cold War (London: Granta Books
1999). Í stað þess að nota CIA sem útgangspunkt hefur Scott-Smith m.a. beint
Saga haust 2016.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 17.5.2019 10:12 Page 54