Saga - 2016, Blaðsíða 110
rósa þorsteinsdóttir
Holur kassi og grófur strengur
Heimildir um alþýðuhljóðfæri á ýmsum tímum
fram til ársins 1900
Sú skoðun að Íslendingar hafi ekki átt nein hljóðfæri er lífseig og henni er
jafnvel haldið á lofti enn í dag. Við leit að heimildum um íslensku fiðluna
hafa samt komið í ljós ýmsar upplýsingar um önnur alþýðuhljóðfæri sem
spilað hefur verið á hér á síðustu öldum. Auk þess er ljóst að í heimildum
er auðveldara að finna upplýsingar um innflutt hljóðfæri sem notuð voru á
opinberum vettvangi, svo sem kirkjuorgel, og þau sem heldra fólk hafði í
stofum sínum en um þau sem lítið fer fyrir og mest voru notuð af alþýðu -
fólki. Við þessa athugun hefur einnig vaknað sú spurning hvort skoðanir á
hljóðfæraeign eða hljóðfæraleysi landsmanna byggist á viðhorfum til al -
þýðu hljóðfæra frekar en traustum heimildum. Þá hefur orðið ljós þörfin á
að líta til margra ólíkra fræðigreina og nýta mismunandi heimildir sem geta
gefið vísbendingar um hljóðfæri og hljóðfæraleik á Íslandi. Rýnt verður í
heimildir frá mismunandi tímum og þær settar í samhengi við strauma og
stefnur sem ríkjandi voru á hverju tímabili fyrir sig.1
kveikjan að þessari grein má segja að hafi verið áhugi enska tón -
listar mannsins Chris Foster á gömlu hljóðfærunum, sérstaklega
íslenskri fiðlu. Hann fór að lesa sér til um þau og benti greinarhöf-
undi á að allar nýlegar heimildir um íslensku fiðluna vitni mest í
sömu þrjár ritgerðirnar sem allar komu út öðruhvorumegin við
aldamótin 1900. Þetta eru kaflinn „Saungur og hljóðfærasláttur“ í
riti Ólafs Davíðssonar um íslenskar skemmtanir frá 1888–1892,2 kafli
Saga LV:2 (2016), bls. 108–141.
1 Höfundi er skylt að þakka ýmsum sem hafa lagt honum lið með því að benda á
heimildir þar sem hljóðfæra er getið. Þetta eru Auður Styrkársdóttir, Árni
Heimir Ingólfsson, Bjarki Sveinbjörnsson, Guðrún Ingólfsdóttir, Gunnar F. Guð -
mundsson, katelin Parsons, Már Jónsson, Njörður Sigurjónsson og Sverrir
Tómasson, en sérstakar þakkir fær Chris Foster sem vakti áhuga höfundar á efn-
inu. Auk þess fær Svanhildur Óskarsdóttir bestu þakkir fyrir yfirlestur og góðar
ábendingar.
2 Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur II. Útg. Jón Árnason og Ólafur
Davíðs son (kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenta félag 1888–1892), bls. 235–
273.
Saga haust 2016.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 17.5.2019 10:12 Page 108