Saga - 2016, Page 205
hringinn í kringum landið, má velta því fyrir sér hvort þessi nálgun kunni
að skekkja þá mynd sem annars fengist af styrjaldarárunum hérlendis, að
þrátt fyrir allt magnið geti myndin af samfélaginu verið að einhverju leyti
bjöguð. Myndefnið er einstaklega ríkulegt og nýtur sín vel á stórum síðun-
um. Myndaritstjórnin var einnig í höndum bókarhöfundar og greinilega
hefur mikill metnaður verið lagður í að finna myndir sem segja mikla sögu.
Bókin ber hinn hnitmiðaða titil Stríðsárin 1938–1945. Síðara ártalið þarfn -
ast ekki skýringa en á hinn bóginn er ekki alveg á hreinu af hverju bókin er
látin byrja árið 1938. Höfundur hefði að ósekju mátt ræða um val sitt á þess-
um byrjunarreit, t.d. í eftirmála sínum. Að vísu leynast mögulegar skýringar
á þessu vali í einhverjum þeirra texta sem hann valdi til birtingar, t.a.m.
broti úr greinaflokki í Fálkanum, frá 19. febrúar 1938, þar sem segir fullum
fetum að heimsstyrjöld sé hafin. Reyndar hefði mátt koma fram að sú grein
er eftir nafngreindan bandarískan blaðamann, og segir hann þar frá ferðum
sínum um stríðshrjáð svæði í Asíu þar sem hernaðarleg útþensla Japana
hafði byrjað af fullum þunga árið áður. Að byrja bókina árið 1937 eða jafnvel
árum eða áratugum fyrr hefði því einnig verið fær leið fyrir höfundinn.
Þannig hefði mátt kalla hana Stríðsárin 1914–1945 en þá værum við hins
vegar farin að tala um annars konar verk en hér er til umræðu.
Þegar um er að ræða jafn umfangsmikla útgáfu og þetta, er viss hætta á
yfirsjónum þótt fyllstu varúðar sé gætt. Á einum stað segir t.d. að banda -
rískt herlið hafi dvalið hér „nær til aldarloka“ (bls. 1025) en í raun dvaldi
það fram á haust 2006. Þá má nefna að á korti, sem sýna á stöðu stríðandi
fylkinga í Asíu, hefur gleymst að gæta að því að Sovétríkin töldust einnig til
Bandamanna í stríðinu (sjá bls. 942). Smávægilegar misfellur má auk þess
finna í beinum tilvitnunum úr blöðum og tímaritum, en vefurinn www.
timarit.is auðveldar hverjum og einum að leiðrétta slíkt.
Allítarleg heimildaskrá er aftast í bókinni. Þar er fylgt fremur frjálsri
aðferð við skráningu heimildanna. Svo dæmi sé tekið er stundum getið
útgefenda tímarita en slíkt er vissulega látið ógert skv. þekktustu skráning-
arkerfunum. Betur hefði þó mátt lesa skrána yfir en svo nærtækt dæmi sé
tekið er útgáfufélag tímaritsins Sögu ýmist nefnt Sögufélag, Sögufélagið eða
Sögufélag Íslands. Frágangur er annars almennt til fyrirmyndar eins og sést
best á því að ásláttarvillur stinga ekki í augu. Bókin er litprentuð á vandaðan
pappír og því fá hinar fjölmörgu myndir verksins að njóta sín. Litir eru
notaðir á síður með smekklegum hætti, einkum til að aðgreina samsafn af
smælkis-úrklippum frá lengri tilvitnunum.
Í stuttu máli sagt er þessi bók metnaðarfull tilraun höfundar til að bjóða
lesendum upp á auðlesna og fjölþætta mannlífslýsingu og viðburðagrein-
ingu á miklum umbrotatímum í sögu landsins.
Páll Björnsson
ritdómar 203
Saga haust 2016.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 17.5.2019 10:12 Page 203