Strandapósturinn - 01.06.2013, Page 33
31
Georg Jón Jónsson, Kjörseyri
Borðeyri
Siglingar á söguöld
Kauptúnið Borðeyri er byggt í landi samnefndrar jarðar sem í
daglegu tali er oftast kölluð Borðeyrarbær til aðgreiningar frá
þorpinu. Borðeyrarbær er gömul bújörð og standa bæjarhúsin
þremur kílómetrum utar með firðinum en kauptúnið. Hennar
er getið í Grettis sögu og sé sú saga nægjanlega traust heimild
hefur jörðin verið byggð á söguöld. Skömmu eftir víg Jóns
Arasonar biskups árið 1550 var gerð skrá um eignir Hólastóls
í föstu og lausu og þar kemur fram að jörðin var þá í eigu
biskupsins. Fljótlega eftir það varð jörðin konungseign en komst
í eigu ríkisins í byrjun síðustu aldar. Í dag er jörðin í einkaeign.
Jörðin hefur þótt eftirsóknarverð, þar er góð hafnaraðstaða og
til Borðeyrar var siglt á fyrstu öldum byggðar í landinu.
Byggð á Borðeyri reis fyrst á svonefndum Borðeyrartanga.
Tanginn er lítil sand- eða malareyri sem skagar út í vestanverðan
Hrútafjörð um það bil fjóra til fimm kílómetra frá fjarðarbotni.
Sunnan við eyrina er lítil vík; þar er aðdýpi, allgott skipalægi og
ágætt var fyrir hafátt og brimi. Upp af eyrinni er brattur melbakki
og norður af honum langur melur, nefndur Borðeyrarmelur,
brattur að austanverðu. Þar fyrir neðan er slétt eyri, alllöng en
frekar mjó. Þar er nú tún. Eyri þessi hefur stundum verið kölluð
Austureyri eða Grundin. Um Borðeyrarmel segir Þorvaldur Thor-
oddsen: „Malarkambar og fornar sævarmenjar sjást alls staðar
fram með Hrútafirði beggja megin, og eru malarkambarnir sums
staðar tvöfaldir, eins og t.d. fyrir utan Borðeyri.“1
1 Þorvaldur Thoroddsen, Ferðabók, 4. b., 2. útg., Reykjavík 1960, bls. 75.