Strandapósturinn - 01.06.2013, Side 62
60
sennilega haft einhver gistirúm. Þarna var veitinga- og vínsala
og drykkjuskapur var talinn hafa aukist við tilkomu Vertshússins.
Jón Jasonarson var vel kynntur hér í firðinum og talinn óáleit-
inn um annarra hag. Sagður hafa góða stjórn á gestum sínum þó
drukknir væru svo sjaldan kom til ryskinga eða óláta. Jón var
hestamaður og mikill reiðmaður og átti gæðinga þegar hann var
á Borðeyri sem taldir voru hesta bestir í nálægum sveitum. Þegar
Jón lést árið 1902 rak ekkja hans, Þóra Guðjónsdóttir, veitinga-
söluna áfram allt til þess er hún flutti til Reykjavíkur. Hún lét rífa
gamla veitingahúsið og reisa annað stærra, tvílyft hús með svölum
móti suðri. Það þótti afar glæsileg bygging og staðarprýði.
Það orð lék á starfsemi Vertshússins að þegar menn færu að
þreyta fast drykkju og sitja lengi við og væru orðnir ölvaðir léti
Þóra vert, eins og hún var kölluð, þynna vínið með vatni. Vínið
var sótt í könnu í kjallara undir litlu timburhúsi er stóð á lækjar-
bakkanum. Í kjallaranum stóðu víntunnurnar á stokkum og stutt
var í lækinn til að bæta í vatninu. Maður að nafni Björn Hinriks-
son var þarna lengi starfsmaður.
Haustkvöld eitt, meira en hálfri öld eftir að Vertshúsið var
horfið frá Borðeyri, var Eyjólfur Jónasson, bóndi í Sólheimum í
Dölum, staddur þar sem oftar. Eftir að hafa lokið erindum sínum
gekk hann í rökkrinu eins og leið lá upp með læknum en hann
átti hest sinn geymdan á túnbletti í Lækjardalnum hjá vini sínum,
Einari Elíesersyni. Þegar hann var kominn móts við þann stað er
Vertshúsið stóð varð honum hugsað til liðins tíma er ferðamenn
fengu sér hressingu hjá Þóru vert áður en haldið var úr kaupstað.
Honum sagðist svo frá:
Mér fannst sem ég sæi hann Björn minn Hinriks skjótast með könn-
una inn í kjallarann til að renna í hana víni og bregða henni svo
undir lækjarbununa til að fylla hana betur, áður en af henni væri
skenkt í Vertshúsi.
En þetta var aðeins minning, Vertshúsið var löngu horfið með
gestum sínum og glaum og starfsliði öllu. Það eina sem eftir var
óbreytt var lækurinn sem enn þá hjalaði við bakkann og skopp-
aði glettinn til sjávar eins og hann hefur gert öld fram af öld. Þá
kvað Eyjólfur þessa vísu til lækjarins: