Strandapósturinn - 01.06.2013, Side 84
82
sendu foreldrar hennar með henni trausta stúlku er Jórunn hét,
Gunnlaugsdóttir, ættuð úr Geiradal í Barðastrandarsýslu. Jórunn
var einstakt dyggðahjú og okkur börnunum sem önnur móðir.
Ég man að hún fór alltaf fyrst á fætur á morgnana, að minnsta
kosti á vetrum, hitaði kaffið og færði öllum í rúmið um sjöleytið
og ég held að hún hafi oftast verið síðust í rúmið á kvöldin.
Jórunn var hjá okkur til æviloka, lést eftir langa og þjáningafulla
legu á áttræðisaldri árið 1910. Tvær mæðgur, Sigríður Jónsdóttir
frá Litlu-Ávík og dóttir hennar, Steinunn Hjálmarsdóttir, voru
vinnukonur á heimilinu frá því fyrir mitt minni og fram á annan
tug aldarinnar eða uns Steinunn giftist frænda okkar, Guðmundi
Guðmundssyni frá Bæ í Trékyllisvík, og [þau] fóru að búa þar.
Á þessum árum, nokkru fyrir fyrra stríð, kom ung stúlka á
heimilið í vinnumennsku, Elín Elísabet Jensdóttir frá Víganesi,
og var þar eitthvað fram á þriðja tug aldarinnar. Með henni
eignaðist pabbi son er Böðvar heitir, f. 4. júní 1921. Hann ólst
upp í Ófeigsfirði til tvítugsaldurs en missti þá heilsuna og hefur
dvalist hér sunnanlands, lengst af í Reykjavík og Hveragerði, og
langtímum saman undir læknishendi. Kaupakonur voru minnst
ein og stundum tvær um annatímana. Vinnumenn voru oftast
þrír auk okkar bræðranna eftir því sem við komumst í gagnið.
Jón Arngrímsson hafði verið hjá pabba frá því fyrir aldamót og
var alla tíð síðan á heimilinu til æviloka 1951 er hann lést í hárri
elli. Jón var alveg einstakur dyggða- og dugnaðarmaður, afburða
verkmaður bæði að vandvirkni og afköstum, sérlegt snyrtimenni
í allri umgengni úti sem inni. Hann var líka alltaf jafn ljúfur og
góður leiðbeinandi okkur bræðrunum í öllum vinnubrögðum
og háttum. Á æskuárum mínum og fram um miðjan annan tug
aldarinnar gat pabbi sjaldan verið heima vegna ýmissa anna
utan heimilisins. Hann var þá framkvæmdastjóri Verslunarfélags
Norðurfjarðar og þurfti því að gegna störfum sínum þar, sér-
staklega á sumrum, og gat því sjaldan skroppið heim nema
þá um helgar. Ýmis önnur störf hafði hann og með höndum
svo sem fyrir hreppsfélagið auk hákarlaróðranna á Ófeigi, sem
hann stundaði jafnan á útmánuðum, og viðarflutninganna á
vorin í önnur héruð, t.d. [til] Skagastrandar, Blönduóss og
víðar. Ókunnugir spurðu hann stundum að því hvernig hann
gæti verið svona fjarvistum frá heimilinu og svarið var jafnan að