Strandapósturinn - 01.06.2013, Blaðsíða 90
88
Átti kóngsi að hafa yfir, hátt og skýrt, langloku eina sem ég man
ekki lengur nema hrafl úr meðan hinir krakkarnir földu sig hér
og þar í bænum. Það sem ég man úr þessari þvælu var eitthvað á
þessa leið: „Ég fyrirbýð ykkur öllum, konum bæði og körlum, út-
lendum sem innlendum nema kónginum sjálfum. – Flýtið ykkur
að fela ykkur, annars skal ég stela ykkur.“ Átti þetta víst að þýða
það að hann fyrirbyði öllum öðrum en sjálfum sér að fara í stól-
inn. Hófst svo leitin að krökkunum en þá var að gæta þess að
enginn þeirra kæmist í stólinn óséður af kóngsa á meðan hann
var að leita hinna. Þeir sem fundust voru úr leik í það sinn en
kæmist einhver ófundinn í stólinn varð sá kóngur í næsta leik
o.s.frv.
Skollaleikur hét einn innileikur okkar. Var þá klútur bundinn
fyrir augun á þeim sem átti að vera skolli og hann látinn standa á
miðju gólfi, venjulegast í bæjardyrahúsinu því að þar var rýmst
gólfrúm, en hin voru þá úti í hornum og með fram veggjum í her-
berginu hér og þar nema eitt er stóð hjá skolla og klappaði á
herðar honum og kvað: „Skolli, skolli, skítur í hverju horni, aldrei
skaltu ná mér fyrr en á miðjum morgni. Skolli, skolli!“ Hófst svo
eltingaleikurinn og átti skolli að ná öllum og nafngreina hvern og
einn eftir áþreifingum einum. Varð hver úr leik er hann nefndi
réttu nafni.
„Blinde Buk“ hét einn leikurinn. Þá héldumst við í hendur og
gengum syngjandi í hring umhverfis þann blinda en klútur var
bundinn fyrir augu honum. Átti hann svo að pota fingri í eitthvert
okkar í hringnum en sá (sú) er fyrir varð átti þá að gefa frá sér
hljóð sem blindinginn átti að þekkja hann (hana) á. Tækist það
varð viðkomandi að vera „Blinde Buk“ næst, annars varð sá sami
að vera áfram í sínu hlutverki uns hann þekkti einhvern á hljóð-
inu.
Skógardans nefndum við einn leikinn. Var helst farið í hann
þegar eitthvað af aðkomubörnum hafði bæst í hópinn svo að þátt-
takendur væru nógu margir. Var þá gengið í hring umhverfis
einn herrann sem hélt á hvítum klúti í hægri hendi sér. Voru þá
sungnar þrjár eftirfarandi danskar vísur er ég læt fljóta hér með.