Strandapósturinn - 01.06.2013, Qupperneq 99
97
hákarlaróðrunum en þau voru stór pottur með allstóru gati á
botninum. Var hann látinn standa á járnplötu, vel skorðaður, og
eldurinn hafður í honum sem hitað var yfir í katli eða potti.
Við lögðum af stað heimleiðis um lágnætti. Var þá logn og
rerum við út með landi langleiðina út undir Kálfshamarsvík.
Nokkra haföldu lagði inn Flóann á móti okkur en þetta er alllöng
leið og var kallað að róa undir vind því búist var við að vind mundi
leggja inn Flóann síðdegis sem rétt reyndist svo við gátum siglt
þægilegan beitivind vestur yfir síðari hluta dagsins og náðum
heim næstu nótt.
Eftir þetta fór ég margar ferðir með pabba og Pétri í viðar-
flutningum á Ófeigi, þar á meðal eina inn með Vatnsnesi austan-
verðu. Losuðum við þá annan helming farmsins á Valdalæk en
hinn við Sigríðarstaðaós. Alls staðar þar sem við komum í þessum
ferðum okkar fengum við ágætar viðtökur og á báðum þessum
bæjum vorum við boðnir til að þiggja góðgerðir. Ekki man ég þó
nú hvað bóndinn á Valdalæk hét en mig minnir að sá er fékk
viðinn í Sigríðarstaðaós hafi verið Eggert Levy hreppstjóri á
Ósum.
Líklega hefur það verið sumarið 1911 sem ég fékk að fara á
sundnámskeið í Reykjanesi við Djúp. Pétur hafði lært þar að
synda 2–3 árum áður og hafði það vakið hjá mér mikinn áhuga á
sundi enda mikið buslað í sjónum við sandinn fram undan bæn-
um. Ég fór með skipi, líklega Skálholti, frá Norðurfirði til Ísa-
fjarðar, beið þar nokkra daga eftir því að námskeið hæfist. Var
síðan haldið, í hópi Ísafjarðardrengjanna og kennarans, inn í
Reykjanes með skipi Ásgeirsverslunar, Litla-Ásgeiri. Meðan ég
beið á Ísafirði var ég í fæði og húsnæði hjá þeim góðu hjónum
Katli og Guðrúnu í Smiðjugötu 11, tengdaforeldrum Péturs bróð-
ur míns. Við urðum að búa við skrínukost þarna í Reykjanesinu
því að engin var matráðskonan. Hafði ég því haft með mér að
heiman koffort með ýmsum heimamat í, þeim er best geymdist,
svo sem hangiket, flatkökur, smjör og fleira. Átti ég svo að bæta
við birgðirnar á Ísafirði því er mér þætti á vanta en það urðu þá
mest gómsætar bakarískökur sem ég taldi þarflegastar til viðbótar.
Hafragrautur var sameiginlegur og elduðu hann til skiptist elstu
og færustu matgerðarsnillingarnir. Bóndinn í Reykjarfirði, sem
mig minnir að héti Ólafur, seldi okkur mjólk er hann færði okkur