Strandapósturinn - 01.06.2013, Qupperneq 104
102
sem ég hirði ekki að greina. Ef gott veður var á jóladaginn var oft
leikið sér úti á skíðum væri gott skíðafæri. Var þá stundum farið
upp í Sýrárdal en þar mátti fá góðar og langar skíðabrekkur. Á
annan dag jóla var flest með svipuðum hætti og þann fyrri nema
þá var oft spilað mikið á spil.
Gamlárskvöld var í bernsku minni eitt mesta tilhlökkunarkvöld
ársins því að þá var jafnan mikil brenna, „árið brennt út“ í miklu
báli ef veður leyfði, annars á þrettándadagskvöld, afmælisdegi
pabba. Á milli jóla og nýárs var hreykt upp miklum rekaviðar-
hrauk á holti rétt norðan túngarðsins. Voru gjarnan hafðar með í
hrauknum ein eða tvær aflóga tunnur undan grút eða tjöru til að
gera bálið líflegra. Trérengla var látin standa upp úr kestinum og
við efri enda hennar var fest samanvöðluðum strigapoka, vel
bleyttum í tjöru. Kvöldið byrjaði á sama hátt og aðfangadagskvöld,
með guðsþjónustu og súkkulaði- og kaffidrykkju. Síðan fórum við
yngra fólkið að hlaupa með blysin okkar í kringum bæinn og út
um túnið en blysin höfðum við útbúið fyrr um daginn. Þau voru
þannig að strigadruslu, vel tjöruborinni, var vafið um enda tré-
spíru eða hrífuskafts. Gat logað lengi í þessu væri vel frá tuskunni
gengið. Kirjuðum við þá alla álfasöngva sem við kunnum, hver
með sínu nefi, og þóttumst vera álfar í búflutningum. Á ellefta
tímanum um kvöldið var kveikt í viðarkestinum á holtinu. Safnað-
ist þá allt rólfært fólk þangað, söng álfa- og ættjarðarsöngva og að
síðustu „Nú árið er liðið í aldanna skaut“. Alltaf þótti sjálfsagt að
skjóta nokkrum púðurskotum í lokin.
Nýársdagur var haldinn hátíðlegur á svipaðan hátt og jóladag-
ur, mikið spilað ef ekki var veður til útileikja eða skíðaferða. Sama
var að segja um páska, hvítasunnu og sumardaginn fyrsta sem í
mínum augum var ætíð í tölu stórhátíða. Aðrir aukahelgidagar
voru mér sem venjulegir sunnudagar.
Í sambandi við jólahaldið skal þess enn fremur getið að jafnan
var séð um að nýtt ket gæti verið á borðum um hátíðirnar, jól og
nýár. Voru nokkrar kindur, venjulega lömb, látnar ganga í Hrútey,
sem er aðalvarpland jarðarinnar, einn til tvo mánuði fyrir jólin.
Voru þær þá orðnar vel feitar þegar þeim var slátrað daginn fyrir
Þorláksmessu því í eyjunni er kjarngóð eyjataða og skarfakál en í
þá daga var feitt ket ekki bannfært.