Strandapósturinn - 01.06.2013, Page 116
114
girntust að ekki veitti af að bæta nokkrum aurum þar við ef kostur
væri. Við hófum því heyskapinn af miklum áhuga og í nokkra
poka reyttum við yfir vikuna þó ekki væru þeir nú margir og ekki
stóð á greiðslunni er upp var gert. En eitthvað var talað um að ég
hefði verið nokkuð eftirrekstrarsamur við systur mína. Það uxu
nefnilega krækiber þarna í holtunum kringum mýrina. En þetta
held ég að hafi verið orðum aukið.
Þegar hér var sögu komið var víst fyrir löngu hætt að dengja ljái
í smiðju, að minnsta kosti sá ég aldrei dengdan ljá heima. Það
voru skosku ljáirnir hans Torfa í Ólafsdal sem notaðir voru. Þetta
voru tíu og ellefu gata ljáir, eftir aðstæðum, sem almennt voru
notaðir en fyrsti ljárinn minn var ekki nema átta gata og þótti
nóg.
Í byrjun túnsláttar næsta sumar var mér sett fyrir skák í túninu,
svona hálf önnur dagslátta, sem ég átti að slá yfir vikuna. Ekki
tókst það nú og var ég heldur hnugginn yfir afköstunum á laugar-
dagskvöldinu þegar ég varð að hætta en þá hughreysti amma mig,
hvíslaði að mér að það væru sjö dagar í vikunni svo allt væri í lagi
ef ég gæti klárað þennan blett, sem eftir væri, á mánudaginn.
Pabbi kom heim frá Norðurfirði um miðnætti á laugardagskvöldi,
gekk um slægjuna mína og fann ekki að neinu, lét mig jafnvel á
sér skilja að hann væri sæmilega ánægður með verkið. Tókst mér
svo að klára skákina á mánudaginn. Ekki fékk ég sérstakt kaup
fyrir þessa vinnu eins og sumarið áður enda var ég nú búinn að
eignast kind sem pabbi gaf mér haustið áður og átti nú að njóta
afurða hennar framvegis. Var svo um talað að lömb, er hún kynni
að eignast, skyldu leggjast inn í reikning minn á Norðurfirði en
ullina mætti ég kaupa það fyrir sem ég óskaði mér í það og það
sinnið. Eftir þetta gekk ég að heyvinnu með hinu fólkinu þegar
ég þurfti ekki að vera í öðrum störfum og veður var ekki því verra.
Landbúnaður var ekki stór í sniðum hjá okkur fremur en á
öðrum jörðum sveitarinnar. Á árunum 1910–1912 var túnið talið
vera 11–12 dagsláttur, að mestu nokkurn veginn slétt yfirferðar
með orfi og ljá. Grasspretta í því var mjög misjöfn eftir árferði
enda sendið, einkum neðri hluti þess. Var talið að það gæfi yfir-
leitt af sér 2–4 kýrfóður eftir sprettu. Varð því tíðast að gefa kún-
um meira og minna af engjaheyi með töðunni því kýrnar voru
oftast fjórar auk nauts og kvígu. Þegar töðufengur var rýr eða