Strandapósturinn - 01.06.2013, Síða 122
120
Það kom í minn hlut nokkra vetur áður en ég fór að heiman að
ganga til fjárins á Ströndinni. Ekki ætla ég að lýsa því hve hart ég
þurfti að leggja að mér til að fara inn í beitarhúsið og alla leið inn
í heytóftina til að ná í heygjöfina. Varð ég þó aldrei var neinna
dulvera þarna en myrkfælnin ætlaði alveg að drepa mig. Einkum
varð mér þetta erfitt fyrsta veturinn sem ég gegndi þessu embætti.
Þá var það byssan sem var mitt aðaltraust enda var hún ávallt með
í ferðinni því hvort tveggja var að hún hjálpaði gegn myrkfæln-
inni og svo lá ég gjarnan úti fyrir tófum í þessum ferðum mínum
og gat jafnvel rekist á þær á leiðunum ef heppni var með. Aldrei
varð ég þó svo langt leiddur af myrkfælninni að ég setti silfur-
hnapp í byssuna en samkvæmt þjóðtrúnni átti slíkur hnappur að
vera það eina er gæti grandað draugi.
Upp úr 1911 man ég eftir fimm bátum í Ófeigsfirði auk Ófeigs.
Einum sexæringi, þremur þriggjamannaförum og einu tveggja-
manna sem kallað var Horn. Það þurfti mikið að nota báta þarna
þar eð allir til og frá flutningar urðu að fara fram á sjó. Við vorum
því ekki gömul systkinin er við höfðum lært áralagið því að oft
þurfti að skjögta eitthvað á sjónum bæði við að flytja heim reka-
viðinn og á vorin við hirðingu varpsins, selveiðarnar og fleira en
við vorum látin hjálpa til við alla vinnu strax og við höfðum þroska
til þess. Heppinn, en svo hét sexæringurinn, var mest notaður til
viðarflutninga heim af rekanum, einkum er lengst þurfti að sækja
viðinn en það gat verið allt að 5 sjómílum ef viðurinn var sóttur
norður í Eyvindarfjörð. Einnig var hann notaður til ýmissa ann-
arra meiri háttar flutninga og einu sinni man ég að farið var á
honum í hákarlalegu. Var það skömmu fyrir jól, líklega um 1908.
Var Pétur, bróðir minn, þá formaður. Mun það hafa verið fyrsta
hákarlaformennska hans en síðar var hann margar vertíðir sér-
lega heppinn hákarlaformaður á vélskútum. Honum brást heldur
ekki veiðin í þetta skipti því hann kom að landi með bátinn full-
hlaðinn af lifur.
Mjóni hét einn báturinn. Hann var elsta fleytan á heimilinu,
líklega smíðaður 1870 og, að ég held, fyrsti báturinn sem pabbi
eignaðist. Það mun hafa verið á þessum báti sem pabbi lagði í
það, um 17 ára gamall, að sækja matvöru á útmánuðum til Skaga-
strandar fyrir heimili fóstru sinnar og nágrannanna en hann var
aðalfyrirvinna hennar eftir að Guðmundur, fóstri hans, lést 1868.