Strandapósturinn - 01.06.2013, Page 128
126
draum æðri en þann að geta eignast slíkt verkfæri. Nú voru efni
mín orðin þau að ég taldi mig vel geta greitt gripinn af inneign
minni í versluninni á Norðurfirði en verð byssunnar var 40 krón-
ur. Skorti þá aðeins leyfi föður míns til kaupanna en nú reyndist
pabbi tregur til frekari veitingar byssuleyfa og var víst ekki undar-
legt sé litið til aldurs míns sem þá var. Loks kom þó þar að hann
hét mér byssunni í fermingargjöf er þar að kæmi. Fannst mér nú
óbærilegt að bíða þess dags afturhlaðningslaus, eða um tvö ár, þar
eð samkvæmt kirkjubókum skyldi ég ekki „ganga fyrir gafl“ fyrr en
vorið 1913. Varð mér það að ráði eftir miklar vangaveltur að ná
tali af prestinum okkar og biðja hann að ferma mig ári fyrr en til
stóð enda mundi mig ekki vanta nema svona hálft ár í réttan
fermingaraldur ef ég yrði fermdur á hvítasunnu 1912. Lét ég
hann jafnvel á mér skilja að ég hygði á suðurferð til framhalds-
náms næsta haust ef ég næði að fermast áður. Prestur kvað þetta
ekki hægt nema með biskupsleyfi. Bað ég hann þá blessaðan að
sækja fyrir mig um þetta dýrmæta leyfi. Þannig tókst mér að slá
tvær flugur í einu höggi, losna við frekara vafstur með kver og
biblíusögur og verða eigandi að afturhlaðningi ári fyrr en ætlað
var.
Af því sem hér hefur verið skráð um byssuævintýri mín má sjá
að við krakkarnir höfðum allmikið frjálsræði í uppvexti okkar,
líklega meira en almennt hefur verið á þeirri tíð. Sjálfur var pabbi
mjög gætinn maður og gerði sér jafnan sem ljósasta grein fyrir
hættum, hvar þær gætu leynst og við hvaða aðstæður. Hann skýrði
líka rækilega fyrir okkur hvernig við skyldum meðhöndla þau
tæki eða áhöld sem hætta gat stafað af í notkun og jafnframt
treysti hann okkur merkilega vel til að fara eftir þeim ráðum er
hann gaf okkur. Líkamlegar refsingar þurftum við aldrei að óttast
enda held ég að mér sé óhætt að fullyrða að hinn gamalkunni og
þjóðfrægi „klóalangur“ hafi verið alveg óþekkt uppeldistæki á
þessu heimili síðan löngu fyrir mitt minni og mína daga.
Á árunum fyrir 1914 voru engar hömlur á innflutningi til lands-
ins, þörfum né óþörfum, af hálfu hins opinbera. Hann takmark-
aðist aðeins af óskum manna og greiðslugetu og opinberra tolla
gætti lítt fyrir almannasjónum. Þá tíðkaðist töluvert að einstak-
lingar, jafnvel unglingar, pöntuðu sér frá útlöndum eitt og annað
eftir verðlistum og fengu vöruna senda sér gegn póstkröfu. Þá var