Strandapósturinn - 01.06.2013, Page 134
132
á land. Margir í sveitinni munu hafa hlotið nokkra matbjörg af
þessu hvaladrápi. Ég held að allir hafi fengið ókeypis þvesti eftir
óskum en vera má að eitthvað hafi verið tekið fyrir nokkuð af
spikinu sem af hendi var látið, ég veit það ekki. Annars var mestur
hluti þess bræddur heima til útflutnings.
Aðferðin við veiðarnar var sú að tveir menn reyndu að stugga
við dýrunum frá gagnstæðum bakka vakarinnar þannig að þau
syntu sem næst jakanum er skutlarinn stóð á. Reynt var að skutla
dýrið rétt aftan við hausinn því stæði skutullinn aftarlega í því gat
orðið mjög erfitt að ná því að jakanum svo að hægt væri að krækja
ífærum í það til að unnt væri að draga það upp á jakann. Er dýrið
hafði verið dregið vel upp á ísinn var hákarladrepnum lagt í síðu
þess og reynt að hitta hjartað. Varð þá að gæta sín vel því tækist
ekki að hitta hjartað brást skepnan hart við og snerist kannski
nokkra hringi með miklum sporðslætti á jakanum uns af því dró
svo hægt væri að koma öðru lagi á það.
Veiðiaðferð þessi er þarna var viðhöfð mun varla teljast mann-
úðleg en því má til svara að ekki virtist kostur annarrar betri að-
ferðar til að ná dýrunum og í öðru lagi var vandséð að nauð þeirra
hefði orðið mikið minni þótt þau væru látin kveljast til dauða í
vökinni sem stöðugt þrengdist af þrýstingi íssins utan frá.
Fyrir mörgum árum skrifaði ég smágrein í Sjómannablaðið
Víking undir fyrirsögninni „Hákarlaróður á Ströndum“. Grein
þessi hefur verið endurprentuð í bókinni Bára blá. Í greininni
reyndi ég að lýsa undirbúningi að hákarlaróðri og sagði þar frá
fyrsta róðri mínum á Ófeigi veturinn 1915 en það var síðasti vet-
urinn sem því skipi var róið fyrir hákarl og jafnframt síðasti vetur
föður míns sem hákarlaformanns, þá 62 ára gamall. Ég læt því
hér hjá líða að segja frá hákarlaróðrum en ég var á þeim veiðum
á vélskipum með Pétri, bróður mínum, veturna 1916–19.
Árið 1915 var hátt verð á lýsinu, fengust þá 250–300 kr. fyrir
lýsisfatið (180 lítra) áður en Englendingar fóru að skammta okk-
ur verðið (skít úr hnefa) fyrir afurðir okkar en þeir lækkuðu
verðið á lýsinu með nauðungarsamningi um meira en helming.
Þrátt fyrir lítinn afla 1915, vegna gæftaleysis, fékk ég þó í minn
hlut eftir þá vertíð 500 krónur sem þóttu miklir peningar þá.
Mér er í barnsminni hve fögnuðurinn heima var mikill þegar
sást til Ófeigs koma að landi úr hákarlaróðri og þó sérstaklega ef