Strandapósturinn - 01.06.2013, Blaðsíða 137
135
smíðaði pabbi flest járnáhöld heimilisins nema katla, potta og
pönnur. Hann smíðaði ljábakka, skeifur, skutla og allt til útgerðar
Ófeigs og bátanna, t.d. skálmir, hákarlasóknir og ífærur svo eitt-
hvað sé nefnt. Sem sagt allt nema sverustu legufæri er skipinu var
lagt við í höfnum eða við land. Við smíði Ófeigs smíðaði hann alla
nagla og rær er til smíðarinnar fóru ásamt öðru úr járni svo sem
stýriskróka, stýrislykkjur og fleira, þá aðeins 22 ára gamall. Fyrstu
segl Ófeigs sneið hann úr heimaunnu vaðmáli en konur saum-
uðu dúkana saman eftir hans fyrirsögn. Hann var mjög hagur,
bæði á járn og tré, af ófaglærðum manni að vera og sérlega vand-
virkur. Allflest tréílát heimilisins, þau er ekki voru eldri en frá
hans tíð, voru smíðuð af honum, þar á meðal stóri lifrarsárinn er
áður gat svo og smærri kirnur og koppar.
Ásgeir afi fékkst einnig við smíðar bæði úr tré og járni en aðal-
lega voru það heyvinnuverkfæri og skeifur sem hann smíðaði. Ég
held þó að smíðisgripir hans hafi ekki þótt eins snoturlega unnir
og þeir sem pabbi smíðaði þótt þeir væru vel nothæfir til síns
brúks.
Þegar ég man fyrst eftir mér voru öll næturgögn heimasmíð-
aðar trékollur að undanteknum 3–4 rósóttum leirpottum til notk-
unar fyrir heldri gesti og húsbændur. Höfðu eldri bræður mínir
gefið hverri kollu sitt sérheiti og hnoðað saman langloku með
nöfnum þeirra allra. Ég er löngu búinn að gleyma þessum nöfn-
um nema fjórum en þau eru: Háaþóra, Lágaþóra, Laggamóra og
Litla-Kurt. Ég nefni þetta hér til að sýna að þá, ekki síður en nú,
gerði unga kynslóðin sér ýmislegt til gamans.
1914. Bæjarbruni og fleira
Sem fyrr var getið brann bærinn okkar til kaldra kola á hvíta-
sunnudag 1914. Þá var vestan rok og fátt fólk heima, flest við
kirkju í Árnesi þar eð verið var að ferma yngstu systur mína,
Sigríði Þórunni. Við sem heima vorum voru: Ásgeir afi, 79 ára og
orðinn alblindur, Guðrún amma, 74 ára, Ásgeir bróðir og ég. Á
heimili Péturs og Ingibjargar voru heima vinnustúlkan, Þorbjörg
Samúelsdóttir, og systir hennar, Gunnvör Rósa, þá um níu ára
aldur, enn fremur fyrstu börn þeirra hjóna, tvíburarnir Ketill og
Guðmundur, tveggja ára gamlir. Fleira fólk var ekki heima við en
Jón Arngrímsson var að fjárgæslu norður á Strönd.