Bændablaðið - 10.03.2022, Page 41

Bændablaðið - 10.03.2022, Page 41
Bændablaðið | Fimmtudagur 10. mars 2022 41 Árás Rússa á Úkraínu er mikið áhyggjuefni fyrir alþjóðlegan landbúnað og matvælaiðnað vegna afgerandi áhrifa á olíu-, áburðar-, hveiti- og maísmarkaði – en tölur segja m.a. að Úkraína flytji út um 12% alls hveitis í heiminum, eða sjöttu stærstu á heimsvísu. Sérfræðingar hollenska bankans Rabobank telja að þó um tveir þriðju hlutar árlegrar hveiti- og bygguppskeru Úkraínu og þriðjungur maísuppskerunnar séu þegar komnir í sölu, megi án efa búast við að minnsta kosti 30% verðhækkun á hveiti og 20% á maís. Þessar tölur má m.a. finna á vefsíðu írska miðilsins www.irishexamine.com. Ljóst er að deilur landanna tveggja munu hafa veruleg áhrif á alþjóðahagkerfið, og meðal annars er þar hækkun á fóðurverði mörgum áhyggjuefni – en Úkraína flytur einnig út mikið af korni ætluðu til dýraeldis. Áætlað er að verðlagning á sumum korntegundum tvöfaldist og talað hefur verið um hættu á allt að 40% hækkun áburðarverðs, sem nú þegar er hátt. Til viðbótar hefur verð á jarðgasi í Evrópu og framboð verið lágt undanfarið, og því dýrt, en jarðgas er helsta hráefnið við framleiðslu tilbúins áburðar vegna köfnunarefnisins sem er eitt megin næringarefni gróðurs. Teymi Rabobank segir engar hömlur á hversu há verðlagning á jarðgasi gæti orðið, það eina jákvæða í stöðunni væri að senn lyki vetrarmánuðunum, þegar eftirspurn væri hvað mest eftir jarðgasi – en svo hefði markaðurinn nokkra mánuði til að jafna sig. Þó, eins og staðan er núna vegna innrásarinnar í Úkraínu, gæti verð á tilbúnum áburði orðið of kostnaðarsamt fyrir marga bændur, en samkvæmt fréttastofu Reuters kemur fram að nú þegar hafi verð á rússnesku jarðgasi margfaldast. Gasleiðslur í eigu ríkisrekna fyrirtækisins Gazprom í Rússlandi liggja gegnum Úkraínu og Pólland en fyrirtækið hefur einkarétt á gasútflutningi til Evrópu og samkvæmt úkraínskum yfirvöldum hefur, auk verðhækkana á gasinu, dregið allverulega úr þeim útflutningi – mögulega vegna pólitískra aðstæðna. Stjórnvöld í Rússlandi þvertaka fyrir þá hugmynd en þó er ekki hægt að horfa framhjá því að þeir hafa töglin og hagldirnar í þessum málum, auk þess sem himinhátt áburðarverð gæti hækkað enn frekar ef lykilútflutningur annars áburðarhráefnis frá Rússlandi eða Hvíta-Rússlandi myndi raskast. Þetta væri heldur ekki í fyrsta skipti sem gas væri notað sem pólitískt stjórntæki, en í byrjun nóvember á síðasta ári hótaði forseti Hvíta-Rússlands, Lukashenko, að skrúfa fyrir gas frá Rússlandi ef Evrópusambandið myndi herða refsiaðgerðir vegna aðgerða þegna hans er fluttu þúsundir hælisleitenda að landamærum Póllands. Ekkert varð úr þeirri hótun enda tilkynnti talsmaður rússneskra stjórnvalda að forseti Hvíta-Rússlands hefði ekki haft Rússa með í málum þegar þær hótanir voru hafðar í flimtingum, auk þess sem Rússar stæðu fast á sínum samningum hvað varða sölu á gasi til evrópskra neytenda. Í kjölfar átakanna sem nú eiga sér stað, milli Úkraínu og Rússa, hófu ESB, Bandaríkin, Bretland auk bandamanna sinna, refsiaðgerðir gegn Rússlandi, til að bregðast við aðgerðum þeirra. Það væru aðgerðir og ráðstafanir ætlaðar til að skaða efnahag Rússlands, eða fjárhag einstakra Rússa, setja á ferðabann og viðskiptabann. Þó er hætta á að með víðtækum refsiaðgerðum sem þessum gæti verð á hveiti og maís hækkað enn frekar – en talið er að um mitt ár 2023 gæti hveitimarkaðurinn náð jafnvægi að nýju. Samkvæmt sérfræðingum Rabobank er Kína ósammála refsiaðgerðum gegn Rússlandi en sjái frekar fyrir sér að vinna með þeim til þess að þjóð þeirra verði ekki fyrir áhrifum. Hins vegar er þá einnig sá möguleiki í stöðunni að vestræn ríki beiti, vegna þessa, Kína aukarefsiaðgerðum sem gætu haft það truflandi áhrif á viðskiptaflæði heimsins að markaðir væru óundir- búnir fyrir slíkar niðurstöður. /SP Úkraína í dag: Uppskera og útflutningur

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.