Bændablaðið - 22.09.2022, Blaðsíða 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 22.september 2022
Haustið er nú komið í allri sinni dýrð.
Bændur eru margir hverjir búnir eða að
fara að ljúka réttum og lífið er að fara í sitt
eðlilega horf.
Þingsetning var í síðustu viku og ráðherrar
hafa lagt fram þingmálaskrár vetrarins.
Á þingmálaskrá matvælaráðherra fyrir
153. löggjafarþing Alþingis er nú að finna
hvort tveggja tillögu til þingsályktunar um
Matvælastefnu og tillögu til þingsályktunar
um Landbúnaðarstefnu Íslands, en grundvöllur
hennar er skýrsla Hlédísar Sveinsdóttur og
Björns Bjarnasonar, Ræktum Ísland! sem kom
út í ágúst á síðasta ári. Með Landbúnaðarstefnu
fyrir Ísland er ætlunin að huga að umgjörð
landbúnaðar í heild og er stefnunni ætlað
að liggja til grundvallar við endurskoðun
búvörusamninga árið 2023. Ég hvet því alla
bændur til þess að kynna sér stefnuna þegar
hún birtist í samráðsgátt stjórnvalda í febrúar.
Viðhorf neytenda
Í umræðuskjalinu Ræktum Ísland! var talsvert
fjallað um tengsl bænda og neytenda, þ.e.
þau gagnvirku tengsl bænda og neytenda sem
þyrftu að vera til staðar og væru áhrifaþáttur í
að stuðla að aukinni vöruþróun og nýsköpun
innan atvinnugreinarinnar. Einnig var tæpt á
því í stefnunni að neytendur ættu skýlausan rétt
á upplýsingum um uppruna, framleiðsluhætti,
lyfjanotkun og umhverfisáhrif matvæla sem
þeir kaupa í verslunum, neyta á veitingahúsum
eða í mötuneytum. En viðhorf neytenda birtast
matvælaframleiðendum með tvennum hætti.
Annars vegar er um að ræða þann hóp neytenda
sem kýs að láta verð hafa ráðandi áhrif við kaup
á matvælum og þá vegur minna hvort um sé að
ræða íslenska eða innflutta landbúnaðarafurð
því þar skiptir höfuðmáli hvor varan er ódýrari.
Síðan er það hinn hópurinn sem mótast fyrst og
fremst af kröfum þeirra til gæða og þjónustu
og þessi hópur er reiðubúinn að greiða hærra
verð fyrir meiri gæði, umhverfisvænni vöru
með skýrar upprunamerkingar. En byggir
kauphegðun neytenda alfarið á verði eða
gæðum landbúnaðarafurða, eða jafnvel
sambland af hvoru tveggja? Nú loga öll ljós
rauð á meginlandinu og þar undirbýr fólk sig
undir harðan vetur. Framundan eru gríðarlegar
hækkanir á gasi, olíu og rafmagni sem mun
gera fyrirtækjum og heimilum afar erfitt fyrir
og enginn mun sjá fyrir endann á eins og staðan
horfir við núna. Tækifæri okkar er því núna,
að hefja stórsókn í aukinni framleiðslu allra
landbúnaðarvara hér á Íslandi.
Áhrif höfrungahlaupsins
Kjaraviðræður haustsins eru á næsta
leiti og síðustu vikur hafa forkólfar
verkalýðshreyfinganna farið mikinn í
fjölmiðlum. Hafa menn lagt drög að hinum
ýmsum kröfum í aðdraganda viðræðna og
ber þar helst á góma enn frekari stytting
vinnuvikunnar. Því er ágætt að tæpa á því hér að
matur á Íslandi er ekki framleiddur fjóra daga í
viku. Framleiðsla matvæla getur verið ansi langt
ferli, allt frá nokkrum vikum í tilfelli grænmetis
yfir í nokkra mánuði í tilfelli lambakjöts í nokkur
ár í tilfelli nautgripakjöts. Vinnuumhverfi
bænda er þar af leiðandi erfitt og krefjandi.
Bændur þekkja ekki styttingu vinnuvikunnar
eða helgarfrí. Lífsstíll og heimilislíf bænda
er samtvinnað vinnu þeirra með löngum og
óreglulegum vinnustundum. Það sætir því
ákveðinni furðu það höfrungahlaup sem
kjarasamningar á Íslandi virðast fastir í þar sem
alltaf þarf að semja um örlítið meira en síðasti
samningur hljóðaði upp á. Þá sætir jafnframt
furðu málflutningur hagsmunasamtaka um
að neytendur vilji og stýrist alfarið af verði
við kaup á matvælum. Það er nefnilega svo
að einhver verður að taka á sig komandi
launahækkanir og þrátt fyrir að matarkarfan
sé búin að lækka um 6,4% frá 2019 miðað við
laun í landinu, þá er ekki endilega útséð með
það hver áhrif kjarasamningshækkana verða.
Það sé aftur á móti fastlega hægt að gera ráð
fyrir því að það verði skrið á launahækkunum
og eftir stendur nafnlaunahækkun sem minnkar
óðum í meiri verðbólgu.
Við þurfum að spýta í
Landbúnaður líkt og aðrar atvinnugreinar
hafa þróast og tekið miklum breytingum á
undanförnum áratugum og er það að miklu leyti
tæknivæðingunni að þakka, sem og dýravelferð
og kröfur um bættan aðbúnað búfjár. En þessi
þróun hefur leitt til samþjöppunar innan
atvinnugreinarinnar, þar sem bú hafa stækkað
og framleiðsla aukist. En stækkun búa hefur
einnig í för með sér nýjar áskoranir á borð við
auknar áherslur á umhverfismál og umsvifameiri
rekstur búa sem kallar á auknar fjárfestingar
og stækkun húsa. Það eru atriði sem við sem
bændur og hagsmunasamtök bænda þurfum að
horfa til þegar við nálgumst neytendur. En við
þurfum að spýta í og hefja stórsókn í aukinni
framleiðslu en þá má regluverkið ekki hefta og
er það Alþingis að laga svo mögulegt sé að auka
framleiðslu óháð búvörusamningum.
Bændablaðið kemur út 24 sinnum á ári.
Því er dreift ókeypis á yfir 400 stöðum á landinu og á öll lögbýli landsins.
Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti
gegn greiðslu burðargjalds. Árgangurinn (24. tölublöð) kostar þá kr. 12.200 með
vsk. (innheimt í tvennu lagi).
Ársáskrift fyrir eldri borgara og öryrkja kostar 8.000 með vsk.
Heimilisfang: Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík.
Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279
Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar −
SKOÐUN
Landbúnaður og
umhverfisvernd
Rannsóknir og vísindi skipta miklu fyrir
nútímalandbúnað og umhverfisvernd
enda mikilvægt að þessir tveir þættir
fari saman.
Matvælaframleiðsla er grunnþáttur í
tilveru nútímafólks þrátt fyrir að sífellt færri
taki þátt í framleiðsluferlinu og margir vita
jafnvel ekki hvernig maturinn verður til.
Í heimi sem þegar telur um átta milljarða
manna, og það bætast við um 200 þúsund
munnar á hverjum degi, er óhjákvæmilegt
annað en að matvælaframleiðsla gangi á
náttúruna. Það sem meira er að nú þegar
eru flest bestu ræktunarsvæði heimsins
notuð undir ræktun eða eldi. Samkvæmt
FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun
Sameinuðu þjóðanna, eru 35% af landi í
heiminum nýtt undir landbúnað, 1/3 af því
er nýtt til ræktunnar og 2/3 til beitar.
Til samanburðar eru 14,6% af landi í
heiminum flokkað sem friðland og talsvert
af því á undir högg að sækja. Borgir stækka,
námuvinnsla eykst, lítið sem ekkert
dregur úr losun skaðlegra lofttegunda
og drykkjarvatn og jarðvegur er víða
mengað og slíkt ógnar lífríki svæðanna
og líffræðilegri fjölbreytni.
Stundum heyrist að nóg sé framleitt
af mat í heiminum en að vandamálið sé
að honum sé ekki rétt úthlutað, sumir fái
of mikið en aðrir allt of lítið. Þetta kann
að vera rétt en það breytir ekki þeirri
staðreynd að fólki er að fjölga og náttúran
er á undanhaldi.
Rannsóknir í landbúnaði miða að því
að auka framleiðni á þeim svæðum sem
þegar eru nýtt undir matvælaframleiðslu
því bætt gæði hennar er nauðsynlegt
til að fæða allt þetta fólk. Áskoranir í
landbúnaði sem rannsóknir og vísindi
þurfa að takast á við eru fjölmargar og felast
meðal annars í hlýnun jarðar, breytingar á
veðurfari og meiri ofsa í veðri, auknum
þurrkum á stórum svæðum, sjúkdómum
og meindýrum, að draga úr notkun tilbúins
áburðar og eiturefna og á sama tíma auka
vægi lífrænar ræktunar.
Erfðatæknin og beiting hennar lofar
góðu, hvort sem er fyrir minni eða stærri
framleiðendur, ekki síst þegar kemur
að því að auka uppskeru og aðlaga
nytjaplöntur að hlýnun jarðar og breyttum
vaxtarskilyrðum. Auknar rannsóknir á
gömlum ræktunaryrkjum hafa aukist og
mörg þeirra sýna seiglu við sjúkdómum
sem nýta má með erfðatækni til að auka
þol uppskerumeiri yrkja.
Aukin umhverfisvernd og umhverfis-
vitund eru hugtök sem við heyrum nánast á
hverjum degi en á sama tíma heyrast fréttir
um að ekki sé nóg að gert. Sífellt er gengið
á regnskóga heimsins til að auka ræktar-
og beitiland til matvælaframleiðslu og er
kjötframleiðsla á slíkum svæðum sögð ein
helsta ástæðan fyrir glötun á líffræðilegum
fjölbreytileika í heiminum.
Umhverfismál skipta allt mannkyn máli
því samspil landbúnaðar og umhverfis hafa
ekki einungis áhrif á náttúruna og vistkerfið.
Samspilið er ekki síður samfélagslegt og án
efa eiga þau áhrif eftir að aukast og hafa enn
meiri félagsleg áhrif í framtíðinni.
Rannsóknir, nýsköpun, tækni og
fræðsla, sem leiða til þess að bændur geti
nýtt ræktarland betur og aukið magn, gæði
og hollustu framleiðslunnar, eru örugglega
helsta von okkar um að hægt verði fæða þá
tíu milljarða munna sem stefnir í að verði
á jörðinni skömmu eftir miðja þessa öld.
Á sama tíma munu rannsóknir og vísindi
vernda viðkvæm náttúrverndarsvæði og
líffræðilegan fjölbreytileika fyrir framtíðina
og komandi kynslóðir.
/VH
Haustið í allri sinni dýrð
Gunnar Þorgeirsson
formaður Bændasamtaka Íslands
gunnar@bondi.is
GAMLA MYNDIN
Ritstjóri: Guðrún Hulda Pálsdóttir (ábm.) gudrunhulda@bondi.is – Sími: 563 0339 – Blaðamenn: – Ástvaldur Lárusson astvaldur@bondi.is – Margrét Þóra Þórsdóttir mth@bondi.is
Sigrún Pétursdóttir sigrunpeturs@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is
Auglýsingastjóri: Þórdís Una Gunnarsdóttir thordis@bondi.is – Sími: 563 0303
Netfang auglýsinga: thordis@bondi.is – Vefur blaðsins: www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is
Frágangur fyrir prentun: Sigrún Pétursdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621
Kennsla í matargerð á Landbúnaðarsýningunni 1968. Sýningin var haldin í Laugardalshöllinni og á útisvæði við hana. Um 94 þúsund manns
sóttu sýninguna og var hún langmest sótta sýning landsins til þess tíma. Sýnendur voru um 80 og á sýningunni mátti skoða allt það nýjasta í
landbúnaðartækni á þeim tíma auk búfjár og blóma. Kjörorð sýningarinnar voru: Gróður er gulli betri. Mynd / Myndasafn Bændasamtaka Íslands.