Andvari - 01.01.2016, Blaðsíða 26
24
HANNES HÓLMSTEINN GISSURARSON
ANDVARI
landið undir ófrið þann í Norðurálfunni, sem virtist vera á næsta leiti
og skall raunar á í septemberbyrjun. Eftir að Bretar hernámu landið 10.
maí 1940, hvarf þrálátt atvinnuleysi kreppuáranna eins og dögg fyrir
sólu, en jafnframt myndaðist þensla á vinnumarkaði. Alþýðuflokkurinn
gekk úr stjórninni í ársbyrjun 1942 til að mótmæla opinberum af-
skiptum af kjarasamningum. Um vorið sprakk síðan samstarf fram-
sóknarmanna og sjálfstæðismanna, þegar Sjálfstæðisflokkurinn samdi
við Alþýðuflokk og Sósíalistaflokk um leiðréttingar á kjördæma-
skipaninni. Ólafur Thors myndaði minnihlutastjórn. Að ósk laga- og
hagfræðideildar setti menntamálaráðherrann í hinni nýju stjórn, dr.
Magnús Jónsson prófessor, Ólaf dósent í deildinni 27. júní 1942, og
lét Ölafur þá af störfum á Hagstofunni.48 Háskólinn var síðan vinnu-
staður Ólafs alla hans starfsævi. Tveir kennarar voru í fullu starfi í við-
skiptafræði í Háskóla íslands fyrstu árin, Ólafur og Gylfi Þ. Gíslason.
Kenndi Ólafur þjóðhagfræði, haglýsingu íslands, fjármálafræði og fé-
lagsfræði, en Gylfi rekstrarhagfræði og skyldar greinar. Gaf Ólafur
fljótlega út fjölritaðar kennslubækur.49 Kennarar lagadeildar önnuðust
kennslu í lögfræði, en lektorar í heimspekideild sáu um tungumála-
kennslu. Ólafur kenndi einnig í nokkur ár eftir heimkomuna hagfræði
og félagsfræði á kvöldin í námsflokkum Reykjavíkur.50
Ekki voru um þær mundir margir lærðir hagfræðingar á Islandi,
og þótti mörgum fengur að kynnast sjónarmiðum Ólafs Björnssonar.
Hélt hann ræður á mannamótum og flutti útvarpserindi, en skrifaði
líka greinar um hagfræði og stjórnmál í blöð, meðal annars í Vikuna,
sem skólabróðir hans frá Akureyri, Sigurður Benediktsson, ritstýrði,
Eimreiðina og Frjálsa verslun, sem annar skólabróðir frá Akureyri,
Einar Ásmundsson, ritstýrði.51 Ólafur kynnti í Frjálsri verslun og
endursagði kenningar þeirra Lúðvíks von Mises og Friðriks Hayeks
fyrir því, að við sósíalisma fengju lýðræði og einstaklingsfrelsi vart
þrifist og að fasismi og kommúnismi væru tvær greinar af sama
meiði:
Aðalatriðið er mjög einfalt. Það er, að við víðtæka skipulagningu er ætíð gert
ráð fyrir, að menn þurfi að vera alveg sammála um hin mismunandi verðmæti
og þýðingu hinna ýmissu markmiða, sem barist er um í þjóðfélagsmálunum.
Af þessu leiðir, að þeir, sem skipuleggja, verða að halda að almenningi
ákveðnum skoðunum, sem þeim hæfa.52